132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.

571. mál
[15:59]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég er nú eiginlega alveg orðlaus eftir að hafa hlustað á hv. þingmenn sem virðast ekki gera sér nokkra grein fyrir því hvernig kerfið er upp byggt hjá okkur, (SigurjÞ: Það er bara lokað.) að við séum með eftirlitsstofnanir í landinu sem starfa sjálfstætt. Ef þær störfuðu ekki sjálfstætt þá væri það þannig að viðskiptaráðherra stjórnaði því hvaða fyrirtæki væru skoðuð og hvaða fyrirtæki væru yfirleitt til meðferðar hjá eftirlitsstofnunum. (SigurjÞ: Það væri kannski ekki framlagt mál af forsætisráðherranum.) Þetta er nú ekki svaravert.

Ég segi bara að ég geri þá kröfu til hv. þingmanna að þeir kynni sér þessi mál betur, hv. fyrirspyrjandi, (SigurjÞ: Það er ekki hægt.) a.m.k. löggjöfina, áður en hann kemur hér í pontu með þvílík gífuryrði sem hann hefur haft hér uppi. Ég held að það hafi bara ekkert veitt af því að lesa lagagreinina fyrir hv. þingmann því að hann virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir því að alþingismenn njóta engra sérkjara eða sérréttinda hvað þetta varðar þegar um upplýsingaöflun er að ræða eða þagnarskyldu starfsmanna í viðkomandi eftirlitsstofnun, þó að hv. þingmaður meti það að sjálfsögðu mikils að vera alþingismaður, ég heyri það, og það er alveg ástæða til þess. En alþingismenn hafa engin sérréttindi á þessu sviði, það er nú bara einu sinni þannig.