132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Starfsemi og hæfi stjórnenda Kauphallarinnar.

552. mál
[15:39]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Íslensk löggjöf um verðbréfaviðskipti og starfsemi skipulegra verðbréfamarkaða hefur mótast fyrst og fremst af löggjöf nágrannaríkjanna og löggjöf Evrópusambandsins. Nú stendur yfir heildarendurskoðun löggjafar Evrópusambandsins um fjármagnsmarkaði samkvæmt aðgerðaáætluninni frá 1999. Í þessum nýju evrópsku reglum er hvergi að finna bann við að stjórnendur fjármálastofnana og lífeyrissjóða sitji í stjórn kauphalla. Ráðuneytinu er heldur ekki kunnugt um reglur í öðrum ríkjum sem banna slíka stjórnarsetu. Þvert á móti er í flestum kauphöllum, hvort sem er á Norðurlöndunum eða í Bandaríkjunum, lögð áhersla á að hluti af stjórnarmönnum komi frá fjármálafyrirtækjum annars vegar og skráðum félögum hins vegar. Þannig er tryggt að í stjórn kauphalla sé til staðar víðtæk þekking og þar komi fram sjónarmið ólíkra hagsmunaaðila þannig að ákveðið valdajafnvægi ríki. Stjórn, framkvæmdastjóri, starfsmenn og eigendur virkra eignarhluta verða hins vegar að uppfylla hæfisskilyrði sem sett eru fram í kauphallarlögum. Jafnframt eru gerðar ríkar kröfur til þess að um viðskipti kauphallar gildi gagnsæjar reglur þar sem fyllsta jafnræðis sé gætt. Ákvæði stjórnsýslulaga geta ekki átt við um starfsmenn kauphalla þar sem kauphallir eru fyrirtæki í einkaeigu.

Eftir að hinar nýju reglur Evrópusambandsins verða að fullu innleiddar munu kauphallir ekki sinna neinum opinberum verkefnum þar sem þau flytjast í hendur Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt framansögðu tel ég ekki ástæðu til að gera breytingar hvað þetta varðar á kauphallarlögum. Könnuð var afstaða Fjármálaeftirlitsins og er hún á sama veg. Hagsmunaárekstrar kunna vissulega að koma upp í starfsemi kauphalla eins og á fleiri sviðum. Þá reynir á að í starfseminni sé farið að lögum og reglum þannig að komið sé í veg fyrir að þeir hagsmunaárekstrar hafi áhrif á starfsemina.

Framsal stjórnar Kauphallarinnar á ákvörðunarvaldi til forstjóra í eftirlitsmálum vegna brota á reglum Kauphallarinnar er ráðstöfun sem er til þess fallin að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar sem kunna að koma upp hafi áhrif á starfsemina. Ekki er því efni til að gera athugasemdir við það fyrirkomulag. Til greina kemur að Kauphöllin setji á fót sérstakar aganefndir í sama tilgangi en ekki hefur verið rætt um að gera slíkt fyrirkomulag að lagaskyldu.

Í tilskipun ESB, nr. 2003/71, um lýsingar þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða skráð á skipulegan verðbréfamarkað, eru samræmdar kröfur um samningu, staðfestingu og dreifingu útboðs og skráningarlýsinga. Hluti tilskipunarinnar var innleiddur með lögum nr. 31/2005, um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti. Á grundvelli þeirra laga verða á næstunni settar reglugerðir um lýsingar og með þeim verður lokið við að innleiða tilskipunina.

Samkvæmt tilskipuninni skulu lögbær yfirvöld njóta sjálfstæðis. Hér á landi er það Fjármálaeftirlitið sem er falið það hlutverk að vera lögbært yfirvald. Kauphöll mun því ekki fara með opinbert vald. Hins vegar mun eftir sem áður hvíla á Kauphöll að hafa ákveðið eftirlit með útgefendum og viðskiptum í Kauphöll og beita agavaldi sem byggist á samningssambandi við útgefendur og kauphallaraðila. Tilskipunin hefur þau áhrif að umsjón með staðfestingu á lýsingum vegna skráningar verðbréfa í Kauphöll færist til Fjármálaeftirlitsins. Með staðfestingu er átt við athugun á því hvort lýsing sé fullnægjandi, þar með talið hvort upplýsingar í lýsingu séu samræmdar og skýrar. Hins vegar er í tilskipuninni tímabundin heimild til ársins 2011 fyrir lögbær yfirvöld að fela skipulegum verðbréfamörkuðum með samningi að annast staðfestingu á lýsingu. Slíkur samningur hefur verið gerður hér á landi milli Fjármálaeftirlits og Kauphallar.