132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Útræðisréttur strandjarða.

491. mál
[14:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég var hissa á að heyra þetta afdráttarlausa svar hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þetta virðist opinbera enn einn ágreininginn innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur tekið alveg afdráttarlaust af skarið í þessum efnum. Hann telur að það eigi að virða útræðisrétt strandjarða.

Ég er þeirrar skoðunar líka. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða fornan rétt sem menn hafi nýtt sér og hann eigi að vera bundinn við þessar jarðir. Hann á að vera bundin við búsetu og hann á ekki að vera framseljanlegur. Þetta finnst mér. Mér finnst jafnframt að það komi vel til greina að setja einhvers konar takmarkanir á það hvers konar útvegur er stundaður frá slíkum jörðum og hversu aflmikill hann er en rétturinn er fyrir hendi. Hann var tekinn af mönnum með kvótakerfinu og ég tel að hægt sé að færa full rök fyrir því að þar hafi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verið brotið. Það þyrfti ég að gera í miklu lengra máli. En ég tel sem sagt að þennan rétt, útræðisrétt strandjarðanna, eigi að virða.