132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

571. mál
[15:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur upp hvað eftir annað í umræðum hér á hv. Alþingi að hæstv. ráðherra skýtur sér á bak við að Fjármálaeftirlitið sé ósnertanlegt alþingismönnum. Það sem við erum að tala hér um er einkavæðing fyrirtækja sem eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra hefur sagt það áður að enginn geti í raun og veru skipað þessu embætti fyrir með það, ef enginn kærir til þess. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja það að enginn skuli gæta hagsmuna almennings fyrir hönd hans þegar verið er að fjalla um sölu á ríkisfyrirtækjum og einkavæðingu? Það er alveg með eindæmum að menn skuli fá slík svör sem þessi hér í sölum Alþingis. Ef það er ekki hægt samkvæmt þeim lögum sem nú gilda þá hljóta menn að þurfa að finna aðra leið til þess. Það verður að vera einhver leið til þess að óska eftir því að (Forseti hringir.) Fjármálaeftirlitið fáist við málefni eins og þessi þegar um er að ræða (Forseti hringir.) beina hagsmuni almennings.