132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Losunarkvóti á gróðurhúsalofttegundir.

570. mál
[15:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað skylda okkar Íslendinga að skila upplýsingum til loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Að því er einmitt unnið í umhverfisráðuneytinu. Við erum að undirbúa það að skila upplýsingum þangað. Ég hef ekki fengið þær upplýsingar í hendur, það er enn verið að ganga frá þeim í Umhverfisstofnun áður en þær verða sendar til ráðuneytisins.

Hvað snertir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði um, þá höfum við ekki ákveðið að breyta afstöðu okkar enn sem komið er. Ég skal ekki fortaka fyrir að það geti orðið einhverjar breytingar í framtíðinni en engin slík ákvörðun hefur verið tekin. Það er ekki kvótakerfi á Íslandi, við höfum ekki úthlutað kvóta á fyrirtæki. Staðreyndir málsins eru líka þær að miðað við aðstæður í dag erum við mjög vel innan allra marka. En ég þarf ekkert að rifja það upp fyrir þingmönnum að eins og umræðan hefur verið að undanförnu og þær hugmyndir sem uppi hafa verið um byggingu nýrra álvera að þá er augljóst að skoða þarf þau mál öll mjög vel.

Það er hins vegar alveg ljóst að hægt er að jafna þessum 1.600 þúsund tonnum á ári á allt tímabilið þannig að það skiptir máli hvenær álver kemur inn. En það er líka deginum ljósara að ef álver kemur seint inn á tímabilinu og þakið verður sprungið þegar því lýkur þá blasir við að menn þurfa að kaupa kvóta. (JÁ: Hefur verið gerður fyrirvari um það?)