132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

510. mál
[13:15]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð er sjálfsagt mál. Að sjálfsögðu á að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Hér er einmitt mál í þinginu sem varðar þetta og einn af þingmönnum Frjálslynda flokksins, Sigurjón Þórðarson, er meðal flutningsmanna þess máls. Ég tel að þetta sé eitt af því sem gera þarf til að reyna að sporna við þeirri ískyggilegu þróun sem við sjáum allt of víða á landsbyggðinni þar sem fólki fækkar hratt að unga fólkið fer fyrst. Meðalaldur í byggðunum hækkar, fæðingartíðni lækkar. Þetta er viðvarandi og alvarlegt vandamál við norðanverðan Eyjafjörð, til að mynda á Siglufirði.

Að sjálfsögðu eru fleiri þættir sem taka þarf að tillit til eins og t.d. það að réttur þessara byggða til að nýta náttúruauðlindir sínar, sem eru fiskimiðin, hefur verið tekinn frá þeim. Mér þætti það ánægjuefni ef hv. þm. Birkir Jón Jónsson kæmi hér upp á eftir og lýsti því yfir að gera þyrfti ákveðnar endurbætur á þessu blessaða fiskveiðistjórnarkerfi líka (Forseti hringir.) svo við gætum snúið þessari þróun við.