132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Áhrif veiða á erfðagerð þorsksins.

184. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra: Við höfum gengið allt of nærri stærsta fiskinum. Það var líka efnislegt inntak þess sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði hér áðan.

Það skiptir miklu máli varðandi nýliðun að hafa góða aldurs- og stærðardreifingu í þorskinum vegna þess að mismunandi gamlir og stórir þorskar hrygna á mismunandi tímum og því eru meiri líkur á að við fáum góða dreifingu í hrygningunni og einhver hluti hennar falli að æskilegum blóma í hafinu þannig að nýliðunin verði góð.

Hæstv. ráðherra sagði að það hefði komið fram í gögnum Hafró að kynþroskahlutfallið hefði farið lækkandi og það er staðreynd og það er áhyggjuefni. Það hefur gerst út um allt Norður-Atlantshaf. En hann sagði líka að af þeim gögnum mætti ætla að vöxtur hefði ekki orðið hægari. Ég veit ekki hvað ég vil segja um það en í skýrslu nefndar um líffræðilega stjórnun fiskveiða, sem var gefin út deginum fyrir afmælisdaginn minn árið 2004, segir svart á hvítu að meðalaldur og meðalþyngd einstaklinga í afla hafi farið lækkandi. Þar er það svo staðfest sem við sögðum báðir að jafnframt hefur orðið veruleg fækkun í elstu aldurshópum hrygningarstofns. Þetta skiptir mjög miklu máli. Orð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar voru auðvitað ekki út í loftið en það er hins vegar rangt hjá honum að nálgast þetta einungis út frá umhverfisaðstæðum, þ.e. framboð á fæðu. Þetta ræðst af tvennu: Af erfðum og umhverfisaðstæðum. Ef við erum að breyta öðru, þ.e. erfðum, hefur það einhvers konar afleiðingar. Ef við erum að fjarlægja úr stofninum þau gen sem stýra síðbúnum kynþroska og hröðum vexti og skilja eftir gen sem stýra snemmbúnum kynþroska og hægum vexti þá erum við að búa til stofn sem fjölgar sér ekki nægilega og gefur þar að auki miklu minna af sér á hvern veiddan fisk en áður. Þetta er hættan.