132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:48]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði hvers vegna stjórnin sækti svo fast að koma lögunum í gegn. Það er einfalt mál. Núgildandi vatnalög eru, eins og hv. þingmaður veit, orðin gömul. Þau eru farin að láta á sjá og ýmislegt hefur verið tínt úr þeim frá því að þau voru sett árið 1923. Margir telja ástæðu til þess að gera á þeim breytingar. Jóhannes Rúnar Jóhannesson, formaður laganefndar Lögmannafélagsins, sagði í umræðum fyrir nefndinni að rétt væri að gera þessa breytingu á skilgreiningu eignarréttarins, færa hana úr hinni jákvæðu skilgreiningu í hina neikvæðu. Það væri í samræmi við, og ég held að ég hafi það orðrétt eftir honum, góða lagasetningarhætti.

Sigurður Líndal segir í grein sinni að fara megi tvær leiðir til að skilgreina eignarrétt. Hin fyrri er sú að telja upp allar heimildir sem eignarrétti fylgja. Sú upptalning verði þó aldrei tæmandi og þar af leiðandi allt of viðamikil, jafnvel villandi. Er það sú leið sem við viljum fara í lagasetningu okkar? Ég get ekki bent á eitthvað eitt sem vantar í hina jákvæðu skilgreiningu. Við höfum hins vegar farið þá leið í öðrum lögum að notast við neikvæðar skilgreiningar. Ég bendi hv. þingmanni á að tímarnir kunna að breytast. Það getur vel verið að upp komi sú staða að nauðsynlegt og rétt verði að skilgreina réttindin með þeim hætti. Það er niðurstaða Sigurðar Líndals, sem ég veit að hv. þingmaður hefur miklar mætur á. Það hefur verið niðurstaða löggjafans í annarri lagasetningu og (Forseti hringir.) er í samræmi við góða lagasetningarhætti.