132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ástand Þjóðleikhússins.

533. mál
[13:23]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spyr í fyrsta lagi: „Hefur verið gerð úttekt á ástandi Þjóðleikhússbyggingarinnar“

Úttektir hafa verið gerðar á ástandi Þjóðleikhússbyggingarinnar m.a. í tengslum við fjárlagagerð. Síðastliðið haust vann Gunnar Torfason ráðgjafarverkfræðingur skýrslu sem ber heitið Lauslegt yfirlit yfir ástand Þjóðleikhússins og stöðu og þróun. Jafnhliða hefur Þjóðleikhúsið einnig ráðið til sín þýskt ráðgjafarfyrirtæki um tæknilega og faglega úttekt og þarfagreiningu. Áætlað er að það skili skýrslu í apríl.

Í öðru lagi: „Hver er áætlaður kostnaður við viðgerð hússins?“

Samkvæmt stöðuúttekt Gunnars Torfasonar ráðgjafarverkfræðings síðastliðið haust er áætlaður viðgerðarkostnaður um 1.600 millj. kr.

Í þriðja lagi: „Eru áform um að húsið verði lagfært svo fullur sómi verði að.“

Stefnt er að því að gera við Þjóðleikhúsið. Í fjáraukalögum 2005 voru veittar sérstaklega 250 millj. kr. til viðhalds og stefnt er að því að ljúka viðhaldi utan húss á Þjóðleikhúsinu. Í framhaldinu verður einnig unnið að öryggismálum og öðrum viðhaldsverkefnum innan húss eftir því sem fjárveitingar heimila hverju sinni.

Ég get að mörgu leyti, frú forseti, tekið undir orð hv. þingmanns áðan. Ég tel ástand hússins til vansa. Við verðum líka að hafa í huga sögu endurbyggingar þeirra húsa sem hv. þingmaður kom líka inn á, að það er einfaldlega svo að þessu hefur verið forgangsraðað með ákveðnum hætti. Farið var í endurbætur á Þjóðminjasafninu og nú er því lokið. Einnig var farið í endurbætur á Þjóðmenningarhúsinu og því er lokið. En það er alveg ljóst í mínum huga að Þjóðleikhúsið á að verða næst í röðinni og það þarf að gera það vel og sómasamlega. Hins vegar eru líka uppi mjög metnaðarfullar hugmyndir af hálfu núverandi þjóðleikhússtjóra um m.a. viðbyggingu við Þjóðleikhúsið.

Eins og ég gat um áðan, frú forseti, er áætlaður kostnaður við viðgerð hússins 1.600 millj. kr. en áætlaður kostnaður við hugsanlega viðbyggingu er upp á 1,5–2 milljarða kr. Við erum því ekki að tala um neina smápeninga ef við ætlum að horfa á heildarmyndina og meta það svo að rétt sé að byggja við Þjóðleikhúsið. Menn geta síðan hafa skiptar skoðanir á því hvort það sé rétt. En þetta er engu að síður mikilvægur þáttur sem ég tel nauðsynlegt að fara yfir í samhengi við viðgerðina sem mun eiga sér stað. Búið er að tryggja 250 millj. og í ráðuneytunum stendur núna yfir undirbúningur við fjárlagagerð. Við munum að sjálfsögðu líta sérstaklega til þess sem er brýnt og það er brýnt að gera við Þjóðleikhúsið. Það er öllum ljóst, sérstaklega þeim sem ganga bæði um húsið og fyrir framan húsið