132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Boðun þingfundar.

[18:12]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Að gefnu tilefni vill forseti láta þess getið að frumvarpi til vatnalaga var útbýtt 3. nóvember sl. Fyrsta umræða fór fram dagana 7. og 14. nóvember, tók tæpar sex klukkustundir. Nefndaráliti meiri hluta var útbýtt þann 3. mars, 2. umr. hófst 6. mars og var haldið áfram 7. mars. Í henni hafa hingað til talað sjö ræðumenn og 2. umr. staðið í heild með andsvörum í rúmlega 13 klukkustundir samtals þannig að nú þegar hefur þetta mál verið rætt hér í þinginu í 19 klukkustundir og enn eru 11 á mælendaskrá í 2. umr.

Forseti bauðst til þess að semja um framhald málsins á þann veg að það yrði ekki rætt meira í þessari viku á kvöld- og næturfundum heldur yrði umræðunni haldið áfram á mánudag og, ef þyrfti, lokið á þriðjudag í næstu viku. Forseta fannst fara vel á því að um þetta mikilvæga mál yrði ekki rætt á kvöld- og næturfundum heldur á daginn. Jafnframt telur forseti að það sé ekki fjölskylduvænt að vera með þingfundi á kvöldin og næturnar, eins og raunar hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson minntist á í ræðu sinni áðan þar sem sumir hv. þingmenn eru með ung börn.

Varðandi það sem hv. þm. Mörður Árnason tók hér sérstaklega til umræðu út af fundarhöldum mínum í New York með öðrum forsetum þjóðþinga þá er það svo sannarlega minn ásetningur, og vonandi næst gott samkomulag um það við hv. þingmenn, að draga úr þessu vinnulagi, þessu vertíðarfyrirkomulagi sem hefur verið hér á þingfundum. En því miður náðist ekki samkomulag um þessa málsmeðferð á fundi sem forseti hélt með þingflokksformönnum í hádeginu í dag. Forseti átti raunar líka fund með þingflokksformönnum seint í gærkvöldi.

Niðurstaðan er því sú að þar sem þetta mál er mál sem stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að ljúka og ljóst er að hv. stjórnarandstöðuþingmönnum liggur mikið á hjarta hyggst forseti halda áfram fundi svo að ljúka megi 2. umr. um málið.