132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

571. mál
[15:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Það er mjög sorglegt að verða vitni að svörum hæstv. ráðherra hér. Hún les upp úr lagatexta og talar um traust. Þessi viðbrögð eru einfaldlega ekki traustvekjandi þegar verið er að spyrja út í sölu á eignum almennings. Við sem erum fulltrúar almennings hér á þjóðþinginu erum jafnvel sagðir vera óviðkomandi aðilar, eða látið er að því liggja.

Það er nú einu sinni þannig, herra forseti, að salan sem þarna fór fram er mjög umdeilanleg og Framsóknarflokkurinn situr uppi með það að núverandi formaður flokksins, hæstv. forsætisráðherra, stóð í því að selja m.a. flokksbróður sínum eigur ríkisins. Sá var formaður einkavæðingarnefndar og þetta er auðvitað eitthvað sem er ekki hægt að líða í nokkru þjóðþingi. Og koma síðan hérna og vera að lesa upp úr einhverjum lagatexta, mér finnst ömurlegt að horfa upp á þetta, herra forseti.

Ég er á því að Framsóknarflokkurinn komist ekkert áfram með þessa umræðu, að vera hér með þennan feluleik. Það verður farið ofan í þetta einkavæðingarferli, þetta tengist greinilega flokksklíkunni, ekki bara í þessu máli heldur einnig í Búnaðarbankamálinu og það er ekki hægt að ganga svona sóðalega um eigur almennings, það er einfaldlega ekki hægt. Við getum ekki setið undir því á þjóðþinginu að ráðherrar komi hér og lesi upp úr einhverjum lagatexta þegar spillingarlykt er af málinu.