132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Jafn réttur til tónlistarnáms.

264. mál
[12:35]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Áður en ég fer í það að svara spurningu fyrirspyrjanda, hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, finnst mér rétt að segja frá því sem hún kom í rauninni inn á áðan, að lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla eru frá árinu 1985 en samkvæmt þeim greiða sveitarfélög sem reka tónlistarskóla launakostnað kennara og skólastjóra. Einkareknir tónlistarskólar sem hlotið hafa samþykki sveitarstjórnar, þá iðulega í formi þjónustusamnings, og sérstakt samþykki menntamálaráðuneytisins geta fengið greiddan launakostnað kennara og skólastjóra úr sveitarsjóði.

Á móti þessum fjárstuðningi sveitarfélaga er tónlistarskólum ætlað að innheimta skólagjöld sem standa undir öðrum rekstrarkostnaði en launum kennara og skólastjóra. Hlutverk ráðuneytis menntamála samkvæmt lögunum er annars vegar að veita tónlistarskólunum sérstakt samþykki og hins vegar að hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu í landinu.

Ráðuneytið hefur því samkvæmt þessu gefið út aðalnámskrá tónlistarskóla árið 2000 sem er gefin út í tíu heftum og skiptist í almennan hluta aðalnámskrár og níu einstaka greinahluta. Eftirlitshlutverki ráðuneytisins er einkum sinnt með tvennum hætti: Í fyrsta lagi er sérstök prófnefnd tónlistarskóla sem starfar á vegum Sambands tónlistarskólastjóra, Félags tónlistarskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna með fjárstuðningi menntamálaráðuneytis og annast sú nefnd samræmt og hlutlaust mat á áfangaprófum í tónlistarskólum í samræmi við aðalnámskrána. Einnig safnar ráðuneytið upplýsingum um starfsemi tónlistarskóla og skipar samstarfsnefnd tónlistarfræðslunnar sem fjallar m.a. um námskrárgerð, námsgagnagerð, þróunarstarf, mat á skólastarfi og fleiri þætti.

Ef við förum í a-lið spurningar hv. þingmanns: „Hvernig hyggst ráðherra tryggja að nemendur alls staðar á landinu hafi jafna möguleika til tónlistarnáms?“ þá er eins og ég hef þegar sagt, rekstur og fjárhagslegur stuðningur við tónlistarskóla á hendi sveitarfélaga og sú skipan er í samræmi við lög og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og mundi þá ekki breyta lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Tónlistarfræðslan er þó ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga, samkvæmt lögunum, heldur er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort það ákveður að veita fjármuni til þessa málaflokks og forgangsraða ráðstöfun fjárins í samræmi við stefnu sína í tónlistarfræðslumálum, sem sagt sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga. Það væri því í andstöðu við 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga að menntamálaráðherra mundi beita sér fyrir því að öll sveitarfélög í landinu veittu nemendum jafna möguleika til tónlistarnáms.

Hins vegar og þrátt fyrir þetta hef ég engu að síður beitt mér fyrir því að leitast við að jafna aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum til tónlistarnáms, þrátt fyrir enga lagaskyldu, með því að taka þátt í kennslukostnaði tónlistarskóla vegna framhaldsskólanemenda sem stunda tónlistarnám á tónlistarkjörsviði listnámsbrauta framhaldsskóla eða fá síðan tónlistarnám sitt metið til eininga sem hluta af lokaprófi til framhaldsskóla.

Í þessu skyni var einmitt gert þetta samkomulag sem hv. þingmaður talaði um milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins og gilti fyrir skólaárið 2004–2005. Að undanförnu hafa staðið yfir viðræður milli ráðuneytisins og sambandsins um með hvaða hætti væri unnt að framlengja þetta samkomulag en ég dreg ekki dul á að mér hugnast ekki vel að leysa þessi mál til eins árs í senn, fyrst og fremst með það í huga að það er ekki stöðugleiki fyrir íslenska tónlistarnemendur að hið opinbera, þá á ég ekki síst við að sveitarfélögin og ríkið, skuli ekki leysa þessi mál til langs tíma.

Ég vil líka undirstrika það að á þessum fundum með Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en þau hafa komið nokkuð mörgum sinnum í ráðuneytið að undanförnu til þess að fara yfir mál tónlistarskólanna, þá hef ég reynt að stuðla að lausn sem væri lausn til framtíðar og þá er ég líka að líta til skólakerfisins eins og það lítur út núna í dag að grunnskólinn og leikskólinn eru á forræði sveitarfélaga og síðan framhaldsskólinn á forræði ríkisins. Ég held að þetta sé þáttur sem við eigum sérstaklega að huga að. Það hafa orðið breytingar á tónlistarnáminu, eins og hv. þingmaður veit, það er grunnstig, miðstig og síðan framhaldsstigið og ég er nokkuð sannfærð um að það er þáttur sem við eigum sérstaklega að fara yfir. Þetta mundi auðvitað þýða einhverjar tilfærslur á fjármunum frá sveitarfélögum yfir til ríkisins en ég tel að það væri eðlilegt og í samræmi við heildarsamhengið í skólakerfið að ríki og sveitarfélög mundu komast að þessari niðurstöðu, að allt listnám væri skipulagt með þessum hætti, þetta væri einfalt og gegnsætt fyrir tónlistarnemendur eða aðra listnámsnemendur. Menn vissu hver bæri ábyrgðina á hverju stigi. Að þessu hef ég verið að vinna og við skulum bíða og sjá hvað setur, enn eru samræður á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins hvað þetta varðar.