132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.

551. mál
[12:24]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að stjórnmálaflokkarnir séu að vinna að því að samræma reglur um fjármál stjórnmálaflokka hér á landi. Samfylkingin tekur þátt í því verkefni eins og aðrir flokkar í þeirri nefnd sem hæstv. forsætisráðherra skipaði.

Reyndar finnst mér samt merkilegt að hlusta á hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala um að menn séu að eyða miklum peningum í prófkjör og að menn eigi að birta reikninga sína og annað slíkt, þegar Samfylkingin sjálf er með allt niður um sig í þeim efnum. Samfylkingin birtir ekki framlög einstaklinga eða fyrirtækja sem eru undir ákveðnum mörkum. Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Reykjavík gáfu ekki upp hverjir styrktu þá fyrir prófkjörið sem þar fór fram. Var það þó eitt dýrasta prófkjör sem hefur farið fram fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Ég hvet því hv. þingmenn Samfylkingarinnar til að taka til í eigin ranni í þessum efnum áður en þeir gera sig heilaga hér í ræðustóli á hv. Alþingi. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um samræmdar reglur og að því er unnið.