132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ástand Þjóðleikhússins.

533. mál
[13:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra að hún telji að nú sé röðin komin að Þjóðleikhúsinu. Ég er alveg hjartanlega sammála.

Síðasti ræðumaður, hv. þm. Jón Kr. Óskarsson, fór í raun og veru mjög vel yfir hvað þessi merka bygging þýðir fyrir þjóðina. Hvað hún hefur þýtt fyrir þjóðina, bæði á veg hennar til sjálfstæðis en líka eftir að hún öðlaðist fullveldi. Við ættum alls ekki að gera lítið úr því að þetta hús skipar mjög ríkan og mikilvægan sess í þjóðlífinu, ekki bara í menningarlífinu heldur í sjálfri þjóðarvitundinni.

Því tel ég að fara ætti strax í að útbúa áætlun um hvernig þetta hús verði gert upp svo fullur sómi verði að. Hvort reisa eigi einhverja viðbyggingu upp á 1,5–2 milljarða er svo aftur allt annað mál og eflaust má setja einhver spurningarmerki við það, því að ég veit ekki betur en að fara eigi í að reisa mikla menningarhöll á hafnarbakkanum í Reykjavík aðeins steinsnar frá Þjóðleikhússbyggingunni.

Ég tel brýnast að farið verði í að gera við Þjóðleikhúsið þannig að það fái á ný þá reisn sem það á skilið og að við gerum það almennilega. Að við hættum slíkum smáskammtalækningum að setja í það einhverjar smáupphæðir á fjárlögum hvers árs, heldur verði þetta einfaldlega verkefni sem farið verði í með skipulegum hætti, með ákveðnum tímaramma með svipuðum hætti og gert var með Alþingishúsið, Þjóðmenningarhúsið og Þjóðminjasafnið.

Látum vera þó að það kosti einhverja peninga. Látum vera þó að það kosti 1,5–2 milljarða að gera þetta. Stundum er það bara þannig að það kostar peninga að vera fullvalda þjóð.