132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

571. mál
[15:51]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Einn mikilvægasti hornsteinn í starfsemi eftirlitsaðila eins og Fjármálaeftirlitsins er að viðkomandi aðila sé treyst til þess að fara með upplýsingar um þá sem lúta eftirliti. Þeir sem samþykkt hafa þau lög sem um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gilda, hafa gert sér fulla grein fyrir því enda eru í þeim lögum ströng ákvæði um þagnarskyldu stjórnar, forstjóra og starfsmanna eftirlitsins.

Í 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi segir, með leyfi forseta:

„Þeir“ — þ.e. stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins — „mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt.“

Síðar í sömu grein segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Opinber umfjöllun af hálfu þess aðila sem þagnarskyldunni er ætlað að vernda um trúnaðarupplýsingar veitir starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins eða sérfræðingum sem starfa eða starfað hafa á vegum þess ekki heimild til að láta af hendi trúnaðarupplýsingar.“

Þessi ákvæði eru rifjuð upp hér vegna fyrirspurnar hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér barst munnleg beiðni frá starfsmanni Alþingis til Fjármálaeftirlitsins þar sem óskað var eftir upplýsingum um tiltekið kvörtunarmál sem kom inn á borð eftirlitsins fyrir nokkrum árum. Starfsmanni Alþingis mun hafa verið gerð efnislega grein fyrir þeim ákvæðum sem um þagnarskyldu gilda og rakin voru hér að framan.

Eins og oftlega hefur þurft að gera grein fyrir í þessum ræðustól er Fjármálaeftirlitið sjálfstæð ríkisstofnun sem á hvílir þagnarskylda lögum samkvæmt. Alþingismenn eiga ekki ríkari rétt til að aðgangs að upplýsingum og gögnum Fjármálaeftirlitsins en aðrir. Viðskiptaráðherra segir Fjármálaeftirlitinu ekki fyrir verkum og ætlast til að stofnunin starfi eftir þeim lögum sem Alþingi hefur samþykkt.

Þess má þó geta að vorið 2005 voru gerðar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti sem fela í sér að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita meiri upplýsingar um niðurstöðu mála á verðbréfamarkaði en áður. Umræddar lagabreytingar, sem tóku gildi þann 1. júlí 2005, gilda þó eingöngu um mál sem tekin voru til athugunar eftir umrædda lagabreytingu.