132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Áhrif veiða á erfðagerð þorsksins.

184. mál
[14:09]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér fannst svar hæstv. sjávarútvegsráðherra bera merki um það að í þessum efnum er endalaust blaðrað en ekkert gert. Við höfum gengið of nærri stærsta þorskinum, það er að vísu alveg rétt. En hverjir skyldu það hafa verið sem bera ábyrgð á því? Það eru sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Forveri núverandi ráðherra lét veiða niður hrygningarstofn þorsksins, fletja hann út í saltfisk og troða honum ofan í kavíartúbur. Það er það sem gerðist og það eru ekki mörg ár síðan. Fyrir það reisti sá ráðherra sér ævarandi níðstöng. Loksins þegar okkur tókst að byggja upp hrygningarstofn þorsksins fóru þeir af stað í taumlausri græðgi og stútuðu honum. Síðan hefur hann verið í sárum og verður það sjálfsagt áfram.

Mér finnst þetta ekkert voðalega flókið. Fiskurinn verður kynþroska fyrr vegna þess að honum líður illa, hann hefur ekki nógu mikið æti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýtur að vita það eins og ég og hann veit það. Ég veit að hann veit að þegar dýrum líður illa sjá þau fram á að þau muni ekki lifa neitt voðalega lengi og hvað gera þau þá? Þau ákveða að reyna að fjölga sér til að koma genunum áfram og það er nákvæmlega þetta sem er að gerast.