132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Malarnám í Ingólfsfjalli.

532. mál
[15:09]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 10. desember 2004 um efnistöku í Ingólfsfjalli var komist að þeirri niðurstöðu að áframhaldandi efnistaka væri tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Í kjölfar úrskurðarins tilkynnti framkvæmdaraðili efnistökunnar til Skipulagsstofnunar sem komst að þeirri niðurstöðu að hún skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Vinnsla þess mats er nú í fullum gangi. Frummatsskýrsla hefur verið kynnt almenningi og umsagnaraðilum og höfðu þessir aðilar frest til febrúarloka til að skila inn athugasemdum. Athugasemdir og umsagnir eru nú til skoðunar hjá framkvæmdaraðila sem mun í kjölfarið senda endanlega matsskýrslu til Skipulagsstofnunar. Matsferlinu lýkur með því að Skipulagsstofnun gefur rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar settrar samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Skipulagsstofnun getur í áliti sínu sett framkvæmdinni skilyrði eða kveðið á um mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum efnistökunnar á umhverfið. Álit Skipulagsstofnunar felur ekki í sér leyfi fyrir framkvæmdinni heldur þarf að sækja um framkvæmdarleyfi til viðkomandi sveitarfélags á grundvelli laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, og skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Sveitarfélagið, í þessu tilviki sveitarfélagið Ölfus, skal kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Framkvæmdarleyfi vegna efnistöku skal gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð er grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði. Sveitarstjórn getur síðan bundið framkvæmdarleyfið þeim skilyrðum er fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar, t.d. í því skyni að minnka sjónræn áhrif efnistökunnar eða önnur umhverfisáhrif hennar.

Telji sveitarstjórn að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu óásættanleg getur hún synjað um veitingu framkvæmdarleyfis. Hugsanleg stöðvun efnistöku í Ingólfsfjalli eða veiting framkvæmdarleyfis með skilyrðum og eftirlit með því að eftir þeim sé farið er því í höndum viðkomandi sveitarfélags.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er landið allt skipulagsskylt og er aðalskipulagsgerð og deiliskipulagsgerð í höndum sveitarfélaga. Samkvæmt lögunum, samanber og skipulagsreglugerð, skal gera grein fyrir efnistökusvæðum í aðal- og deiliskipulagi. Í deiliskipulagi skal gera grein fyrir þeirri efnistöku sem fram hefur farið eða er fyrirhuguð á svæðinu og öðru sem þurfa þykir, svo sem landslagi, efnismagni og vinnslutíma, landmótun og frágangi svæðis að lokinni vinnslu og fyrirhuguðum eða mögulegum síðari notum svæðisins. Við gerð skipulagsáætlana tekur sveitarstjórn ákvörðun um landnotkun innan sveitarfélagsins. Skipulagsáætlanir eru því tæki sem sveitarfélög geta notað til að hafa áhrif á efnistöku og ákveða hvar og með hvaða hætti hún skal fara fram. Sveitarfélag getur ávallt tekið þá ákvörðun að taka efnistökusvæði út af skipulagi eða ákveða aðra landnotkun á svæðum sem ekki hafa verið skipulögð áður. Það getur hins vegar leitt til þess að landeigandi eigi rétt á bótum úr hendi sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.

Samkvæmt því sem ég hef hér rakið eru þau úrræði sem tiltæk eru í lögum til að stýra framkvæmd efnistöku, í höndum sveitarfélaganna að gefnu áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda.