132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Brottfall úr framhaldsskólum.

369. mál
[12:51]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það má skilgreina brottfall á marga vegu og menn hafa mismunandi tækni við að útfæra það. Það má t.d. sjá þegar farið er yfir tölur frá öðrum löndum.

Þær tölfræðiupplýsingar um brottfall sem ég mun fara hér yfir eru að hluta til unnar af Hagstofu Íslands og sýna hlutfall þeirra nemenda í framhaldsskólum sem hurfu frá námi á milli skólaáranna 2000–2001, 2001–2002, 2002–2003 og fram til 2005. Sú vinnuaðferð sem notuð er hér miðar við skráða framhaldsskólanemendur í dagskóla samkvæmt nemendaskrá Hagstofu Íslands 15. október og þeir bornir síðan saman við nemendur í öllum skólum innan lands 15. október ári síðar.

Þeir nemendur sem ekki útskrifuðust á þessu tímabili og voru ekki skráðir í skóla næsta haust á eftir teljast samkvæmt þessari skilgreiningu brottfallnir. En inn í þetta er ekki tekin endurkoma sem þyrfti að gera sérstaklega, en er farið gera nú, og það lækkar í rauninni hið raunverulega brottfall verulega. Nemendur á námssamningi eru taldir með skólanemendum eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um þá, þ.e. þeir koma ekki fram sem brottfallsnemendur.

Hér er frú forseti, einungis um að ræða eina leið af mörgum til að skilgreina brottfallið. En samkvæmt þessu eru tölurnar 2000–2001 16,6%, 2001–2002 15,7%, 2002–2003 15,1% og 2004–2005 16,9%. Það verður að gera fyrirvara á að telja alla þessa nemendur brottfallsnemendur eins og ég gat um áðan enda ljóst að brottfall er oft tímabundið og margir þessara nemenda hefja nám að nýju og oft innan ársins.

Oft er um að ræða nemendur sem af eðlilegum ástæðum kjósa að hverfa frá námi um tíma og hæpið er því að telja alla þessa nemendur brottfallsnemendur. Ljóst er einnig að atvinnuástand hér á landi hefur áhrif á skólasókn, það er mikil fylgni þar á milli. Þegar mikil þensla er á vinnumarkaði þá sjáum við samkvæmt tölunum að minni ásókn er inn í skólana.

Aðstæður á vinnumarkaði erlendis eru víða gjörólíkar aðstæðum hér á landi. Langvarandi hátt atvinnuleysi í mörgum Evrópulöndum veldur því að stjórnvöld reka þá stefnu að halda nemendum í skóla eins lengi og unnt er og samanburður milli landa getur því verið varasamur.

Hér verður því einnig gerð grein fyrir hve hátt hlutfall þeirra nemenda sem samkvæmt fyrrgreindri skilgreiningu töldust brottfallnir á þessu árabili. Af þeim sem töldust brottfallnir 2000–2001 höfðu samkvæmt nemendaskrá Hagstofu Íslands tæplega 60% hafið nám að nýju á árabilinu 2002–2005. Af þeim sem voru brottfallnir 2001–2002 höfðu 54% hafið nám að nýju á tímabilinu 2003–2005. Það ánægjulega er því að endurkoma þeirra sem hverfa frá námi af einhverjum ástæðum er mikil.

Það er ljóst, og nýjustu tölur sýna að brottfallið er lægra meðal 16 ára nema en þeirra sem eldri eru, sérstaklega á síðustu árum framhaldsskóla. Brottfallið fer hækkandi meðal þeirra sem eldri eru og menn hafa m.a. rakið það til þess að námslengdin er þetta mikil.

Ég vil hins vegar líka velta því fyrir mér, frú forseti, hvort þarna geti ekki legið ýmsar aðrar ástæður að baki og með það í huga mun ég beita mér sérstaklega fyrir því að skoða lesblindu. Á næstu mánuðum verður skoðað hvaða áhrif lesblinda hefur á skólakerfið og þar verður athygli beint að nemendum á öllum skólastigum, í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, í þeim tilgangi að þeir sem þurfa á aðstoð að halda varðandi lesblindu fái hana fyrr í skólakerfinu. Við höfum fengið ábendingar um að oft og tíðum uppgötvast lesblinda allt of seint, oft ekki fyrr en í framhaldsskóla. Þetta þarf að skoða sérstaklega því þetta eru eflaust atriði sem leiða til að fólk hættir fyrr í námi en það hefði annars ástæðu til.