132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ákvörðun loðnukvóta.

525. mál
[14:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram umræðu um sjávarútvegsmál og í sjálfu sér ekki nema gott eitt um það að segja. Hér kemur loksins hv. formaður sjávarútvegsnefndar í salinn. Ég býð hann velkominn til sætis. Það er fagnaðarefni að hann skuli sjá sér fært að vera viðstaddur umræðuna. Vonandi mun hann taka þátt í henni.

Ég vildi fá að ræða aðeins um ákvörðun um loðnukvóta í ár. Ég hef bæði sent inn þessa fyrirspurn, með ósk um munnlegt svar en ég hef líka sent inn fyrirspurn með ósk um skriflegt svar. Ég hef fengið skriflegt svar við þeirri fyrirspurn og vil að það komi fram að ég er ákaflega óánægður með það svar. Þar fara menn eins og kettir í kringum heitan graut og svara ekki því sem spurt er um. Ég vildi fá að vita niðurstöður allra loðnumælinga frá fyrstu vikum þessa árs. Þetta voru einar sjö mælingar. En einhvern veginn skjóta menn sér undan því að svara og gefa bara upp niðurstöður úr þeirri mælingu sem var grundvöllur sjálfrar kvótaráðgjafarinnar en þegja um hinar mælingarnar. Þetta mun að sjálfsögðu leiða til þess að ég sendi nýja fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem hann þarf þá að svara.

En spurningar mínar til ráðherra núna eru hins vegar um hvort tekið hafi verið mið af því við ákvörðun loðnukvóta í ár að sökum hlýnandi sjávar kunni fæðuþörf botnfiska við landið að verða meiri en í meðalári eða á kuldaskeiðum. Svo ég útskýri það aðeins þá vísa ég til þess að við vitum að sjórinn hefur verið að hlýna umhverfis landið. Þeir sem þekkja til fiskalífeðlisfræði vita að fiskar eru með kalt blóð og ef hitastigið hækkar verður fæðuþörfin meiri, sem því nemur. Fram á þetta hefur margoft verið sýnt og sannað með rannsóknum.

Önnur spurning mín er um hvort það hafi verið rannsakað hvort umfangsmiklar loðnuveiðar um áratugaskeið séu farnar að hafa áhrif til hins verra á vistkerfið á landgrunninu, þ.e. fæðuframboð fyrir hina verðmætu botnfiskstofna. Ef maður les gamlar bækur, til að mynda klassískan litteratúr eftir okkar merkasta fiskifræðing fyrr og síðar, Bjarna Sæmundsson, þá verður maður þess fljótt áskynja að menn hafa lengi vitað að loðnan er mikilvæg fæða fyrir þorskinn þótt ríkisstjórnir undanfarinn aldarfjórðung hafi alls ekki gert sér grein fyrir því. Það ber að harma. Kannski er kominn tími til að menn með innsýn í líffræði fiskstofna umhverfis landið fái að eiga hlut í pólitískum ákvarðanatökum um fiskveiðistjórn hér við land.

Síðasta spurningin er sú hvort ráðherra hafi tekið mið af því við ákvörðun um loðnukvóta að sennilega verði hlutfallslega mikil afföll af loðnuhrognum nú þegar mikið er af ýsu á grunnslóð umhverfis landið. Hér komum við enn og aftur að vistfræðinni.