132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Hrefnuveiðar.

512. mál
[14:37]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að spyrja þessara spurninga varðandi hrefnuveiðarnar. Hér er líka um að ræða mjög mikilvægt mál, sem við höfum oft rætt á Alþingi en seint verður of mikið rætt um.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að hafnar verði hrefnuveiðar í atvinnuskyni hér við land strax næsta sumar.

Svar mitt er: Ákvörðun um slíkt hefur ekki verið tekin enn þá. Hins vegar er stefnt að því að hefja að nýju hvalveiðar í atvinnuskyni. Ætlunin er að halda áfram vísindaveiðunum í sumar enda er það forsenda fyrir því að fá upplýsingar þær sem hv. þingmaður var að öðru leyti að kalla eftir.

Þá kem ég að síðari spurningu hv. þingmanns sem er svona:

„Er þess að vænta að kynntar verði niðurstöður rannsókna sem farið hafa fram í tengslum við vísindaveiðar á hrefnu undanfarin sumur, og þá hvenær og með hvaða hætti?“

Ég þarf að hafa að svari mínu dálítinn aðdraganda.

Árið 2003 fól sjávarútvegsráðherra Hafrannsóknastofnuninni að gera tillögur að stórauknum rannsóknum á stofnum nytjahvala við Ísland. Í framhaldi af því lagði stofnunin fram áætlun um víðtækar rannsóknir á langreyði, sandreyði og hrefnu. Verkefnið var kynnt í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins sumarið 2003 og hlaut þar ítarlega umfjöllun. Upphaflega var gert ráð fyrir að í verkefninu fælust veiðar á 200 langreyðum, 100 sandreyðum og 200 hrefnum og að gagnasöfnun tæki tvö ár.

Í ágúst 2003 ákvað sjávarútvegsráðherra að hrinda í framkvæmd þeim hluta verkefnisins sem snýr að hrefnu en fara hægar í sakirnar varðandi gagnasöfnun enda var slíkt ekki talið hindra að öll helstu markmið hrefnurannsókna næðust. Á tímabilinu 2003–2005 voru veiddar 100 hrefnur vegna verkefnisins og er gagnasöfnun því hálfnuð.

Meginmarkmið verkefnisins er að afla upplýsinga um fæðuvistkerfi hrefnu við landið með rannsóknum á samsetningu magainnihalds, efnainnihalds í vefjum og fæðu, orkubúskap, árstíðabundnum breytileika í útbreiðslu og smíði fjölstofnalíkans. Auk þess lúta rannsóknir m.a. að stofngerð, heilsufari, lífssöguþáttum, lífeðlisfræði og uppsöfnun mengunarefna í vefjum.

Verkefnið er unnið í samvinnu við sérfræðinga á RF, Iðntæknistofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Geislavörnum ríkisins og Landspítala, auk erlendra rannsóknastofnana og var framvinda hrefnuverkefnisins kynnt á ársfundi vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní í fyrra.

Samkvæmt vísindaáætlun skal gagnasöfnun dreift á níu staði umhverfis landið í samræmi við útbreiðslu hrefnu á íslenska landgrunninu. En einnig er gert ráð fyrir að veiðunum sé dreift yfir sumarið til að fá sem besta mynd af fæðusamsetningu í tíma og rúmi.

Eins og áður sagði er gagnasöfnunin núna hálfnuð. Það leiðir af sjálfu sér að lokaniðurstöður verkefnisins munu ekki liggja fyrir fyrr en nokkru eftir að gagnaöflun lýkur að fullu. Úrvinnsla sýna hefur þó farið fram jafnóðum fyrir ýmsa verkþætti en úrvinnslu annarra hefur verið frestað af hagkvæmnisástæðum. Hafrannsóknastofnun hefur boðað að frumniðurstöður úr fyrri helmingi nokkurra verkþátta verði kynntar á næsta ársfundi vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní 2006.

Einnig mun sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar kynna stöðu rannsóknanna og frumniðurstöður þeirra á ársfundi Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, NAMMCO, sem verður haldin hér á landi á Selfossi á þriðjudaginn kemur. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að verkefnið er skipulagt sem ein heild og varhugavert að draga of sterkar ályktanir í miðri rannsókn.

Hrefnan er ein algengasta hvalategundin við Ísland en samkvæmt talningu frá árinu 2001 voru um 44 þús. hrefnur á íslenska landgrunninu. Þrátt fyrir það er þekking okkar á líffræði og vistfræði þessarar mikilvægu tegundar af skornum skammti. Þar sem um er að ræða frumrannsóknir á mörgum þeim þáttum sem rannsóknir taka til var í upphaflegri áætlun gert ráð fyrir að sýnatökuáætlunin yrði endurskoðuð þegar sýnatakan væri hálfnuð. Sú endurskoðun stendur yfir í ljósi ofangreindra frumniðurstaðna og ekki enn ljóst hvort hún muni leiða til breytinga á upphaflegri áætlun.

Mig langar að víkja aftur að fyrri spurningunni, þ.e. um atvinnuveiðarnar. Ég ítreka að sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. Hins vegar erum við í þeirri stöðu að við gengum á sínum tíma inn í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ástæðan fyrir að við gerðum það að nýju var að það var talin forsenda fyrir því að við gætum átt einhverja möguleika á að selja afurðir okkar til Japans. Þetta var umdeilanleg ákvörðun en hún var að mínu mati algerlega rétt þegar við tókum hana, öðruvísi var talið að við gætum ekki flutt afurðir okkar til Japans. Innganga okkar var með ákveðnum fyrirvara, þ.e. þeim að við mundum ekki hefja atvinnuhvalveiðar fyrr en í fyrsta lagi árið 2006. Nú er það ár runnið upp. Ég segi þetta til að undirstrika að þetta mál er í raun í okkar höndum. Það er í okkar valdi núna að taka þessa ákvörðun. Þetta er þýðingarmikil pólitísk ákvörðun og að henni verður ekki hrapað. En menn þekkja hug minn í þessum efnum.