132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var þar stödd í ræðu minni þar sem ég var að vitna í erindi Péturs Gunnarssonar rithöfundar á ráðstefnu sem BSRB gekkst fyrir í félagi við nokkur önnur félagasamtök þann 29. október sl. undir heitinu Vatn fyrir alla. Pétur Gunnarsson hefur erindi sitt á því að vitna til bókarinnar Lifandi vatnið eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Ég var þar í erindi mínu þar sem persónan í sögunni, verkamaðurinn Pétur hafði misst fótanna í lífinu og farið að ræða um hvernig Kristur talar um sig sem vatn. Ég lauk þarna fyrir hlé á tilvitnun í orð Jesús sjálfs.

„Óneitanlega hraustlega mælt í landi þar sem hitinn fer iðulega yfir 40°, og eyðimörkin allt um kring.

Sex hundruð árum áður en Kristur var á dögum var annar spekingur uppi austur í Kína sem notaði vatn óspart í líkingamáli sínu. Í Bókinni um veginn segir hann um taó (sem þýðandinn íslenski kallar Alvaldið):

„Alvaldið er óþrotlegt eins og sírennandi lind …“ og: „Hin æðsta dyggð er eins og vatnið. Á allan hátt er það nytsamt. Án baráttu sest það þar að sem auvirðilegast þykir. Þannig er Alvaldið.“

Enn fremur: „Ekkert er mýkra og gljúpara í heimi en vatnið, en ekkert kemst til jafns við það í því að eyða hinu harða og sterka; — að því leyti ber það af öllu.“

Taóistinn Halldór Laxness gerir vatni hátt undir höfði í trúarriti sínu hinu mikla, Kristnihaldi undir jökli. Á einum stað takast þeir á kenningasmiðurinn og grillufangarinn Goodman Sýngmann og séra Jón prímus. Þegar sá fyrrnefndi hefur útlistað kenningu sína um vísindalega lífmögnum milli stjarna og rakið frumþætti epagókíkurinnar og epígenetíkurinnar, eiga eftirfarandi orðaskipti sér stað:

Séra Jón: „Ég hef bara eina teóríu Mundi minn.

Dr. Sýngmann: Þó það! kanski hún eigi eftir að frelsa heiminn.

Séra Jón: Hún er að minstakosti ekki lakari en aðrar teoríur.

Dr. Sýngmann: Kondu með hana John!

Séra Jón: Ég hef þá teóríu að vatn sé gott.

Dr. Sýngmann: Við kvefi eða hvað?

Séra Jón: Skilmálalaust. Þarf ekki einusinni að fara eftir minni teóríu nema maður sé þyrstur...“

Og í annarri rökræðu, að þessu sinni við umboðsmann biskups, Umba, dregur séra Jón væntingar sínar og afstöðu til lífsins saman í fjögur orð:

„Kalt vatn handa mér“.

Þannig er vatnið, undraefni, ekki bara í eðlisfræðilegum skilningi heldur í sköpunarmætti sínum til að búa til merkingu og tákn sem dugi til að réttlæta gervalla tilveruna.

Vatn hefur líka frá alda öðli verið mælikvarði á velmegun samfélaga. Veldi Kína í fornöld birtist í risavöxnum stíflum og áveitum. Og vatnsleiðslur Rómverja eru enn í dag stórbrotin minnismerki um mekt þeirra og ekki fyrr en á okkar dögum sem menn hafa komist með hælana þar sem þeir höfðu tærnar í vatnsneyslu. Táknrænt þegar Vandalar tóku í sundur leiðsluna miklu fyrir norðan Róm og skrúfuðu fyrir vatnið og felldu þar með Rómarveldi um koll.

Á okkar dögum þykir vatnsneysla mælikvarði á velmegun á líkan hátt og þjóðarframleiðsla. Meðaldagskammtur af neysluvatni í Bandaríkjunum mun vera yfir 300 lítrar á mann, en 100–200 lítrar í Evrópu. Fáeinir lítrar á mann í vanþróunarlöndunum.

Og margt bendir til að vatn eigi eftir að skipa æ stærri sess í lífi komandi kynslóða. Því á meðan vatnsmagn jarðar er föst stærð sem hvorki vex né minnkar heldur breytir aðeins um búning fjölgar mannkyninu með veldisvaxtarhraða. Áætlaður mannfjöldi hnattarins við lok ísaldar og upphaf nútíma er 5–10 milljónir, við upphaf landafunda um 1500 er hann á bilinu 300–500 milljónir, við upphaf 20. aldar nálgaðist mannkyn tvo milljarða og við upphaf yfirstandandi aldar stappar það nær sex milljörðum og stefnir í 12 milljarða á dögum þeirra sem voru að fæðast í morgun.

En vatnsþörfin eykst jafnvel enn hraðar en fólksfjölgunin, á síðastliðinni hálfri öld hefur hún fjórfaldast á meðan mannfjöldinn hefur tvöfaldast. Og á sama tíma skortir mjög á umgengni mannsins við þessa auðlind.

Í Gerplu Halldórs Laxness er skaðræðisgripur, maður að nafni Butraldi Brúsason, sem ferðast um Vestfirði og mígur í brunna manna. Svívirðilegt athæfi. En hvað á þá að segja um allan þann úrgang sem síast frá okkur út í ár, vötn og höf. Til dæmis að taka var það svo seint sem árið 1982 sem fáein ríki bundust samkomulagi um að hætta að varpa kjarnorkuúrgangi í höfin. Og enn leið áratugur áður en Rússar treystu sér til að setja stafina sína undir samninginn. Er þá ógetið slysa á borð við Tjernobyl eða þegar rússneskur kjarnorkukafbátur sökk við Noregsstrendur árið 1989 þar sem hann liggur á 1695 metra dýpi og spurning hvenær hann spýr eitri sínu út í hafstraumana. Eða liðónýt skip sem sigla með olíufarma, skráð í einhverjum afturúrríkjum þar sem engin lög gilda. En tekst náttúrlega ekki að sniðganga lög eðlisfræðinnar, þar duga hvorki mútur né undanbrögð, og ýmist sökkva eða stranda með langdrægum afleiðingum.

En það þarf ekki að leita til stórslysa, sjálfir lifnaðarhættir okkar eru vel liðtækir líka. Um þá er kannski ískyggilegast hve fáir njóta þeirra. Þessa dagana horfum við upp á örvæntingarfulla Afríkubúa henda sér á gaddavírsgirðingarnar sem eiga að stía þeim frá allsnægtum Evrópu. En Kínverjar og Indverjar hafa aftur á móti tekið til sinna ráða með efnahagsuppbyggingu sem miðar að því að hver fjölskylda eignist sinn ísskáp og sinn einkabíl. Þegar það er orðið mun olía jarðhnattarins verða gengin til þurrðar og ósonlagið líka.

Ýmis teikn eru nú á lofti um að hamfaraþáttur náttúrunnar sé hafinn. Og sjaldan hefur verið eins ríkulegt framboð af heimsendaspám. Ekki bætir úr skák að tungumálið gerir okkur þá glennu að tala um hlýnun andrúmsloftsins án þess að rúma afleiðinguna sem er kólnun vegna yfirvofandi röskunar hafstraumanna sem hlýnunin leiðir af sér.

Hvert er svo hlutskipti Íslands í þessari heimsslitamynd? Að vísu munum við ekki þurfa um sárt að binda ef golfstraumurinn raskast, en að honum gefnum er vatnsbúskapur okkar með ólíkindum.

Ísland er annars alveg dæmalaust. Þetta harðbýla land þegar upphlaðinn for-landnámsforðinn var upp urinn. Og mannfólkið margsinnis nær því dó út á þessum berangri, skjálfandi úr kulda, tálgað af hungri. Þjóðin líkt og strandaglópur á eyðiskeri.

Síðar kom á daginn að þetta sama land var allan tímann með fullar hendur allsnægta sem stóðu þjóðinni til boða, ef hún bara kunni að bera sig eftir þeim. Ekki einasta gátum við hitað húsin okkar með jarðhitanum, heldur lýst þau upp með því að virkja bæjarlækinn og látið í leiðinni rafmagnið sækja fyrir okkur vatnið heim í hús. Síðar tóku stærri vatnsföll að framleiða orku sem tók af okkur ómakið alls staðar þar sem aflsmuna þurfti við.

Þetta var þarna allan tímann, aðeins beið það eftir því að við kveiktum á því.

Og nú er fyrirsjáanlegt að öll þau ókjör af vatni sem streyma úr undirdjúpum, flæða ofan jarðar eða falla af himni þessarar eyju eigi eftir að verða að auðlind nýbyrjaðrar aldar. Ef marka má könnun sem Sameinuðu þjóðirnar létu gera verður vatn á næstu 50 árum verðmeira en olía. Er þá ekki örgrannt um að aftur komi upp í hugann ljóðlínan úr Aldasöng Bjarna skálds, ortum fyrir um 400 árum: „er skráð í annáls letri / Ísland var Noreg betri“.

Nema okkur takist enn eina ferðina að finna upp fyrirkomulag þar sem almannaeign verður séreign fáeinna sem mylji fyrir okkur gullið gegn því að við fáum molana sem kunna að hrjóta af kvótakvörninni.

En aftur að skáldskapnum. Það íslenskt skáld sem mest og best hefur ort um vatnið í öllum þess myndum er án efa Ólafur Jóhann Sigurðsson. Svo vikið sé við orðum annars skálds má segja að hvar sem maður fletti ljóðum hans ólgi og syngi uppsprettulindir landsins.

Mig langar til að ljúka máli mínu með ljóðinu Bæn úr bókinni Að Laufferjum.

Úr djúpum brunnum himinsins

fellur skúr eftir skúr

á þyrsta vorfrjóa jörð

– skúr eftir skúr á tún bóndans

og laufkvik heimkynni þrastarins

á bert andlit öræfalands

og hár lítilla barna.

Þér guðir sem ráðið brunnum og geislum:

ég kýs ekki að glóa og leiftra

þrái ekki að líkjast sólum yðar

logandi hjólum á óendanlegum blávegum

né tunglum yðar í náttfölri kyrrð

né stjörnum yðar

titrandi sindri í hljóðum geimhvelfingum.

Þér guðir sem ráðið brunnum og geislum:

megi líf mitt líkjast þessu niðandi regni

tæru og svölu

þessum smáu dropum sem brynna vorfrjóum dal

og laufkvikum hlíðum

falla á tún bóndans

væta bert andlit öræfalands

og glitra um stund í hári lítilla barna.“

Frú forseti. Þetta var erindi Péturs Gunnarssonar, Lifandi vatnið, sem hann hélt á ráðstefnunni Vatn fyrir alla, 29. október sl. og mér fannst tilefni til að flytja þetta erindi hér vegna þess að það kemur svo víða við í þeim farvegi sem ég vil að þessi umræða sé, þ.e. Pétur Gunnarsson lítur til hins stóra samhengis. Hann lítur til Íslands fyrr og nú. Hann lítur til veraldarinnar allrar. Hann horfir á vatnið með skáldlegum augum, með augum skáldanna okkar og sýnir okkur í þessu erindi fram á það að auðlindin vatn er sameign mannkynsins. Mér finnst viðeigandi að við hér á hinu háa Alþingi, þegar við fjöllum um vatnalagafrumvarp iðnaðarráðherra, lítum okkur örlítið nær í þessum efnum.

Ég gagnrýni hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að vilja gína yfir öllu sem lýtur að vatni í þessari löggjöf okkar. Ég gagnrýni hana fyrir að sniðganga umhverfisráðuneytið. Ég gagnrýni umhverfisráðherra fyrir að heimila iðnaðarráðherra að sniðganga sig og sínar stofnanir. Ég gagnrýni ríkisstjórnina alla fyrir að fara fram með því harðfylgi í þessum frumvarpaflutningi hæstv. iðnaðarráðherra þar sem hún flytur nú í kippum lög sem eiga að heimila henni sem iðnaðarráðherra og þeim iðnaðarráðherrum sem á eftir koma, og stofnunum iðnaðarráðherrans, alla umsýslu með þessari auðlind. Það er í hæsta máta óeðlilegt og rökin eru við hvert fótmál.

Nú langar mig aðeins að vitna til þeirrar röksemda sem koma fram í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands til iðnaðarnefndar. Það má í framhjáhlaupi gagnrýna að þetta mál skuli ekki vera sent fleiri nefndum þingsins. Ég hefði gjarnan viljað sjá umhverfisnefnd sitja á rökstólum með iðnaðarnefnd þegar umfjöllun átti sér stað um þetta mál. Hefði gjarnan viljað fá tækifæri sem umhverfisnefndarmaður til að spyrja þá gesti iðnaðarnefndar sem höfðu þar fram að færa ákveðinn boðskap út úr um sjónarmið í þessum efnum. Ég óskaði svo sem eftir því við 1. umr. málsins og hér á fyrri stigum að þetta væri mál af því tagi að það ætti að fara til fleiri nefnda en iðnaðarnefndar. En við því er daufheyrst af því vilji ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er einn og bara einn. Það á að skófla þessu máli hér í gegn samkvæmt vilja iðnaðarráðherra burt séð frá því hvað öðrum sjónarmiðum líður.

Í bréfi Náttúrufræðistofnunar Íslands til iðnaðarnefndar, sem dagsett er 23. nóvember sl., er því fagnað að eilitlar breytingar hafi orðið á 1. gr. frumvarpsins frá því sem var á síðasta ári, 131. löggjafarþingi, þegar það var flutt en þar hefur markmiðsgreinin, þ.e. 1. gr., fengið viðbót sem Náttúrufræðistofnun lagði til á síðasta þingi þannig að núna ber markmið frumvarpsins þess merki að líta eigi til annars en upphaflega var ráð fyrir gert við vatnsnýtingu eða nýtingu vatnsréttinda. Þannig er 2. mgr. 1. gr. svohljóðandi í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Náttúrufræðistofnun fékk því áorkað að „lífríki þess, vistkerfum eða landslagi“ var bætt inn í 2. mgr. Er það sannarlega vel og tek ég undir jákvæðar undirtektir Náttúrufræðistofnunar í þessum efnum. Maður skyldi ætla, þegar þessi breyting er orðið sýnileg, að þeim sem um stjórnvölinn halda í þessu tilliti sé ekki alls varnað. En þar með er það í raun og veru upp talið af þeim af þeim ábendingum sem komu frá Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun á síðasta þingi. Þetta er faktískt það eina sem tekið hefur verið mið af og hefur leitt til breytinga á frumvarpinu. Þess vegna getur Náttúrufræðistofnun Íslands sagt með sanni að að öðru leyti en því hvað þessa breytingu varðar standi stofnunin við umsögnina frá 2. mars 2005, þ.e. frá síðasta vori, og sendir hana reyndar til þingnefndar ásamt nýju umsögninni sem ég er að vitna til.

Náttúrufræðistofnun vill auðvitað árétta það sem ég hef sagt hér, hversu lífsnauðsynlegt vatn er fyrir manninn, hversu lífsnauðsynlegt efni það er fyrir manninn og lífríki jarðarinnar. Náttúrufræðistofnun ræðir um hina sífelldu hringrás vatnsins um heiminn og á hvern hátt það er í grundvallaratriðum ólíkt öðrum jarðrænum auðlindum. Í framhaldi af því segist stofnunin eindregið vera þeirrar skoðunar að forgangsröðin varðandi lagasetningu um vatn og umsýslu með því eigi að vera eftirfarandi: Í fyrsta lagi hollustuhættir, í öðru lagi umhverfi og í þriðja lagi orkunýting. Náttúrufræðistofnun Íslands tekur allsendis undir með þeim stjórnarandstæðingum sem hér hafa tjáð sig og okkur sem höfum rætt hér hvert á fætur öðru um þetta mál þar sem við höfum verið á einu máli um að nýtingarþátturinn og verndarþátturinn eigi að fylgjast að. Við höfum gert kröfu um það sem Náttúrufræðistofnun tekur undir að það eigi að bíða með þessa lagasetningu, bíða með sértæka lagasetningu um eignarhald og nýtingu vatns þangað til vatnatilskipun Evrópusambandsins kemur til með að verða lögleidd hér á landi en þar er einmitt sama forgangsröðun og Náttúrufræðistofnun Íslands vill hafa á hlutunum, þ.e. hollustuhættir í fyrirrúmi, umhverfið þar á eftir og orkunýtingin í þriðja og síðasta lagi. En við höfum rætt það hér að vatnatilskipunin mun vera í þýðingu í umhverfisráðuneytinu og að í undirbúningi mun vera einhvers konar frumvarp sem byggir á henni, vatnsverndarfrumvarp eins og greint er frá í greinargerð með því frumvarpi sem við hér ræðum. En ég spyr hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra í henni, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra: Hversu lengi eigum við að þurfa að bíða eftir því að sjá lagafrumvarp sem byggir á vatnatilskipun Evrópusambandsins? Er það að öllu leyti forsvaranlegt þegar krafan er jafnhávær frá fagstofnunum og raun ber vitni, því að Umhverfisstofnun tekur að sjálfsögðu undir þessi sjónarmið, að hunsa þessi sjónarmið, sniðganga þennan vilja þeirra sem sýsla með þessi mál í kerfinu og láta eins og menn séu ekki segja þetta, skella skollaeyrum við því.

Frú forseti. Mér finnst þetta fyllilega ótækt og mér finnst eins og ríkisstjórnin sýni þessum stofnunum, sem eru höfuðstofnanir á sviði umhverfisverndar, verulega lítilsvirðingu með því að láta ekki svo lítið að svara þessum ávirðingum og þessum rökum eða þessu ákalli Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar er heldur ekki svarað að neinu marki í nefndaráliti meiri hlutans sem við höfum hér á þingskjali. Hér er því verið að sniðganga verulega alvarlegar ábendingar og fullkomlega eðlilegar ábendingar sem þessar stofnanir setja fram.

Í ljósi þess hvernig samfélagsumræðan hefur þróast þá vill Náttúrufræðistofnun Íslands vekja athygli á því að við höfum annars vegar talað um eignarhald á vatni og hins vegar um almannarétt og náttúruvernd frá því að þetta frumvarp kom fram á Alþingi. Náttúrufræðistofnun Íslands hvetur okkur til að íhuga alvarlega að halda ákvæðinu um eignarhaldið eða nýtingarréttinn, sem getið er í 2. gr., óbreyttu frá því sem er í gildandi lögum. Þar með ætti ákvæðið að vera efnislega eitthvað á þessa leið: „Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt sem lög þessi heimila“, en þetta orðalag hefur reynst farsælt í tímans rás segir Náttúrufræðistofnun Íslands og telur ekki ástæðu til að breyta því formsins vegna. En eitt af því sem hefur verið gagnrýnt hér hástöfum er það að hæstv. iðnaðarráðherra segir að hér sé einungis um formbreytingu að ræða en ekki efnisbreytingu en þar eru menn ósammála eins og kemur fram í umsögnum til nefndarinnar.

Náttúrufræðistofnun gerir líka að umtalsefni greinargerð þá sem Orkustofnun sendi inn til nefndarinnar og segir okkur beinlínis að í greinargerð Orkustofnunar, sem meiri hluti iðnaðarnefndar virðist taka ansi mikið mark á, séu settar fram villandi upplýsingar. Mér finnst auðvitað ábyrgðarhluti að slíkt skuli gerast að Orkustofnun skuli setja fram villandi upplýsingar út frá sjónarmiðum þeirra sem sýsla með náttúruverndarmál innan okkar kerfis. Það segir og undirstrikar kannski líka enn betur þá hættu, sem ég hef bent á, að setja öll þessi mál undir Orkustofnun án þess að taka tillit til þeirra stofnana sem sýsla með málin á umhverfisverndarsviðinu. Það sem Náttúrufræðistofnun og fulltrúar hennar á fundi iðnaðarnefndar bentu á m.a. og leggja mikla áherslu á í umsögnum sínum er að skilgreiningarnar í frumvarpinu séu út úr öllu korti þar sem verið er að skilgreina hugtök eins og grunnvatn og jarðhita. Þetta er langur listi en hér eru hugtök eins og rennsli, stöðuvatn, vatnsból, vatnsfall, vatnsflæði, vatnsleg, vatnsnýting, vatnsveita, vatnsvirki og þjóðlenda. Stór hluti af þessum hugtökum er þannig skilgreindur að höfuðstofnanir okkar á sviði náttúruverndar og umhverfisverndar gera alvarlegar athugasemdir við það. Við því er í engu brugðist af meiri hluta iðnaðarnefndar.

Sömuleiðis gagnrýna stofnanir okkar á sviði umhverfismála eignarréttarákvæðin í frumvarpinu. Þau gagnrýna á harðorðan hátt eftirlitið, telja að hér sé verið að koma upp tvöföldu eftirliti, og gagnrýna að sjálfsögðu skort á samráði við þessar stofnanir á sviði umhverfisnefndar og náttúruverndar. Það hefur verið fullyrt hér í ræðustóli, frú forseti, að haft hafi verið samráð við stofnanir umhverfisráðuneytisins og gott ef þess er ekki getið í greinargerð frumvarpsins. Heimildir mínar, sem ég tel afar áreiðanlegar í þessum efnum, eru þess eðlis að samráðið við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafi verið í skötulíki. Það mun hafa verið þannig að umhverfisráðuneytið hafði samband við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands og kallaði forstöðumenn þessara stofnana á sinn fund áður en frumvarpið var lagt fram í þessum nýja búningi. Umhverfisráðuneytið ætlaði að leggja frumvarpið fram eða drög að þessu frumvarpi á þeim fundi en þegar forstöðumennirnir komu til fundarins kom í ljós að umhverfisráðuneytið hafði ekki fengið leyfi til að sýna þessum aðilum frumvarpið þannig að forstöðumenn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands fengu ekki að sjá frumvarpið í þeim búningi sem átti að leggja það fram og sem það á endanum var lagt fram í í nóvember sl. Svo leyfir hæstv. iðnaðarráðherra sér að fullyrða það oftar en einu sinni í ræðustóli að haft hafi verið samráð. Við komumst að öðru í umfjöllun iðnaðarnefndar um málið og nú krefst ég þess að hæstv. iðnaðarráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum og svari til saka fyrir það að hafa haldið Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands frá málinu á öllum stigum þess. Það var ekki fyrr en málið var komið fram og er orðið opinbert plagg sem þessir aðilar höfðu einhvern aðgang að því. Það er auðvitað algerlega óforsvaranlegt að vinnu sé svona háttað við mál af þessu tagi þar sem það er viðurkennt í greinargerðinni að líta þurfi til fleiri þátta en nýtingarþáttarins þar sem beinlínis er gerð grein fyrir því að vatnsverndarfrumvarp sé í burðarliðnum og að unnið sé að lögleiðingu vatnatilskipunarinnar hér á landi og það er tekið fram að tilskipunin taki til vatnafars og vatnsbúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfi og verndun þess.

Það hlýtur að verða að fást svar við þeirri spurningu, frú forseti, hvers vegna í ósköpunum hæstv. iðnaðarráðherra leggst gegn því að vatnsverndarlög fari í gegnum þingið samferða því frumvarpi sem við ræðum hér. Enn er ekki komið neitt vitrænt svar við þeirri spurningu. Það er búið að spyrja bæði beint og óbeint aftur og aftur í umfjöllun um þetta mál og því er ekki svarað. Það er ekki skrýtið þó að stjórnarandstaðan sé orðin ansi pirruð og gagnrýni iðnaðarráðherra fyrir það hvernig farið er með spurningar okkar og hversu lítið er gert úr málflutningi okkar því að í hverri umræðunni á fætur annarri er ekki komið til móts við sjálfsagðar spurningar okkar og þær gagnrýnisraddir sem við höfum fært fram og eru studdar verulega málefnalegum rökum þeirra stofnana sem láta sig umhverfismál og náttúruverndarmál skipta og eru til þess bærar að lögum að sýsla með þann þátt.

Um vatnatilskipun Evrópusambandsins er það annars að segja að ég held að segja megi að öll Evrópusambandslöndin séu búin að taka hana í sín lög en eftir því sem ég best veit munu Noregur og Liechtenstein hafa gert kröfur um aðlögun að tilskipuninni. Það kemur reyndar fram í greinargerðinni að Noregur og Liechtenstein hafi gert slíka kröfu og haldi því fram að ákveðinn hluti hennar falli alls ekki undir EES-samninginn og að þau atriði sem liggja utan EES-samningsins varði náttúruvernd, dýravernd, auðlindastjórnun og gjaldtöku eða skattlagningu fyrir vatnsnotkun en eins og segir í greinargerðinni munu nú standa yfir viðræður um aðlögunartexta milli framkvæmdastjórnar ESB og EFTA-skrifstofunnar og reiknað er með því að þeim viðræðum muni ljúka fljótlega eftir áramótin 2006. Nú er fullt tilefni, frú forseti, til að spyrja, og það liggur við að ég segi að ég geri mér grein fyrir því að ekki sé hlýtt á mál mitt af hæstv. ríkisstjórn, en sú spurning verður í öllu falli að koma hér fram: Hvað líður viðræðum Noregs, Liechtensteins og Íslands á þessum vettvangi? Hvernig hefur þessum viðræðum lyktað? Eru þær búnar og hvað hefur komið út úr þeim?

Í greinargerð með frumvarpinu segir líka að gangi kröfur EFTA-landanna þriggja eftir muni lögleiðing tilskipunarinnar taka til notkunar og meðhöndlunar á vatni sem kann að leiða til mengunar eða rýrt getur gæði vatns og umhverfi þess. Þarf þar að kveða á um stjórn vatnsnotkunar, rannsóknir og vöktun á vatnsgæðum og vatnafari til að stuðla að vernd vatns og sjálfbærri notkun. Þannig þarf að leiða í lög hér á landi stjórn vatnsverndar og liggur þegar fyrir í drögum frumvarp þess efnis sem unnið var á vegum starfshóps umhverfisráðuneytisins sem starfar að lögleiðingu áðurnefndrar tilskipunar og í eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Þess er getið að sú löggjöf sem um ræðir muni falla undir umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun en tryggt verði náið samráð við iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun. Svo er fullyrt hér, og það er auðvitað ein af þeim spurningum sem hafa komið fram í umræðunni aftur og aftur varðandi þá fullyrðingu sem er í greinargerðinni, að frumvarp það sem hér er lagt fram, þ.e. vatnsverndarfrumvarpið, eigi í engu að skarast við væntanlegt frumvarp stjórn vatnsverndar. Og ég spyr: Hvers vegna fáum við þá ekki að sjá a.m.k. drög að þessu frumvarpi um vatnsvernd áður en þetta frumvarp fer í gegnum Alþingi?

Það er sem sagt við það miðað að vatnsverndarfrumvarpið muni ekki stangast á við það frumvarp sem við ræðum hér og það er líka sagt í greinargerðinni að þetta frumvarp um vatnalög skarist ekki við tilskipun Evrópusambandsins um verndun vatna. Einnig segir að reglurnar, sem eru af umhverfisréttarlegum toga, skipti meira máli en áður, ekki einungis vegna áhrifa Evrópuréttar heldur einnig í skuldbindingum af alþjóðlegum toga og eru nefndir sérstaklega til sögunnar Ríó-sáttmálinn, samningurinn um líffræðilega fjölbreytni sem gerður var í Rio de Janeiro 5. júní 1992 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 11. desember 1994. Í Ríó-sáttmálanum, eða Ríó-yfirlýsingunni eins og hún er venjulega kölluð, hafa líffræðilegur fjölbreytileiki og sjálfbær þróun öðlast sess sem meginreglur við nútímaauðlindastjórnun. Það er mikill skaði, frú forseti, að þessari ríkisstjórn, sem setið hefur allt of lengi við völd, skuli aldrei hafa lánast að leiða í lög meginreglur umhverfisréttar og ég hef hvað eftir annað spurt út í hverju það sæti að t.d. varúðarreglan svokallaða hafi ekki verið leidd í lög á Íslandi. Hún er nefnd í lögunum um mat á umhverfisáhrifum, ef ég man rétt, og jafnvel fleiri lögum.

En það er ágætt að segja frá því hér að oftar en einu sinni var á síðasta áratug lögð fyrir Alþingi tillaga eða frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar þar sem gert var ráð fyrir því að þessar meginreglur yrðu að vera til staðar í lögum til að tryggt yrði að þeirra gætti t.d. í framkvæmdum hér á landi. Markmiðssetning þess frumvarps sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi 1997–1998 var svohljóðandi, í frumvarpi á þskj. 1339 frá því ári, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja að meginreglna umhverfisréttar verði ávallt gætt við framkvæmd og skýringu laga er varða umhverfið. Markmiðið er að vernda umhverfið og stuðla að því að einstaklingar sem og komandi kynslóðir fái notið þeirra gæða sem felast í heilnæmu umhverfi og náttúruauðlindum. Við framkvæmd laga skal hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar höfð að leiðarljósi. Leggja skal áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til verndar umhverfinu og að umhverfisvandamál verða best leyst á þeim stað þar sem þau eiga upptök sín.“

Reglurnar, sem lagt er til í frumvarpinu að verði leiddar í lög, eru varúðarreglan, mengunarbótareglan og sömuleiðis að sett verði lög um mat á umhverfisáhrifum, sem var nú gert en enn er ekki búið að lögleiða varúðarregluna. En í frumvarpinu, sem ég vitna til, er greinin um hana svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef hætta er talin á alvarlegu eða óbætanlegu umhverfistjóni má ekki beita fyrir sig skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum fyrir því að fresta aðgerðum er koma í veg fyrir hugsanlegt tjón.“

Mér þykir svolítill fengur að því að hafa þetta frumvarp í höndunum og hef margoft hugleitt það hvort ekki sé tímabært að endurflytja það. Ég hefði gaman af því að tala fyrir svona máli í þessum sal. Ég hef haldið að mér höndum, kannski vegna þess að þetta frumvarp var samið af framsóknarráðherranum Guðmundi Bjarnasyni á sínum tíma og talað fyrir því af honum. Ég veit ekki hvort ég yrði sökuð um ritstuld ef ég endurflytti þetta frumvarp óbreytt þó ég mundi geta höfundarins. En það sem mér finnst skipta verulegu máli í þessu sambandi, og þess vegna orða ég þetta hér við þessa umræðu um vatnalög, er að horfa heildstætt á hlutina. Eitt af því sem Ríó-samningurinn gerði var einmitt það, hann horfði heildstætt til allra þátta sem lúta að umhverfismálum, allrar auðlindanýtingar, þar með taldrar vatnsnýtingar. Það má segja að undir réttarsvið umhverfisréttarins falli reglur sem leitast við að lýsa æskilegri og óæskilegri hegðun manna og hafa ýmist að markmiði að vernda, stýra eða bæta umhverfið. Með þessum reglum umhverfisréttarins skal stefnt að því að vernda umhverfið til lengri tíma en ekki láta skammtímahagsmuni einstaklinga af því að nýta sér gæði náttúrunnar ráða ferðinni. En það eru einmitt þeir hagsmunir sem hæstv. iðnaðarráðherra ber fyrir brjósti í þessu frumvarpi og þeim frumvörpum öðrum sem hún hefur verið að flytja hér á síðustu mánuðum, þ.e. skammtímahagsmuni þeirra einstaklinga sem vilja nýta sér gæði náttúrunnar, t.d. til orkuframleiðslu.

Þessar meginreglur umhverfisréttar, sem ég geri að umtalsefni, hafa öðlast viðurkenningu, bæði í alþjóðarétti og í landsrétti þjóða. Lönd hafa verið samviskusöm. Vesturlönd hafa af mikilli samviskusemi verið að innleiða þessar reglur frá því að Ríó-sáttmálinn var gerður eða samningarnir í Ríó og Ríó-yfirlýsingin undirrituð. Þær hafa ýmist verið settar fram sem stjórnvaldsfyrirmæli eða í landslögum og í alþjóðasáttmálum, sem lönd eru skuldbundin til að fara eftir, en eiga þó fyrst og fremst uppruna sinn í alþjóðasamvinnu ríkja um umhverfismál sem hófst, má segja, með stofnun Sameinuðu þjóðanna um miðja síðustu öld.

Það er sárgrætilegt hversu sjaldan sú ríkisstjórn sem við búum við hér uppi á Íslandi áttar sig á því að hún er hluti af þessari heild, af þjóðabandalaginu sem stendur að baki samningunum sem gerðir voru í Ríó og endurnýjuðum yfirlýsingum sem gerðar hafa verið eftir það, t.d. Jóhannesarborgaryfirlýsingunni frá 2002. Maður heldur stundum að þessi ríkisstjórn telji sig geta undirritað alþjóðasamninga út um allar trissur en þegar heim er komið telji hún sig ekki bundna af þeim eða geti látið vera að innleiða í lög þau ákvæði sem samningarnir mæla fyrir um. Það er verulegt áhyggjuefni, frú forseti. Það er áhyggjuefni að ríkisstjórnin skuli ekki enn hafa áttað sig á því að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er ekki eitthvert fyrirbæri sem hún getur túlkað eftir eigin höfði eins og hún gerir í ritinu Velferð til framtíðar, ritinu sem hún hefur verið skylduð til að gefa út vegna þessa ferlis sem við stöndum að með hinum Sameinuðu þjóðum. Í því riti, Velferð til framtíðar, skilgreinir ríkisstjórnin hugtakið um sjálfbæra þróun eins og hún hafi lesið regluna með gleraugum þess í neðra því það er svo langt í frá að tekið sé á sannleikanum í því máli.

Sömuleiðis má segja að ríkisstjórnin sé að svíkja það sem hún hefur undirritað á norrænum vettvangi. Það er kannski ekki eins algengt að maður geti gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir það að hún svíkist undan merkjum Norðurlandanna. Það er kannski algengara að hún geri það þegar um alþjóðasamninga er að ræða en í nóvember 1998 samþykktu forsætisráðherrar Norðurlandanna og pólitískir leiðtogar sjálfstjórnarsvæðanna yfirlýsingu um sjálfbær Norðurlönd. Sú yfirlýsing var undirrituð í Ósló 9. nóvember 1998 og var síðan gefin út í viðamikilli bók sem fjallar um þessa stefnu, Sjálfbær Norðurlönd. Mig langar til að vitna til þessar yfirlýsingar, með leyfi forseta, en þar segir:

„Við, forsætisráðherrar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, lögmaður Færeyinga, formaður landsstjórnar Grænlands og oddviti landsstjórnarinnar á Álandseyjum erum sammála um að vinnan að sjálfbærri þróun sé eitt mikilvægasta verkefnið í upphafi fyrstu aldar þriðja árþúsundsins.

Okkur er ljóst mikilvægi hins nýja Amsterdam-sáttmála og niðurstöðu af fundi Evrópuráðsins í Cardiff í júní 1998 um sjálfbæra þróun í Evrópusambandinu, starfs sem miðar að „norðlægri vídd“ í stefnu Evrópusambandsins, Dagskrár 21 fyrir Eystrasaltssvæðið (Baltic 21), starfsins í AEPS (nú Norðurheimskautsráðið), Barents-yfirlýsingarinnar og samvinnu sem fylgir í kjölfar sameiginlegrar yfirlýsingar okkar í Björgvin um sjálfbæran orkubúskap kringum Eystrasalt.

Við erum sammála um að eftirfarandi markmið eigi að hafa að leiðarljósi við þróun sjálfbærra Norðurlanda og sjálfbæra þróun á grannsvæðum okkar.

1. Tryggja skal núlifandi og komandi kynslóðum öruggt og heilbrigt líf.“ — Frú forseti, munum eftir því hvernig Náttúrufræðistofnun vildi forgangsraða í sambandi við vatnsmálin. Í fyrsta sæti var heilbrigðisþátturinn, hollustuþættirnir. Það er í 1. tölulið þessarar yfirlýsingar Norðurlandaráðherranna að tryggja skuli núlifandi og komandi kynslóðum öruggt og heilbrigt líf.

„2. Sjálfbært samfélag verður að byggja á lýðræði, gagnsæi og þátttöku í stað- og svæðisbundnu samstarfi og samstarfi ríkja í milli.

3. Varðveita skal líffræðilega fjölbreytni og framlegð vistkerfa.

4. Losun mengandi efna sem berast í loft, jörð og vatn má ekki vera yfir mörkum þess sem náttúran þolir.“ — Losun á mengandi efnum sem berast í loft, jörð og vatn má ekki vera yfir þolmörkum náttúrunnar. Þarna er aftur fjallað um vatnið.

„5. Nýta verður endurnýjanlegar auðlindir og vernda þær markvisst innan ramma endurnýjunargetu þeirra.“ — Þetta er auðvitað afar mikilvægur punktur, frú forseti. Og áfram skal haldið:

„6. Óendurnýjanlegar auðlindir á að nýta þannig að náttúruleg hringrás haldist og þróa skal og styðja endurnýjanlega valkosti.

7. Skapa verður sterka vitund í samfélaginu um þær ráðstafanir og þau ferli sem leiða til sjálfbærrar þróunar.

8. Áfram ber að vinna að því að samþætta grundvallarreglur sjálfbærrar þróunar í starfi allra geira samfélagsins.

9. Vekja ber athygli á hlutverki frumbyggja í því að koma á sjálfbærri þróun.

10. Stefna skal að því að efni, sem eru framandi í umhverfinu og skaðleg mönnum og náttúru, hverfi í framtíðinni.

11. Nauðsynleg nýsköpun á að hvetja til markvissari notkunar orku og náttúruauðlinda en nú er.“

Svo segir, með leyfi forseta, áfram:

„Við felum Norrænu ráðherranefndinni, með ofangreind markmið að leiðarljósi, að móta áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndunum og grannsvæðum þeirra, áætlunin skal byggja á samþættingu margra geira. Leggja ber áherslu á þau svið þar sem Norðurlöndin eiga sameiginlega hagsmuni og þar sem þau hafa sérlega góðar forsendur til að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar og þar sem norrænt samstarf skapar virðisauka. Vinnunni skal vera lokið árið 2000.“

Frú forseti. Árið 2000 kom út skýrsla frá þessum norrænu ráðherrum sem gekk í gildi árið 2001. Í þessari áætlun kveður á um markmið og verkefni sem á að vinna að á tímabilinu 2001–2004 og sömuleiðis er getið um langtímamarkmið — nú verð ég að biðja um aðstoð, frú forseti, því þetta glas lekur, nei, nú er komið annað hérna undir, ég er búin að bjarga þessu. Það má kannski segja að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar í málefnum sjálfbærrar þróunar sé jafnhriplek og þetta glas sem ég var að hella vatninu mínu í. Mér finnst það svolítið táknrænt að þetta skuli gerast akkúrat í ræðustóli hér þar sem ég er að reyna að brýna ríkisstjórnina og benda henni á nauðsyn þess að hún fari að þeim samþykktum sem hún hefur sjálf undirritað á erlendri grund, og það skiptir verulegu máli að ríkisstjórnin fari eftir þessum 11 punktum sem norrænu ráðherrarnir hafa samþykkt og margir þeirra varða nýtingu náttúruauðlinda á borð við vatnið. Við erum hér skuldbundin til að fara öðruvísi að en ríkisstjórnin gerir með hæstv. iðnaðarráðherra í broddi fylkingar.

Það er síðan að frétta af þessari áætlun um sjálfbær Norðurlönd, frú forseti, að hún rann sitt skeið, fyrsta tímasetta markmiðsáætlunin sem gilti frá 2001–2004. Nú hefur litið ljós endurskoðuð útgáfa með markmiðum og verkefnum sem eiga að gilda fyrir árin 2005–2008 og það er afar mikilvægt að markmiðum þeim sem þar eru sett fram sé fylgt, þau séu kynnt og gerð heyrinkunn því að það skiptir máli að þjóðin, og allir þeir sem vinna á vettvangi orku- eða auðlindanýtingar á Íslandi, viti hvað í þessu felst. Um er að ræða skuldbindingar sem okkur öllum er gert að standa við.

Í endurskoðuðu áætluninni, frú forseti, er m.a. bent á ýmis ný markmið og verkefni sem fara á í á tímabilinu 2005–2008 án þess að á nokkurn hátt sé hróflað við langtímamarkmiðum áætlunarinnar. Sérstaklega er komið inn á aðgerðir sem varða sjálfbæra framleiðslu og neyslu en norrænu ráðherrarnir segja þetta vera í samræmi við framkvæmdaáætlun leiðtogafundarins um sjálfbæra þróun, sem haldinn var í Jóhannesarborg 2002 og ég nefndi til sögunnar áðan.

Í stefnumörkuninni er kafli um félagslegu víddina þar sem sérstök áhersla á lögð á lýðþróun, lýðheilsu, menntun og vísindi. Þess var síðan getið að áætlunin hafi verið send um 120 frjálsum félagasamtökum á Norðurlöndum til umsagnar og mikilvægt sé að komið verði til móts við sjónarmið frjálsra félagasamtaka. Norrænu ráðherrarnir segjast hafa skilning á því að frjálsu félagasamtökin séu mikilvægur liður í að ná þessum markmiðum áætlunarinnar. Þessi áætlun um sjálfbæra þróun felur í sér umræðupunkta fyrir breytingar sem eiga að leiða okkur í átt að sjálfbærri þróun í norrænu ríkjunum og í norrænu samstarfi. Síðan er talað um að norrænar framkvæmda- og starfsáætlanir byggi á þessari áætlun og hún fylgi þeirri forgangsröðun sem er í norrænu samstarfi. Lögð er áhersla á að samþætta regluna um sjálfbæra þróun á öllum sviðum þjóðfélagsins og að markmið yfirlýsingarinnar séu skilgreind nánar í þverfaglegri áætlun um sjálfbæra þróun. Aðgerðirnar sem getið er um eru á sjö þverfaglegum sviðum en þau eru, með leyfi forseta:

„Sjálfbær framleiðsla og neysla; félagslega víddin; loftslag; líffræðileg fjölbreytni; hafið; íðefni, og matvælaöryggi. Þessi svið eru sérstaklega hentug til að undirstrika aðalatriðin í yfirlýsingu forsætisráðherra. En þau eru: Líffræðileg fjölbreytni, mengun lofts jarðar og vatns, nýting endurnýjanlegra og óendurnýjanlegra auðlinda og að hætt verði að nota efni sem eru hættuleg umhverfinu og heilsu fólks. Síðar í skýrslunni, frú forseti, er getið um að á þverfaglegu sviðunum bíði fjöldinn allur af verkefnum lausnar sem varða umhverfið, verkefni sem varða heilsu fólks og ýmsa félagslega og efnahagslega þætti þar sem samþætting sjónarmiða sjálfbærrar þróunar í þverfaglegum verkefnum sé forsenda þess að árangur náist. Því má segja að öxull áætlunarinnar sé að hafist verði handa við að samþætta umhverfissjónarmið og sjálfbæra þróun á útvöldum sviðum. Þessi útvöldu svið sem nefnd eru til sögunnar eru orkumál, samgöngur, landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar. Meginreglan í norrænu samstarfi að sjálfbærri þróun í þessari áætlun og þeirri fyrri er að það ríki sem mestan metnað hefur verði í fararbroddi en þannig reynist norrænt samstarf lyftistöng bæði í ríkjunum og á alþjóðavettvangi.

Ég vildi sannarlega, frú forseti, að íslensk ríkisstjórn væri í fararbroddi, t.d. hvað varðar auðlindanýtingu. En það getum við ekki sagt. Það stefnir í óefni á Íslandi hvað varðar orkumál og öll þessi langtímamarkmið sem getið er um í áætluninni sjálfbær Norðurlönd virðast ætla að fara fyrir lítið hjá ríkisstjórninni sem hefur setið á Íslandi allt of lengi og hefur stefnt í þann farveg sem raun ber vitni. Við erum skuldbundin, samkvæmt norrænu áætluninni, til að nýta orkulindirnar okkar á skilvirkan hátt við að efla atvinnutækifæri og efnahag. En okkur er ekki heimilt að gera það á þann hátt sem íslenska ríkisstjórnin er að gera, þ.e. þar sem ekki er tekið tillit til umhverfisins. Orkukerfið okkar á að stuðla að því að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum og aðra loftmengun í heiminum og það á að sjá til að aukin nýting verði á endurnýjanlegri orku.

Ég hef fært að því rök oftar en einu sinni í ræðustól, frú forseti, að virkjanir á borð við Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjanir sem ríkisstjórnin áformar í jökulvötnum með stórum uppistöðulónum geta ekki flokkast undir að vera sjálfbærar. Þær eyðileggja um langan aldur náttúruleg auðæfi sem hafa ekki síður gildi en aðrir hagsmunir sem líta ber til í þessum efnum, þ.e. atvinnuhagsmunir þjóðarinnar.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja um að það sé aðeins einn fundur hér í salnum.)

Takk, frú forseti.

Kannski er ekki tilefni til að fara mikið nánar í markmið norrænu ráðherranna hvað varðar sjálfbæra þróun. En ég heyri að það er vilji fyrir því í salnum að ég fari nánar yfir þann kafla, þ.e. 9. kafla sem varðar orkumálin. Ég skal þá tæpa hér á þeim verkefnum sem norrænu ráðherrarnir hafa orðið sammála um, og nota bene íslenskir ráðherrar eru líka í hópi þeirra ráðherra sem hafa samþykkt þessi markmið. En þar segir:

Norðurlöndin munu auka nýtingu og samræmingu á hagnýtum stjórnunartækjum til að þróa sjálfbæran orkuiðnað og minnka álag orkuneyslu á Norðurlöndunum á umhverfið. Með skilvirkum og umhverfisvænum markaðsaðstæðum verður að mestu leyti hægt að fela aðilum orkumarkaðarins að koma á sjálfstæðari háttum í orkuiðnaðinum. Norðurlöndin munu starfa saman að orkuviðskiptum, uppbyggingu, uppbyggingu aðstöðu og þarfagreiningu á aðgerðum til að tryggja orkuveitu á Norðurlöndum til langframa. Norðurlöndin halda áfram svæðisbundnu samstarfi, hagnýtri skilvirkni og umhverfisvænni uppbyggingu á aðstöðu á Norðurlöndunum og við Eystrasalt. Það krefst annars vegar svæðisbundins samstarfs yfirvalda og hins vegar yfirvalda og orkuframleiðenda.

Norðurlöndin styðja þá þróun sem á sér stað innan ramma BASREC, samstarfs á sviði orkumála í baltnesku löndunum. Norðurlöndin munu minnka losun gróðurhúsalofttegunda svo um nemur fram til 2010 og verði Eystrasaltssvæðið þar í fararbroddi. Þetta samstarf er nú orðið formlegt með sameiginlegum rammasamningi. Hans er getið í sviga í textanum, frú forseti, sem „Testing ground agreement“, innan ramma sveigjanleikaákvæðis Kyoto-bókunarinnar. Testing Ground Facility sjóðurinn hefur verið stofnaður til að fjármagna sameiginleg verkefni við Eystrasalt.

Norðurlöndin munu starfa saman að þróun stefnu, stjórnunartækja og tækni til að auka skilvirkni orkunnar. Þróun á vetnisgasi sem orkubera og aukinni notkun á endurnýjanlegum orkulindum á svæðinu. Norðurlöndin munu leggja áherslu á að gera ramma um höndlun koltvísýrings í iðjuverum sem byggir á jarðefnaeldsneyti og annarri punktlosun. Norðurlöndin munu halda áfram norrænu samstarfi um rannsóknir í orkumálum sem fer fram á vegum norrænna orkurannsókna. Markmið norrænna orkurannsókna er að skapa forsendur sem byggjast á þekkingu á arðsamri minnkun orkuneyslu til langs tíma litið og þróun á nýjum endurnýjanlegum orkulindum og umhverfisvænni orkutækni.

Að síðustu munu Norðurlöndin vilja breikka samstarfið til að efla hnattræna nýtingu endurnýjanlegrar og skilvirkari orku í öllum heiminum, efla samstöðu ríkja sem eru á sama máli og sem hittust á leiðtogafundinum í Jóhannesarborg og framkvæma niðurstöður Bonn-ráðstefnunnar.

Á sama tíma og íslenskir ráðherrar undirrita þessi markmið, frú forseti, eru þeir á harðahlaupum á eftir stórum álhringum vítt og breitt um veröldina og bjóða þeim upp á gósenland, orku sem þeir segja að sé framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum, sem er ekki rétt vegna þess að það er ekki hægt að tala um endurnýjanlega orkugjafa þegar gengið er á náttúruauðlindirnar á þeim nótum sem íslensk stjórnvöld gera núna. Unnin eru varanleg náttúruspjöll sem eru óafturkræf, lífríkinu er eytt, líffræðilegum fjölbreytileika er teflt í tvísýnu og svo mætti lengi telja. Hér er því ekki um sjálfbæra nýtingu auðlindanna að ræða.

Ef við værum hins vegar að tala um rennslisvirkjanir þar sem ár væru virkjaðar í farvegi sínum væri allt annað uppi á teningnum. En þannig virkjanir getum við ekki boðið risastórum álfyrirtækjum. Þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hvað eftir annað í ræðustól og segir að ríkisstjórnin hafi hnattrænan ávinning í huga að þá verður að minna hæstv. forsætisráðherra og iðnaðarráðherra á að sá hnattræni ávinningur er svo sáralítill í hnattrænu samhengi að ekki er orð á því gerandi.

Þegar hæstv. forsætisráðherra fjallar um að við fórnum vatnsauðlindum okkar á altari stóriðjunnar til að draga úr hnattrænni losun, því að ef við mundum ekki reisa þessar álverksmiðjur og afla orku til þeirra með vatnsauðlindum þá yrðu reist orkuver sem mundu brenna kolum, þá segi ég, frú forseti, að ég fullyrði og staðhæfi að í dag eru ekki reist nein orkuver sem brenna kolum til álframleiðslu. Hins vegar er fjöldi álvera reistur vítt og breitt um heiminn en þau orkuver sem sjá þeim verksmiðjum fyrir orku eru flest í vatnsafli. Hér hefur verið í fréttum oftar en einu sinni í fjölmiðlum, þriggja gljúfra stíflan í Kína sem fer að stórum hluta í risaálbræðslur í Kína. Hæstv. forsætisráðherra getur ekki talað úr ræðustól líkt og aðrar álbræðslur sem verið er að reisa í veröldinni séu allar knúnar með orku frá kolaverum. Það er ekki svo.

Þegar íslensk ríkisstjórn leyfir sér, eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert, að auglýsa land okkar sem stóriðjuparadís, þar sem hægt er að kaupa orku á útsöluverði, „lowest energy prices“ stendur utan á bæklingnum sem markaðsskrifstofa Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytisins sendi frá sér árið 1995, og hefur verið endurútgefin í örlítið hófstilltari útgáfu, sem heitir „Locate in Iceland – Resources for growth“, þ.e. komið ykkur fyrir á Íslandi, þar eru auðlindir sem þið getið nýtt ykkur til vaxtar. Nú heitir markaðsskrifstofan ekki lengur markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar eins og hún hét, heldur heitir hún upp á ensku, ég hef hvergi séð þann titil íslenskaðan. Mér sýnist sú skrifstofa alls staðar nefnd á ensku, í öllum gögnum sem ég finn „Invest in Iceland“, þ.e. með því að snara því þá er þetta umboðsskrifstofa fyrir þá sem vilja fjárfesta á Íslandi.

Hvað eru íslensk stjórnvöld að markaðssetja í þessum nýja bæklingi? Þar getur að líta fyrst og fremst umhverfi sem gagnast getur orkufrekum iðnaði. Hér eru myndir af jarðvarmavirkjunum okkar og risastíflumannvirkjum sem verið er að reisa. Hér eru örfáar myndir sem lúta að hátækniiðnaði. Að öðru leyti er hér áherslan á stóriðju og stóriðju eingöngu. Hráefnin í náttúrunni okkar, fiskurinn og landbúnaðurinn og vatnið, er fjallað um með hástemmdum lýsingarorðum, m.a. hvernig ferskvatn á Íslandi sé óviðjafnanlegt á heimsmælikvarða að öllu leyti. Því er lýst hvernig uppspretturnar okkar bjóða upp á vatn sem hægt er að flytja út og nýta í alls kyns drykkjarvörur, hvar sem er í heiminum. Í þessum bæklingi er fjallað um vatnið sem ríka auðlind, miklu ódýrari en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu.

Heyr á endemi, frú forseti. Þetta segir ríkisstjórnin við umheiminn: Komið hingað því hér getið þið fengið allt fyrir ekkert, orkuna okkar, tæru uppspretturnar okkar. Gjörið svo vel. Menn eru sendir til að fara á hnén fyrir erlenda álauðhringa og koma svo hingað færandi hendi með loforð um að nú eigi að fara í viðræður um álverksmiðjur hér og álverksmiðjur þar. Það er mál að linni, frú forseti. Þessi ríkisstjórn verður að fara að átta sig á því að auðlindin sem við fjöllum hérna um, vatnið okkar og möguleikar vatnsins, eru aðrir heldur en að framleiða úr henni ódýra orku fyrir risastóra erlenda auðhringa.

Ég tók með mér, frú forseti, af því að mér finnst það athyglisvert í þessari umræðu allri, álitsgerð auðlindanefndar sem skilaði af sér skýrslu í september árið 2000. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi hana til sögunnar í efnismikilli ræðu sinni í gær og fyrradag. Það er auðvitað eðlilegt að við drögum fram þessa skýrslu og við köllum eftir því að hún sé oftar uppi á borðum þingmanna og menn hafi hliðsjón af þeirri álitsgerð þegar vélað er um auðlindir okkar, t.d. vatnsauðlindina, í frumvarpinu sem við ræðum um hér. Það er heillangur kafli um nýtingu vatnsorkunnar í auðlindaálitsgerðinni. Þar er bæði farið yfir íslenska raforkumarkaðinn með tilliti til sögunnar og einnig skoðuð hin sögulega framvinda. Sömuleiðis er eignarhaldsins getið í heilum kafla. Fjallað er um auðlindarentu í vatnsaflsvirkjunum og möguleika á auðlindagjaldi. Eins er fjallað um vatnsafl í þjóðareign, sem er eitt af því sem ég hef gert að umtalsefni. Þar er talað um skipulag raforkumála og ýmsa þætti sem að því lúta.

Það skiptir verulegu máli, frú forseti, þegar við vinnum álitsgerðir af þessu tagi að oftar sé litið til þeirra en raun ber vitni. Þessi álitsgerð er nánast týnd og tröllum gefin og ríkisstjórnin hefur hana greinilega ekki til hliðsjónar þegar hún setur fram mál af því tagi sem hér er til umfjöllunar, sem er stefnumarkandi um langa framtíð. Oft hvarflar að manni að ríkisstjórninni finnist orka fallvatnanna bara vera skammvinn auðlind sem megi fórna á altari stórfyrirtækjanna í eitt skipti fyrir öll, gera samninga til að allt að 40 ára eins og dæmi eru um og láta sér vel líka. Ég er allsendis ósátt við þetta ráðslag og hef bent á það á hvern hátt ég tel ríkisstjórnina fara hér á svig við þá samninga sem hún hefur gert á alþjóðavettvangi. Ég hef rökstutt mál mitt með því að vitna til nokkurra slíkra.

Við sem störfum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum oft sett fram bæði þingmál og stefnumörkun sem lýtur að því á hvern hátt eigi að nýta þessa auðlind okkar, vatnsauðlindina, með tilliti til orkunýtingar þá fyrst og fremst. Við höfum í fórum okkar hugmyndir um sjálfbæra orkustefnu þar sem lagst er gegn stóriðju og stórvirkjunum í þágu mengandi iðnaðar og lagt til að farnar verði aðrar leiðir. Við teljum mjög mikilvægt að það verði tryggt að orkan frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi stig af stigi innflutta orku af hólmi jafnhliða því sem verði dregið úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda. Við teljum smávirkjanir og rennslisvirkjanir eins og ég nefndi áðan í mörgum tilfellum vera vænlegan kost til staðbundinna nota og ég hefði gjarnan viljað sjá á borði ríkisstjórnarinnar einhvers konar áætlun um slíkt. En því er ekki að heilsa, það er ekki einu sinni til áætlun um stóriðjubrjálæðið því að þessi ríkisstjórn hefur bara farið blindandi út á þessa braut og sést ekki fyrir í þeim efnum, kappkostar að koma Íslandi á kortið sem víðast á sölulista stórfyrirtækjanna sem þau telja að eigi að fá heimildir til að kaupa hér orku á útsöluverði til að bræða ál.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum hins vegar að það verði við orkuöflunina og orkunýtinguna að taka ríkulegt tillit til náttúruverndarinnar og til umhverfisins. Við teljum að skoða eigi þá þætti fyrst áður en nýtingarkostirnir yrðu settir upp. Á þeim nótum hefur málflutningur okkar verið varðandi rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Fyrst skulum við meta landið og ákveða hvað sé þess virði að vernda og síðan skulum við skoða hug okkar um það sem eftir er með tilliti til orkunýtingar. Þá skulum við líka setja hlutina í forgang, fara fyrst í að reyna að losa okkur við jarðefnaeldsneytið og hætta að flytja inn olíur og bensín til orkunota. Förum nú í broddi fylkingar fyrir þeirri hugmyndafræði að vetnið geti verið orkuberi í framtíðinni. Setjum allt okkar afl í það en eyðum ekki öllum þeim fjármunum sem við erum að eyða í að lokka stóriðjuna hingað til Íslands því að þeim peningum er á glæ kastað. Þeim peningum erum við að kasta fyrir auðjöfra veraldarinnar. Og hverju fórnum við? Við fórnum náttúruverðmætum. Við fórnum okkar dýrmætu ósnortnu náttúru sem við gætum verið að nýta á allt annan hátt. Ísland gæti verið í fararbroddi ríkja í veröldinni hvað þetta varðar ef við kæmum áfram þessu vetnisverkefni okkar af alvöru en notuðum það ekki bara eins og einhverja rós í hnappagatið til að punta okkur með á tyllidögum til að sjá í raun til þess að þeir sem sækja okkur heim eða skoða hér aðstæður átti sig ekki á því hvert við stefnum í sambandi við stóriðjumálin, hvernig við erum í raun og sann að fara með náttúruauðlindir okkar.

Ég hefði viljað sjá og við Vinstri græn höfum lagt fram um það þingmál þar sem við gerum ráð fyrir að ekki verði farið út í fleiri virkjanir fyrir stóriðju og ekki út í neinar stórvirkjanir fyrr en niðurstöður rammaáætlunar liggja fyrir. Nú er verið að vinna með báðar hendur fyrir aftan bak síðari hluta eða annan hluta rammaáætlunarinnar og ljóst að afskaplega margt er eftir að gera með tilliti til ýmissa þátta sem komu fram í fyrri hlutanum, þ.e. í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það eru verkefni sem beinlínis blasir við að þarf að fara í. Fara þarf í gegnum ákveðið mat t.d. á landslagi og ákveðnum þáttum í náttúrunni okkar þar sem við þurfum að vega og meta og búa til ákveðna skala um hvað er dýrmætara öðru. Það er ekki fyrr en við erum búin að fara af alvöru í gegnum þá vinnu sem við getum í sjálfu sér sagt að fyrsta áfanganum sé lokið. Annar áfanginn er, eins og ég sagði áðan, í vinnslu en á allt öðrum forsendum en sá fyrri og færri menn sem koma þar að og greinilega miklu minna í lagt. Og svo virðist, eins og ég hef staðhæft hér í þessum ræðustóli oftar en einu sinni, ekki eiga að gera neitt með þetta á endanum.

Þetta eru ástæðurnar, frú forseti, fyrir því að ég hefði talið að við hefðum átt að sjá hér fyrst á borðum okkar öfluga löggjöf um vatnsvernd áður en iðnaðarráðherra yrði hleypt lausri í þennan frumvarpaflutning sem ég hef gagnrýnt. Mér finnst skipta mestu máli að við tryggjum vernd náttúrunnar, vernd hálendisins með heildstæðu skipulagi og stofnum þjóðgarða á heimsmælikvarða og friðlönd sem sómi verður að en ekki eftir á, eins og ríkisstjórnin er nú að gera í tilfelli Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem vissulega glæsilegur þjóðgarður kemur til með að geta orðið til en það sér hvert mannsbarn að fleinninn sem rekinn hefur verið í hjarta þess þjóðgarðs, þ.e. Hálslón og Kárahnjúkavirkjun, er auðvitað svartur blettur sem við komum aldrei til með að geta máð af slíkum þjóðgarði. Þarna var forgangsröðunin röng alveg á sama máta og forgangsröðunin hér í þessum frumvarpaflutningi er röng. Við þurfum að tryggja það til langs tíma að fullnægja þörfum þjóðarinnar fyrir orku. Við þurfum að gera áætlun um á hvern hátt við ætlum að fullnægja þessum þörfum okkar með sjálfbærum innlendum orkugjöfum án þess að náttúra landsins og umhverfi þess bíði af því óafturkræfan skaða. Slíka áætlun erum við ekki að gera, því miður, við erum að rasa um ráð fram í þessum efnum.

Við þurfum að mínu mati að koma í veg fyrir orkusóun og mér finnst líka í þessum töluðu orðum eðlilegt, af því að við höfum rætt hér mikið um raforkuverð til íslenskra fyrirtækja og raforkuverð á innanlandsmarkaði, að eðlilegt væri að ríkisstjórnin fari að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar raforkuverðið, sérstaklega eftir þær breytingar sem iðnaðarráðherra hefur gengist fyrir á raforkumarkaði og allt stefnir í óefni í þeim efnum þar sem fyrirtæki eru farin að kvarta sáran undan því hversu hátt raforkuverðið er orðið og menn eru komnir á fremsta hlunn með að flýja land bara undan raforkuverðinu einu saman. Á sama tíma er stóriðjan að borga núll komma ekki neitt fyrir kílóvattstundina þannig að virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun, risavirkjun, er með arðsemi sem fjöldi hagfræðinga hefur gefið yfirlýsingu um að sé óásættanleg.

Það er alveg ljóst að Ísland á og hefur átt möguleika — mér finnst þeir nú vera að minnka með ári hverju, eftir því sem núverandi ríkisstjórn situr lengur eru möguleikarnir að veikjast — á að vera gildur aðili og virkur samstarfsaðili í alþjóðasamstarfinu til verndar loftslagi gegn mengun andrúmsloftsins af völdum orkunotkunar. Mér finnst eitt það sorglegasta sem hefur yfir okkur dunið á síðustu vikum vera þessar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um að hann ætli sér í þann leiðangur eða senda umhverfisráðherra í þann leiðangur að afla frekari losunarheimilda fyrir koltvísýringsheimildirnar á vettvangi Kyoto-bókunarinnar núna þegar samningaviðræður um annað losunartímabil eða skuldbindingartímabil bókunarinnar er að hefjast.

Þessi hæstv. forsætisráðherra er ekki með það á hreinu hvað hann hefur verið að undirrita í útlöndum varðandi sjálfbæra þróun eða sýn til 21. aldarinnar í þeim efnum. Hann er ekki þess umkominn að fara fyrir hönd Íslands með samningsumboð í þessum málum. Ég hef staðið hér og gagnrýnt þennan hæstv. forætisráðherra og samráðherra hans í þessum efnum í nokkur ár samfleytt og það virðist ekkert hrína á þessu fólki. Það linnir ekki áætlunum og fyrirhyggjuleysið er alveg jafnmikið núna og það var fyrir sex eða sjö árum þegar ég flutti fyrstu ræður mínar úr þessum ræðustóli.

Eða hvers vegna er ekki búið að útfæra áætlanir og kynna þær á Alþingi um hvernig vetnissamfélag Íslendingar geta rekið? Og af hverju er ekki búið að leggja fram einhvers konar hugmyndir um að við gætum nýtt vetni sem orkubera í framtíðinni í samfélagi okkar? Fiskiskipafloti okkar gæti farið yfir á vetni innan margra ára ef það yrði bara gerð um það áætlun og fjármunir settir í það. Það hefur ekki verið vilji til þess alveg á sama hátt og ekki hefur verið vilji til þess að ljúka rammaáætluninni um nýtingu vatnsafls og jarðvarma svo sómi væri að.

Frú forseti. Ég hef vikið að því hvernig vatnið er auðlind sem erfitt er að henda reiður á vegna þess hvernig eðli hennar er, hvernig vatnsdropinn rennur um landareign landeigandans til sjávar og gufar þaðan upp og þéttist og verður að skýi og rigningu og vökvar jarðargróður og rennur síðan aftur gegnum jarðvatnið út í árnar og hringrásin er endalaus. Við teljum okkur eiga á Íslandi gjöfular uppsprettur í þessum efnum. Ég tel að þjóðin öll átti sig alveg á því hversu mikil verðmæti eru fólgin í þessum auðlindum okkar. En við erum kannski aldrei nógu oft, vegna þess hversu heppin við erum, minnt á það að í dag er áætlað að rúmlega milljarður manna eða með öðrum orðum einn sjötti hluti mannkynsins hafi takmarkaðan eða jafnvel engan aðgang að hreinu drykkjarvatni. Talið er að um 2,5 milljarða manna skorti vatn til að geta þvegið sér og gætt hreinlætis í lífi sínu. Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið það út að verði ekki gripið til einhverra aðgerða muni rúmlega 1,5 milljarðar manna bætast við þann fjölda, við þessa 2,5 milljarða sem ég gat um áðan, til ársins 2015 og það jafnvel á svæðum sem eru auðug af vatni eins og Vesturlönd. Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið það út að nú sé farið að bera á því að það fari að skorta hreint vatn á Vesturlöndum. Hvar erum við þá stödd uppi á Íslandi með okkar hreinu og tæru orkulindir að vera að nýta þær á þann hátt og á þeim nótum sem við erum að gera? Og hvar erum við stödd að vera að heimila hæstv. iðnaðarráðherra að leiða í lög að nýtingarsjónarmið og hagsmunir orkuframleiðenda séu númer eitt, tvö og þrjú, alfa og ómega í umsýslu vatns á Íslandi?

Þetta er ekki forsvaranlegt, frú forseti, það þarf að fara að með öðrum hætti, fara að með meiri gát en verið er að gera og þess vegna er alveg óþarfi fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að kveinka sér eitthvað undan þessari gagnrýni því að hún á sér svo djúpar rætur þegar maður horfir á þetta frá sjónarmiði veraldarinnar allrar. Rétt er að minna líka á að aðeins örfáir dagar eru í að blásið verði til baráttu í nafni vatnsins um veröld alla því að 22. mars verður haldinn má segja vatnsdagur, alþjóðlegi vatnsdagurinn, þar sem frjáls félagasamtök koma til með að vera mjög áberandi í því að setja fram kröfur um m.a. að vatnsveitur og vatn verði aðgengilegt fyrir alla íbúa jarðarinnar. Og eitt af því sem hefur heyrst frá Evrópu er að — ég hef frétt það frá Evrópusambandinu, starfsfólki í almannaþjónustu — að áhersla muni verða lögð á það á þessum alþjóðlega vatnsverndardegi, 22. mars, að fá vatn undanskilið þjónustutilskipun Evrópusambandsins, sem hefur verið umdeild á undanförnum missirum en það dró til tíðinda í þeim efnum á Evrópuþinginu 16. febrúar sl. en þá voru greidd atkvæði um þá tilskipun, þjónustutilskipun, og hún afgreidd upp á næsta þrep sitt í því ferli sem hún er í núna. Það er verulega mikil andstaða við þessa tilskipun í heild sinni innan Evrópusambandsins og ekki hvað síst þá þætti hennar sem varða vatn og þjónustu vatnsveitnanna í löndum Evrópusambandsins.

Það er líka athyglisvert, frú forseti, að í síðasta mánuði, 21. febrúar, var samþykkt á 9. heimsþingi Alkirkjuráðsins ályktun sem snýr að nýtingu vatnsauðlinda, en eins og ég gat um fyrr í máli mínu er þjóðkirkjan meðal þeirra stofnana sem stóðu að vatnsverndarráðstefnunni sem haldin var 29. október á Grand Hóteli. Alkirkjuráðið hefur verið mjög virkt í baráttunni fyrir vernd vatnsins og vatnsauðlindarinnar í heiminum á alþjóðavettvangi. Í þessari nýju ályktun Alkirkjuráðsins eru kirkjur hvattar til að beita sér fyrir því að öllum sé tryggður aðgangur til vatns og þess sé gætt að vatnslindir séu ekki gerðar að markaðsvöru. En hvað erum við að innleiða hér, frú forseti? Við erum að innleiða hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir því að vatnið sé fyrst og síðast markaðsvara, markaðsvara kvölds, morgna og um miðjan dag. Það eru sjónarmið viðskiptaráðherrans, sem líka situr í sæti hæstv. iðnaðarráðherra, að svo skuli vera og vatnsverndarsjónarmiðin komist ekki að. — Nú er þetta vatn enn að pirra mig, frú forseti. Hér leka glösin fleiri en eitt en blessað vatnið er nauðsynlegt fyrir ræðumenn í ræðustóli Alþingis þegar langar ræður eru fluttar. Ég held að ég mundi ekki hafa mikið úthald í að flytja langar ræður ef ég hefði ekki blessað vatnið.

Mig langar, frú forseti, að vitna örlítið til þessarar ályktunar Alkirkjuráðsins sem gerð var á 9. heimsþingi Alkirkjuráðsins, eins og ég sagði áðan. Það var haldið 14.–23. febrúar sl. Segja má að í nokkrum liðum sé lagt til að farið verði í ákveðna íhugun og framkvæmdir varðandi málefni vatnsins, bæði svæðisbundið og alþjóðlega. Með leyfi forseta, segir í ályktuninni:

„Lagt er til eftirfarandi:

9. heimsþing Alkirkjuráðsins 14.-23. febrúar 2006 í Porto Alegre:

a) tekur undir yfirlýsinguna um Vatn til að lifa og kallar kirkjur og samkirkjuleg ráð til að vinna saman með það markmið í huga:

b) að auka vitund um og grípa til nauðsynlegra aðgerða til viðhalds og verndunar vatnslinda gegn ofnýtingu og mengun sem þætti í réttinum til lífs;

c) að beita sér fyrir átaki til að þróa lagaleg úrræði til að tryggja að rétturinn til vatns verði talinn grundvallarmannréttindi á landsvísu, á meðal þjóða og þjóðarheilda;

d) að stuðla að samvinnu kirkna og hjálparsamtaka í málefnum er varða vatn, með þátttöku í samtökunum Ecumenical Water Network;

e) að styðja félagsleg frumkvæði sem hafa það að markmiði að gera heimamönnum mögulegt að hafa umsjón með og stjórna vatnslindum og varna ofnýtingu í viðskiptalegum tilgangi;

f) að hvetja ríkisstjórnir og alþjóðleg hjálparsamtök til að setja í forgang að koma á fót fullnægjandi sjóðum og öðrum aðferðum til að tryggja aðgang og fullnægjandi framboð á vatni til samfélaga og einnig stuðla að þróun hreinlætiskerfa og taka með í reikninginn þarfir fatlaðra til að hafa aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu;

g) að fylgjast með samþykktum sem varða vatnslindir og upptökusvæði áa til að tryggja að slíkar samþykktir innihaldi nákvæm og skýr fyrirmæli til að koma í veg fyrir átök.“

Þetta er meðal þess sem samþykkt var í Porto Alegre á 9. heimsþingi Alkirkjuráðsins sem haldið var í síðasta mánuði undir yfirskriftinni Vatn til að lifa. Að sjálfsögðu fjalla þessir andans menn í löngu máli um á hvern hátt vatn er tákn lífsins, ekki ólíkt því sem Pétur Gunnarsson gerði í erindi sínu á ráðstefnunni hér heima og Jakobína Sigurðardóttir gerði í sögu sinni Lifandi vatnið.

Það er ekki að ófyrirsynju að rétt er að hafa þessi stóru samtök og þetta stóra samhengi í huga þegar við skoðum það frumvarp sem við ræðum. Eins og Landvernd getur um í umsögn sinni til iðnaðarnefndar er mikilvægt að mati Landverndar — og það hafa fleiri náttúruverndarsamtök tekið undir og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt það til í þeirri vinnu sem nú fer fram varðandi stjórnarskrána — að ákvæði verði sett inn í stjórnarskrána sem tryggir að vatn verði skilgreint sem mannréttindi. Stjórn Landverndar segir í umsögn sinni til iðnaðarnefndar að hún hafi lagt til við stjórnarskrárnefnd eftirfarandi tillögu að ákvæði í stjórnarskrá Íslands, með leyfi forseta:

„Heilnæmt vatn og loft, náttúran og fjölbreytni hennar, landslag, annað umhverfi og aðgengi að náttúru eru gæði sem allir bera ábyrgð á að nýtt séu með sjálfbærum hætti. Jafnframt skulu borgarar landsins sýna aðgát þannig að náttúru landsins og auðlindum sé ekki spillt. Stjórnvöldum ber að leggja sig fram um að tryggja öllum rétt til heilnæms vatns, lofts og annars umhverfis og aðgengis að náttúru. Allir skulu hafa aðgengi að upplýsingum og ákvörðunum er varða þessa þætti.“

Þetta er tillaga stjórnar Landverndar að kafla í stjórnarskrána sem lýtur að því að vatn sé mannréttindi alveg á sama hátt og það eru mannréttindi að eiga aðgang að heilnæmu lofti, þá sé það mannréttindamál að eiga aðgang að heilnæmu og hreinu vatni.

Stjórn Landverndar ítrekar reyndar líka í umsögn sinni það sem segir um vatn í sameiginlegri yfirlýsingu þjóðkirkjunnar og fjölmargra félagasamtaka sem ég hef nefnt fyrr í máli mínu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.“

En eins og við vitum er hæstv. iðnaðarráðherra að gera tilkall til vatnsins í öllu þessu ólíka formi hvort sem er fljótandi eða í formi gufuafls. Við þekkjum þau frumvarp sem hún hefur verið að leggja fram um jarðrænar auðlindir þar sem allt er gert út frá forsendum nýtingar þvert á hugmyndir um vatnsvernd í veröldinni sem ég hef getið um í máli mínu. Stofnunin sem síðan á að fara með allt þetta vatn í hvaða formi sem það blessaða vatn er er Orkustofnun en stofnanir umhverfisráðuneytisins sniðgengnar í þessum efnum.

Samkvæmt umsögn Landverndar sem ég hef vitnað til sem iðnaðarnefnd Alþingis fékk senda 28. nóvember 2005 segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu er vatn afar margbreytilegt og á stöðugri hringrás þannig að það fellur ekki undir almennan skilning á því hvað getur talist einkaeign. Í þessu sambandi er einnig nauðsynlegt að líta til umræðu um þetta málefni á alþjóðavettvangi, innan Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, þar sem mikilvægi aðgengis að heilnæmu vatni er áréttað í fjölmörgum samþykktum. Stjórn Landverndar leggur því áherslu á að óháð því hvernig eignarhald á vatni verður tilgreint í lögunum þá verði lögin þannig úr garði gerð að það fari aldrei á milli mála að öllum sé tryggður aðgangur að heilnæmu vatni til heimilishalds og búsþarfa.“

Hvers vegna skyldi Landvernd vera að árétta þetta í niðurlagi umsagnar sinnar? Vegna þess, frú forseti, að stjórn Landverndar telur þessa ekki gætt í því frumvarpi sem hér er rætt. Það má sannarlega til sanns vegar færa eins og farið hefur verið yfir að þeirra hluta er ekki gætt í frumvarpinu og hefur verið farið meira af kappi en forsjá í að koma þessum hlutum öllum niður og nægir að geta, af því að ég segi að hér hafi verið kastað til höndum og málin ekki verið unnin í eðlilegu samhengi, þá rek ég augun í það að 3. liðurinn í skilgreiningunum varðandi búsþarfir eru skilgreindar sem búsþarfir til kvikfjárræktar eingöngu. Varðandi búsþarfirnar og vatnsnýtingu til bústarfa, það er eingöngu vatnsnýting sem kemur til vegna kvikfjárræktar. Eitt dæmið um hvernig frumvarp þetta er úr garði gert, hversu vanmáttugt það er til að taka á því sem það á að fjalla um.

Þegar öllu er á botninn hvolft fjallar frumvarpið ekki um það sem það ætti að fjalla um að hluta til, þ.e. hollustu, náttúruvernd, almannarétt og sjálfbæra nýtingu auðlindanna sem eru allt mikilvæg atriði sem verður að taka tillit til í sambandi við skilgreiningar í þessum efnum.

Frú forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um hið stóra samhengi í máli mínu. Ég hef vitnað til allsherjarsamninga í ræðu minni og farið vel yfir það sem rætt hefur verið á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi um vatn upp á síðkastið, þessa lífsnauðsynlegu auðlind veraldarinnar sem ég vil meina að sé sameign mannkyns og eigi að vera sameign mannkyns og falli þess vegna ekki undir þær skilgreiningar sem gerðar eru í frumvarpinu. Ég tel afar alvarlegt að ríkisstjórnin skuli leggja þetta afl í að ýta frumvarpinu í gegn og þeim frumvörpum sem við þetta frumvarp hanga í ljósi þess sem ég hef sagt.

Mig langar til að ljúka máli mínu með því að vitna í erindi sem haldið var á vatnsráðstefnu BSRB og fleiri fyrir áramótin, 29. október, þar sem Páll Hannesson, starfsmaður BSRB, fulltrúi á skrifstofu BSRB, rekur á hvern hátt reynslan af einkavæðingu vatns hefur verið slæm og fer þar yfir hluti eins og ég nefndi áðan um það sem gerðist í Bólivíu. Páll Hannesson er afar fróður um þessi mál og fór í erindi sínu vítt og breitt yfir sviðið í þeim efnum en hann lauk máli sínu á því að geta þess frumvarps sem hér um ræðir, þ.e. vatnalagafrumvarps hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur. Ég vil fá að bera niður í erindi Páls Hannessonar þar sem hann fjallar um breytingar í átt til markaðsvæðingar í opinberum rekstri og hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel að allar breytingar í átt til markaðsvæðingar á opinberum rekstri auki hættuna á þeirri túlkun að sá rekstur muni falla undir áhrifasvið GATS-samningsins. Hér má taka sem dæmi ný lög um vatnsveitur. Þau lög ýta undir eðlisbreytingu á því hvernig vatnsveitur hafa starfað á Íslandi og færa þann rekstur í átt til markaðsgilda og í raun frá þeirri hugsun að vatn sé fyrir alla. Ég veit ekki hvort allir hafi gert sér grein fyrir að sveitarfélögin sem höfðu skyldu til að starfrækja vatnsveitur og höfðu til þess einkarétt samkvæmt eldri lögum mega nú framselja þann einkarétt ótímabundið til hlutafélags og selja allar eigur vatnsveitunnar í hendur þess. Ég vil m.a. eigna það þrýstingi BSRB sem átti í viðræðum við félagsmálaráðuneytið áður en frumvarpið var lagt fram að það skilyrði var sett að slíkt fyrirtæki yrði að vera að meiri hluta í eigu opinberra aðila. BSRB vildi ganga lengra og fella orðin „að meiri hluta“ út. Á það var ekki fallist og því var greinilegur vilji hjá stjórnvöldum til að hleypa einkafyrirtækjum að rekstri vatnsveitna. Og við vitum að aðili í hlutafélagi þarf ekki endilega að ráða yfir meiri hluta hlutafjár til að geta stýrt því sem hann vill. Þá er vert að vekja athygli á að vatnsveitur heyra undir félagsmálaráðuneyti, en iðnaðarráðuneytið hefur verið að setja sérlög um orkufyrirtæki og þar með fellt vatnsveitur undir sig.

Frumvarpið um vatnalögin gerir ráð fyrir að umráðaréttur landeiganda á vatni breytist í kláran eignarrétt og frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, þar með talið vatni, gerir ráð fyrir að eignarlandi fylgi eignarréttur á þeim auðlindum sem þar finnast. Eigandi auðlindarinnar þarf ekki leyfi Orkustofnunar til rannsókna, en hafi hann rannsóknarleyfi fær hann forgangsrétt á nýtingarleyfi.“ — Það er að vísu breytt, frú forseti, í meðförum þingsins og var sú eina breyting sem fékkst í gegn á því frumvarpi sem mikið var deilt um fyrir skemmstu.

Páll Hannesson segir áfram í erindi sínu:

„Þessar breytingar, sem og önnur lög er snerta vatn, virðast því ýta undir það sjónarmið að vatn sé einkaeign og að það sé markaðsvara. Því sé eðlilegt að mikilvægir hlutar þessa málaflokks heyri undir iðnaðarráðuneyti fremur en umhverfisráðuneyti eða félagsmálaráðuneyti. Hér virðist líka opnað á möguleika að menn og fyrirtæki geti eignast jarðeignir og nýtt sér vatnið sem uppsprettu auðs.

BSRB hefur í umsögnum sínum um vatnsveitulögin, í erindi sínu til stjórnarskrárnefndar þar sem lagt var til að fest yrði í stjórnarskrá að litið verði á vatn sem mannréttindi og með því að eiga þátt í þessari ráðstefnu andæft þessu sjónarmiði og viljað efla samstöðu um þetta mikilvæga mál. Það er í ljósi þessarar þróunar og vegna þess að við viljum hafa áhrif á hvert stefnir, að þessi sameiginlega yfirlýsing fundarins er svo mikilvæg. Hún snýst um það hvaða sýn við höfum á vatn, hún snýst um það hvaða sýn við höfum á samfélagið og manninn. Viljum við að börnin okkar fæðist inn í samfélag þar sem frelsi ríkir svo lengi sem þau hafa efni á því – eða viljum við að þeim séu tryggð ákveðin mannréttindi og frelsi samkvæmt því?“

Páll lýkur síðan máli sínu á að segja, frú forseti:

„Það mun hafa tekið sex ár að semja vatnalögin sem tóku gildi 1923. Ég segi því, flýtum okkur hægt, vöndum til verka og fylgjum ábendingum yfirlýsingarinnar Vatn fyrir alla!“

Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð og eiga við í ræðustól Alþingis í miðri 2. umr. um vatnalagafrumvarp hæstv. iðnaðarráðherra. Niðurstaða mín er sú að vatnið er ekki eins og hver önnur auðlind og því má ekki umgangast það eins og hæstv. iðnaðarráðherra gerir í frumvarpi sínu, þ.e. fyrst og síðast sem markaðsvöru. Fjölbreytileiki íslensku vatnsauðlindarinnar er gríðarlega mikill. Við eigum vatnavistkerfi sem eru engu lík. Að þeim steðja ýmsar hættur og vandamál sem þarf að vera á varðbergi gagnvart. Ein af hættunum stafar frá hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórninni sem ógnar vatnafræðilegum fjölbreytileika landsins og sérstöðu auðlinda okkar með því að fara offari í virkjanaáætlunum fyrir stóriðju sem rekin er af erlendum auðhringum. Allt finnst mér þetta hið versta ráðslag, frú forseti, og finnst ríkisstjórnin fara á svig við grundvallarhugsunina í gömlu vatnalögunum, sem samþykkt voru á Alþingi og tóku gildi 1923.

Ég nefni sem dæmi setningu úr 7. gr. þessara laga. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.“

Þessi setning er svo sem tekin upp í frumvarp iðnaðarráðherra og er látin halda sér. En hvað þýðir hún? Lætur ríkisstjórnin öll vötn renna svo sem þau hafa runnið? Ó nei. Er þessi ríkisstjórn þar með að brjóta gildandi vatnalög og ætlar hún að halda því áfram? Ó já, frú forseti, svo virðist vera. Hvað á að segja annað en að verið sé að brjóta 7. gr. núgildandi vatnalaga með því að flytja heilt jökulvatn úr farvegi sínum, eins og er verið að gera við Jökulsá á Dal og níðast á berginu undir Þrælahálsi og Fljótsdalsheiði til að koma því gríðarlega jökulfljóti yfir í farveg Jökulsár á Fljótsdal. Er vötnum þar heimilað að renna svo sem að fornu hafa runnið? Ó nei. Hvers vegna í ósköpunum gerir hæstv. ráðherra ekki að tillögu sinni að þessi setning fari út úr frumvarpinu? Ætlar hún að halda áfram að nota þetta til skrauts, upp á punt og algjörlega merkingarlaust? Svo virðist vera, frú forseti. Það er mjög miður.

Stundum hefur verið notuð líkingin af fílnum í postulínsversluninni. Þegar ég sé hvernig ríkisstjórnin gengur um náttúruauðlindina vatnið og náttúruauðlindina ósnortna náttúru og hvernig farið er með virkar og hugvitsamlegar og mikilvægar setningar í lögum sem hafa gilt nánast alla síðustu öld, eins og í þessu tilfelli að vötn öll skuli renna sem að fornu hafa runnið þá spyr ég: Hefur ríkisstjórnin bara enga samvisku gagnvart því að vera að fara svona á svig við þessi lög? Hvernig rökstyður hæstv. iðnaðarráðherra að hún skuli heimila þessari setningu að halda áfram og lengja lífdaga hennar í frumvarpi til vatnalaga þegar það er ekki nokkur snefill af ætlun hjá henni að fara eftir henni?

Nei, frú forseti, allt finnst mér málið dapurlegt. Það ber allt að sama brunni. Ríkisstjórnin hefur ekki borið gæfu til að opna augu sín fyrir því hvers konar auðlind vatnið okkar er heldur hefur hún kappkostað og lagt sig í líma við að skilgreina auðlindina sem fyrirbæri sem hægt er að breyta í markaðsvöru, verðleggja og selja. Það er til vansa fyrir ríkisstjórnina og það er sárt að þjóðin skuli enn sitja uppi með slíka ríkisstjórn. Eftir allt sem á undan er gengið fylgir yfirgangurinn og frekjan í frumvarpi til vatnalaga, í frumvarpi til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og frumvarpi til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ég gæti talið fleiri lög sem hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur reynt að breyta í þágu stóriðjustefnu þessarar ríkisstjórnar.

Frú forseti. Með þessum orðum lýk ég fyrri ræðu minni við 2. umr. Mér finnst þýðingarmikið að stjórnarandstaðan komi fram með öll þau gildu rök sem mæla gegn því að frumvarpið verði samþykkt. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við þá tillögu sem fram kemur í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar, að þessu máli verði í heild sinni vísað frá og Alþingi Íslendinga forðað frá því að greiða atkvæði um þessa vitleysu.