132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.

551. mál
[12:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég beini spurningum til forsætisráðherra um störf nefndar sem vinnur að því að fjalla um lagalega umgerð stjórnmálastarfsemi á Íslandi eins og það er orðað í skipunarbréfi nefndarinnar. Þessi nefnd var skipuð í sumar í kjölfar umræðu á Alþingi um skýrslu forsætisráðherra um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi. Í skýrslu forsætisráðherra kom fram að nefndin mundi skila tillögum sínum fyrir lok árs 2005 og það eru meira en tveir mánuðir síðan niðurstaða átti að liggja fyrir. Því vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þess megi vænta að niðurstöður úr starfi nefndarinnar, og þá væntanlega lagafrumvarp sem því fylgdi um setningu laga um fjármál stjórnmálaflokka, liggi fyrir fljótlega þannig að málið kæmi þá til kasta þingsins með það góðum fyrirvara að hægt væri að lögfesta frumvarp um fjármál stjórnmálaflokkanna áður en þessu þingi lýkur.

Það eru tvennar kosningar fram undan, bæði til sveitarstjórna og Alþingis, á þessu og næsta ári, og afar brýnt að stjórnmálaflokkarnir manni sig upp í lagasetningu um fjárreiður stjórnmálaflokkanna sem taki gildi áður en kosningarnar bresta á þannig að fjármál stjórnmálaflokkanna og styrkveitingar til þeirra verði gegnsæ og opin í þeim kosningum. Það hefur vitaskuld dregist allt of lengi að setja lög um fjármál stjórnmálaflokka eins og tíðkast hjá öllum siðmenntuðum þjóðum. Ísland er sennilega eina landið í Vestur-Evrópu fyrir utan Sviss sem ekki hefur sett slík lög. Rúmur áratugur er nú síðan Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði nefnd í þetta mál. Þá voru uppi áform um lagasetningu um fjármál flokkanna í kjölfar þess að á árinu 1993 samþykkti Alþingi að framlög lögaðila til stjórnmálaflokka væru frádráttarbær frá skatti og það var forsenda margra þingmanna fyrir þeirri lagasetningu að í kjölfarið fylgdu lög um opnar fjárreiður stjórnmálaflokka. Ótækt er líka hve mikil leynd hefur hvílt yfir þessum framlögum og útilokað hefur verið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fá fram gegnum skattagögn hve há þessi fjárhæð er til stjórnmálaflokkanna en þessi fjárhæð er falin inni í heildarfrádráttarliðum sem ýmsir aðilar í samfélaginu, eins og ýmis líknarfélög, fá líka. Samkvæmt mínum upplýsingum er hæglega hægt að keyra út úr skattagögnum hve mikið hefur verið veitt í frádrátt til lögaðila vegna stuðnings þeirra við stjórnmálaflokka ef vilji væri til þess. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að skattyfirvöld geti gefið upp hve háar fjárhæðir lögaðilar hafa dregið frá skatti vegna framlaga til stjórnmálastarfsemi og það verði hægt að fá upplýsingar um það í framtíðinni.

Brýnt er líka að í þeirri lagasetningu sem væntanlega mun koma fyrir þingið um opnar fjárreiður stjórnmálaflokkanna komi fram að frambjóðendur í prófkjöri upplýsi um útgjöld vegna prófkjörsbaráttu og einhverjar reglur verði líka að setja um upplýsingaskyldu þegar um stærri framlög er að ræða hjá einstöku frambjóðendum, en um það er hæstv. ráðherra líka spurður.