132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til sjávarútvegs.

414. mál
[13:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það sem ég ætla að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra um varðar opinberan stuðning stjórnvalda við sjávarútveginn. Í fyrra kom út skýrsla sem Hagfræðistofnun háskólans gaf út þar sem kom fram að stuðningur við sjávarútveginn á Íslandi er mjög víðtækur. Það er ekki óalgengt að stjórnvöld taki saman hver stuðningur er við hinar ýmsu atvinnugreinar, t.d. sjávarútveginn. Það mátti t.d. lesa í skýrslu sem Tony Blair gaf út á dögunum að hann mat stuðning breskra stjórnvalda á um 13 milljarða kr. árlega á meðan hagnaður greinarinnar var um 17 milljarðar í Bretlandi.

Það eru mjög athyglisverðar niðurstöður í þessari skýrslu sem kom út í fyrra en þar kemur fram að þegar allur stuðningurinn er metinn þá er hann á bilinu 30 til rúmlega 57 milljarðar kr. Þetta eru gífurlega háar upphæðir. Það er ekki kastað til hendinni í þessum niðurstöðum heldur er unnið þar eftir samræmdum alþjóðlegum reglum sem koma alla leið frá Róm, frá Alþjóðamatvælastofnuninni sem hefur aðsetur þar. Hér er um mjög áhugaverðar niðurstöður að ræða og væri fróðlegt að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þeim og hvort hann sé sammála niðurstöðunum.

En það sem er einkar áhugavert við þessar niðurstöður er það að hæsta upphæðin í kostnaði íslenska ríkisins sem er metin á 22–52 milljarða kr. árlega, eða árið 2002 sem skýrslan tekur til, er úthlutun á veiðiheimildum. Og það sem er líka mjög áhugavert við þetta er að það kemur fram að hagnaður greinarinnar sjálfrar af þessum mikla kostnaði sem ríkið hefur af henni er ekki nema brot af þessu. Hann er um 10% af tekjutapi ríkisins. Hagnaður greinarinnar er metinn á 2,4–4 milljarða meðan kostnaður ríkisins af þessum ókeypis úthlutunum er 24–52 milljarðar. Þetta er mjög sláandi og ég er á því að ef farið væri gaumgæfilega ofan í þessa skýrslu mætti eflaust segja að greinin sjálf beri einnig tjón af þessari úthlutun vegna þess að þetta hefur leitt til aukinnar skuldasöfnunar þannig að allir eru að tapa vegna stuðningsins við greinina árið 2002.