132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Hrefnuveiðar.

512. mál
[14:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að bera fram fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hún fjallar um hrefnuveiðar. Veiðar á hrefnu, þessum smáhval, voru stundaðar á litlum vélbátum við landið nánast alla síðustu öld. Þetta voru, hvað eigum við að segja, nánast frumbyggjaveiðar, eins og við töluðum um áðan í tengslum við útræðisrétt sjávarjarða. Fólkið sem bjó við ströndina nytjaði að sjálfsögðu þennan dýrastofn, þessa náttúruauðlind, sjálfum sér og sínum til framfærslu. Veiðarnar voru tiltölulega smáar í sniðum, aðeins nokkrir tugir dýra á ári og það virtist ganga mjög vel. Það var markaður fyrir afurðirnar innan lands og jafnvel erlendis líka. Nokkrir menn sem höfðu af þessu þokkalegar tekjur og allt virtist í sóma.

En þá dundi ógæfan yfir. Alþjóðahvalveiðiráðið, sá óskapnaður, ákvað veiðikvóta árið 1977 ef ég man rétt. Þeir tóku að úthluta kvóta til Íslendinga. Þetta var upphafið að ferli sem lyktaði með því að veiðar voru stöðvaðar árið 1986, ef ég fer rétt með. Þetta átti að vera tímabundin stöðvun á veiðum í atvinnuskyni.

Við Íslendingar vorum svo víðáttuvitlausir að gangast inn á þetta og samþykkja á sínum tíma. Síðan hafa vart verið stundaðar stórhvalaveiðar né hrefnuveiðar, sennilega sjálfum okkur til stórtjóns. Við brutum eina af grundvallarreglunum í auðlindanýtingu, sérstaklega á auðlindum sjávar, þ.e. að okkur ber að sjálfsögðu að reyna að nýta alla hlekki vistkeðjunnar með sem skynsamlegustum hætti. En þarna var þessi toppur á fæðukeðjunni næstum alveg friðaður.

Ég vil bera fram spurningar til ráðherra um hvort hann hyggist beita sér fyrir því að hér við land verði hafnar hrefnuveiðar í atvinnuskyni á sumri komanda, þ.e. eftir nokkrar vikur. Síðan spyr ég hvort þess sé að vænta að kynntar verði niðurstöður rannsókna sem fram hafa farið í tengslum við vísindaveiðar á hrefnu undanfarin sumur og þá hvenær og með hvaða hætti?

Við Íslendingar höfum lítið stundað vísindaveiðar á undanförnum sumrum, skotið örfá dýr í vísindaskyni. Afurðirnar hafa verið seldar og næg eftirspurn eftir þeim. En hvað er að frétta af þeim rannsóknum?