132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til kjörforeldra ættleiddra barna.

522. mál
[13:38]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að segja frá því að þetta mál var til umræðu í þinginu fyrir ekki mjög löngu síðan. Ef ég man rétt voru það nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar sem voru með þingmál. Ég kom þá upp í ræðustól og lýsti yfir stuðningi við það mál fyrir hönd míns flokks, Frjálslynda flokksins. Nokkru síðar kom þessi frétt um að ríkisstjórnin hefði ákveðið að veita fjármagn í þetta þannig að kjörforeldrar ættleiddra barna gætu fengið greiddan að einhverju leyti þann kostnað sem þeir þurfa að leggja út vegna ættleiðinga. Að sjálfsögðu er hér um að ræða réttlætismál sem hefði átt að vera búið að laga fyrir löngu. Þess vegna vil ég nú, virðulegi forseti, koma hér upp og lýsa því yfir að við í Frjálslynda flokknum fögnum því að þessi ákvörðun hafi verið tekin af ríkisstjórninni og mætti þetta verða fyrirmynd þess að ríkisstjórnin fari að taka fleiri skynsamlegar ákvarðanir, ekki síst hvað varðar félagslegar umbætur í landinu.