132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ákvörðun loðnukvóta.

525. mál
[14:57]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að menn hafi tekið upp umræðu um nýtingarstefnu á loðnunni. Það er full ástæða til að hvetja hæstv. sjávarútvegsráðherra til að fylgja því fast eftir að menn skoði öll gögn sem til staðar eru og safni nýjum gögnum eins og mögulegt er. Að mínu viti skiptir miklu máli að skoða þau gögn sem til staðar eru um nýtingu loðnustofnsins á undanförnum árum. Ég trúi því að í þeim gögnum megi finna vísbendingar um áhrif nýtingarinnar á aðra stofna. Með þeim gögnum má jafnvel svara spurningunni um hvort ekki verði að snúa til baka og draga verulega úr loðnuveiðum í framtíðinni til þess að tryggja betri afrakstur af nytjastofnunum en orðið hefur á undanförnum árum.

Ég dreg í efa, eins og ég hef oft sagt í sölum Alþingis, að mælingar á þessum stofni séu þannig að menn eigi að trúa tölunum. Niðurstaðan er sú að (Forseti hringir.) hrygningar hafa gengið bærilega en mælingaraðferðirnar eru brotakenndar.