132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.

551. mál
[12:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda þá skipaði ég nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka í júlí 2005 til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfseminnar. Sú nefndarskipun kom í kjölfar skýrslu sem ég lagði fram á Alþingi í apríl 2005 um fjármál stjórnmálaflokkanna sem hv. fyrirspyrjandi óskaði eftir. Nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka er enn að störfum og hefur fundað reglulega um það efni sem henni var falið til umfjöllunar.

Í fyrrnefndri skýrslu sem var lögð fyrir Alþingi í apríl 2005 kom fram sú von að niðurstaða úr starfi nefndarinnar gæti legið fyrir, fyrir lok árs 2005. En þar sem ekki náðist að skipa í nefndina fyrr en í júlímánuði, m.a. vegna þess hvað tilnefningar bárust seint, var alltaf ljóst að tíminn væri naumt skammtaður. Í lok árs 2005 varð endanlega ljóst að ekki næðist að ljúka nefndarstörfum innan þeirra marka. Ástæða þess er helst sú að nefndin hefur lagt í mikla upplýsingaöflun og mikið magn gagna verið lagt fyrir nefndina til umfjöllunar og úrvinnslu. Þá hafa verið greindir helstu þættir regluvefs um þetta efni í nálægum löndum. Nefndin var einhuga um að óska þess að fá frekari tíma til að fjalla um málið í lok síðasta árs og var orðið við þeirri ósk af hálfu ráðuneytisins. Ég vil minna á að starf nefndarinnar er á forræði nefndarmanna sjálfra sem allir eru fulltrúar stjórnmálaflokkanna í landinu. Nefndin fundar reglulega og vinnur að málinu með skilvirkum hætti með aðstoð fulltrúa forsætisráðuneytisins.

Af þessum ástæðum tel ég ekki eðlilegt að setja nefndarstarfinu einhver tímamörk eða úrslitakosti enda væntanlega vænlegast til árangurs að gefa nefndinni ráðrúm til að vinna að málinu eins og vilji og samkomulag innan hennar stendur til. Ekki síst með tilliti til samsetningar nefndarinnar.

Hvað varðar að öðru leyti þær spurningar sem hv. fyrirspyrjandi beindi til mín vil ég minna á þá afstöðu sem fram kom í fyrrnefndri skýrslu forsætisráðherra um málefnið, að mikilvægt sé að samstaða sé milli stjórnmálaflokkanna um meginreglur um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og starfsumhverfis stjórnmálaflokkanna. Af þeirri ástæðu er það mitt mat að forræði á stefnumörkun um starfsumhverfi stjórnmálaflokka eigi að vera á vettvangi fulltrúa flokkanna sjálfra enda væri annað verklag beinlínis varhugavert út frá lýðræðislegum meginreglum.

Í ljósi þess að nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna er nú að fjalla um þessi mál tel ég óeðlilegt að gefa yfirlýsingar um afmarkaða þætti þeirra umfram það sem kom fram í þeirri skýrslu sem ég lagði fram á Alþingi í apríl 2005. Eðlilegast og æskilegast hlýtur að vera að nefnd fulltrúa flokkanna fái ráðrúm til komast að niðurstöðu og skila tillögum sem allir nefndarmenn hafa orðið ásáttir um.