132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.

551. mál
[12:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað til vansa hve lengi stjórnmálaflokkarnir hafa verið að væflast með þetta mál sín á milli eins og heita kartöflu án þess að ná fram nokkurri niðurstöðu um lagasetningu. Forsætisráðherra segir að nefndin sé í gagnasöfnun. Ég vil minna á að nefnd Davíðs Oddssonar starfaði í þrjú, fjögur ár og var í eilífri gagnasöfnun. Það tók tvö eða þrjú ár að svara skýrslu sem ég bað um eftir að nefnd Davíðs Oddssonar skilaði af sér. Hún var tvö, þrjú ár að afla gagna í þá skýrslu áður en hægt var að leggja hana fyrir þingið. Nú er enn þá verið að safna gögnum. Það liggja fyrir allar upplýsingar í þessu máli varðandi gögnin. Bæði í úttekt Davíðs Oddssonar sem var gerð á sínum tíma og í skýrslunni.

Mér finnst, og ég hef af því alvarlegar áhyggjur, hvað hæstv. ráðherra er skoðanalaus í þessu máli. Telur hann enga ástæðu til að setja nefndinni ákveðinn tímaramma? Finnst hæstv. forsætisráðherra það engu máli skipta að þessi mál séu komin á hreint fyrir næstu kosningar svo ákveðnar samræmdar reglur gildi milli flokkanna um að birta reikninga kosningabaráttunnar? Ég spyr hæstv. ráðherra um það. Er ekki ástæða til að gefa nefndinni ákveðinn tímaramma í þessu efni?

Almenningur gerir kröfu um gegnsæi og sýnileika í stjórnsýslunni til að koma í veg fyrir spillingu og stuðla að góðum stjórnsýsluháttum. Flokkarnir hafa dagað uppi sem nátttröll í þeirri breytingu sem orðið hefur í opnun í stjórnsýslunni. Það á greinilega að reyna að halda þessu máli áfram með þeim hætti sem gert hefur verið, að draga lappirnar í þessu og það er alveg einsýnt að menn muni ekki skila af sér neinni niðurstöðu þannig að hægt sé að lögfesta hér lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna áður en þessu þingi lýkur. En þá gætu sveitarstjórnarkosningar tekið mið af því.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, hvers vegna hann telur sig t.d. ekki geta svarað lið tvö og þrjú í þessari fyrirspurn, sem eru beinar fyrirspurnir til ráðherra um hans skoðun á þessu máli.