132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

510. mál
[13:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Þau gleðilegu tíðindi bárust fyrir nokkrum vikum að hæstv. menntamálaráðherra hefði ákveðið að hefja athugun á því hvort stofnsetja ætti framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Við hv. þingmenn Norðausturkjördæmis, og reyndar þingmenn úr þingflokkum allra flokka sem eiga sæti á Alþingi, höfum nú í tvígang lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að stofnsetja beri framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Rökin fyrir því hreinlega kæfa mann, hæstv. forseti.

Við utanverðan Eyjafjörð búa hátt í 4.500 manns. Trúlega finnum við hvergi á landinu jafnfjölmennan byggðakjarna eftir að göng opnast á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, 4.500 manns sem hafa ekki aðgengi að framhaldsnámi. Sjálfræðisaldurinn hefur verið hækkaður í 18 ár úr 16 þannig að fólki á þessum stöðum er nauðugur sá kostur að senda ósjálfráða unglinga burt frá sínum heimilum til þess að hefja nám í framhaldsskóla. Við vitum hvernig skólastigin hafa þróast á umliðnum áratugum, framhaldsskólaprófið í dag er eins og grunnskólaprófið var í gamla daga þannig að hér er um sjálfsögð mannréttindi að ræða fyrir fólkið og unglingana á viðkomandi stöðum, að stofnsettur verði framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð. Sveitarfélögin í Dalvíkurbyggð, Ólafsfirði og Siglufirði hafa beitt sér mikið í þessu máli og veit ég að aðilar á vegum þessara sveitarfélaga hafa m.a. hitt hæstv. menntamálaráðherra og tekið þetta málefni upp við hana sem og okkur þingmenn kjördæmisins. Það liggur mjög þungt á forustumönnum og íbúum þessara sveitarfélaga að framhaldsskóli verði stofnsettur á svæðinu. Á haustin tæmast þessi byggðarlög af ungu fólki sem neyðist til þess að flytjast að heiman til þess að öðlast þau sjálfsögðu réttindi að nema áfram, fyrst í framhaldsskóla og síðar í háskóla. Þess vegna var það fagnaðarefni, hæstv. forseti, að hæstv. menntamálaráðherra skyldi hefja athugun á því sem nú stendur yfir hvort stofnsetja bæri framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Því hef ég beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra vegna athugunar á stofnun þessa framhaldsskóla:

1. Verður haft formlegt samráð við heimamenn þegar metnir verða kostir þess að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð?

Það ferli stendur yfir, að ég tel, og þar á ég við forustumenn þeirra sveitarfélaga.

2. Telur ráðherra forsendur fyrir því að stofnsetja framhaldsskóla þar? Ef svo er, hvenær telur ráðherra að af því gæti orðið?