132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Jafn réttur til tónlistarnáms.

264. mál
[12:41]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta svar var með því rýrara sem komið hefur frá hæstv. menntamálaráðherra. Það ríkir ákveðinn glundroði og ákveðið ófremdarástand í málefnum tónlistarskólanna, það er öllum morgunljóst og hefur verið ofarlega í umræðu núna um nokkurra missira skeið. Í þessu ástandi miðju við þessari ágætu og málefnalegu fyrirspurn kemur hæstv. menntamálaráðherra hér upp, víkur sér undan ábyrgð og skilar auðu, þegar veruleikinn er sá að það er brotinn réttur á mörgum börnum og mörgum nemendum í tónlistarskólunum út af þessu ófremdarástandi. Út af hverju sem það er og út af hverju sem það hefur skapast ber hæstv. menntamálaráðherra fullkomna pólitíska ábyrgð á því að starfsemi tónlistarskólanna sé bærilega hnökralaus og gangi þannig fyrir sig að ástandið sé ekki til skammar og ekki ríki sá glundroði í málefnum tónlistarskólanna sem uppi er og hefur verið uppi núna um nokkurra missira skeið. Þar er ábyrgðin skýr, þar er ábyrgðin menntamálaráðherra og það er hennar að gangast við þeirri ábyrgð en ekki að víkjast undan henni með svörum eins og fram komu hérna áðan.