132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

571. mál
[15:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra:

Hver er afstaða ráðherra til þess að Fjármálaeftirlitið neitar að veita alþingismanni upplýsingar um hverjar urðu lyktir kærumáls sem upp kom í ágúst 2003, þegar hlutabréf ríkisins í Íslenskum aðalverktökum voru seld?

Við verðum að hafa í huga að hér var verið að selja ríkiseigur og því má teljast eðlilegt að fulltrúi almennings ætti rétt á því að fá að vita hverjar lyktir kærumála sem komu upp í kjölfar sölunnar yrðu. En það virðist vera mat Fjármálaeftirlitsins að neita fulltrúa almennings um slíkar upplýsingar. Ég tel það óeðlilegt og algerlega óverjandi að standa í slíku leynimakki. Þetta tengist með beinum hætti hæstv. forsætisráðherra vegna þess að á þeim tíma var hann utanríkisráðherra, var yfirmaður og sá m.a. um söluna. Það er líka undarleg tilviljun að það voru einmitt aðilar tengdir flokknum sem keyptu fyrirtækið, sem er ekki eina dæmið um að aðilar tengdir Framsóknarflokknum fái að kaupa eigur ríkisins. Síðan má enginn fá að vita hvorki hvernig þau kaup fóru fram né hverjar urðu lyktir kærumála. Þetta er alveg með ólíkindum.

Það verður fróðlegt að vita hvernig hæstv. viðskiptaráðherra reynir að verja þessa vitleysu, að reyna að vera í einhverju leynimakki hér og fela lyktir kærumála á sölu eigna almennings. Þetta er alveg með ólíkindum og ekki Framsóknarflokknum til framdráttar. Það er skömm að því að menn skuli ekki sjá til þess að svona upplýsingar liggi frammi og það þarf að fara fram alger skoðun á einkavinavæðingarferli eða söluferli Framsóknarflokksins til tengdra aðila, ekki bara í þessu máli heldur ekki síður í sölunni á Búnaðarbanka Íslands sem virðist hafa farið fram með mjög umdeilanlegum hætti. Þar var dreginn inn í þýskur banki sem gufaði síðan upp og hér kom sannarlega upp kærumál og enginn má vita hvernig því lyktaði.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð nú vegna þess að ég bíð spenntur eftir svörum hæstv. viðskiptaráðherra hvort hún ætli að standa í þessum feluleik áfram.