132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Hrefnuveiðar.

512. mál
[14:46]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er einhver jákvæðasta umræða sem fram hefur farið í þinginu upp á síðkastið, um hvalveiðimálin. Sannleikurinn er sá að þótt við sem tökum þátt í þessari umræðu séum býsna einhuga um að eðlilegt sé að hefja hvalveiðar þá hefur þessi tónn ekki alltaf verið sleginn af jafnmikilli jákvæðni á Alþingi.

Ég minnist þess að þegar við hófum vísindaveiðar á sínum tíma var reynt, m.a. í sölum Alþingis, að gera þá ákvörðun eins tortryggilega og hægt var, með ýmiss konar málflutningi. Ég kynntist þessu býsna vel sjálfur því á þeim tíma var ég formaður Ferðamálaráðs Íslands. Auðvitað var reynt að beina spjótunum gagnvart ferðaþjónustunni og gera sem mest úr því að sú ákvörðun gæti haft neikvæð áhrif fyrir ferðaþjónustuna.

Sannleikurinn er hins vegar sá, og það er rétt sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði áðan, að áhrifin voru ekki neikvæð eins og um hafði verið talað. Það er enginn hræddur í þessum efnum. Það er ekki það sem um að ræða. Þessar veiðar hófust á ný með vísindaveiðunum fyrir þremur árum. Þeim verður haldið áfram á þessu ári, ekki af minni krafti en gert hefur hingað til. Jafnframt er hitt, sem ég var að segja, við höfum réttinn í höndum okkar varðandi atvinnuveiðarnar.

Það liggur ekki fyrir hin pólitíska ákvörðun um það hvenær þessar veiðar verða hafnar. Ég sagði hins vegar áðan að stefnt væri að því að hefja að nýju hvalveiðar í atvinnuskyni. Það hef ég áður sagt.

Það skiptir einnig máli í þessu sambandi að vinna að því að við höfum markaðsaðgang fyrir afurðir okkar ef við hefjum slíkar veiðar af fullum krafti. Þennan markaðsaðgang verðum við að tryggja okkur erlendis. Að því erum við m.a. að vinna.

Það er hins vegar athyglisvert að hvalaafurðum hefur verið tekið ákaflega vel hér á landi, gagnstætt því sem víða hefur verið haldið fram. Því var m.a. haldið fram í sölum Alþingis. Margir sögðu að þessi tími væri liðinn í okkar sögu, að menn borðuðu hvalkjöt. Hið gagnstæða hefur komið fram. Neysla á þessu kjöti hefur farið vaxandi og með góðri markaðssetningu á síðasta ári tókst ákaflega vel til í þeim efnum.