132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Boðun þingfundar.

[18:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er svolítið sérkennilegt að hlýða hér á einkunnagjöf sem stjórnarliðar (DrH: Það gerið þið aldrei.) telja sig umkomna að veita okkur í stjórnarandstöðunni um þetta mál. Hér eru málin sett upp eins og það sé okkur eitthvert sérstakt kappsmál að tala mikið og lengi í þessu máli.

Okkur er það kappsmál að þessu þingmáli verði vísað frá og að við stöðvum þetta mál.

Við höfum engan áhuga á að tala mikið og lengi um ný vatnalög. Við viljum að málinu verði vísað frá í þinginu og stjórnarandstaðan hefur sameinast um tillögu þess efnis. Þetta er okkar krafa. Málflutningur okkar gengur út á að fá þessu framgengt. Það er á þeirri forsendu sem við höfum ekki viljað semja um málalyktir í þessu máli. Þetta er ástæðan. Við erum að sjálfsögðu á þeirri skoðun að það eigi að virða vinnutíma hér í þinginu og viðhafa skynsamleg vinnubrögð. Við erum því fylgjandi en við erum ekki tilbúin að kokgleypa þetta frumvarp sem er sett fram í óþökk mjög margra og fjölmennra félagasamtaka í landinu, aðila sem starfa að umhverfisvernd, verkalýðssamtakanna og ýmissa almannasamtaka. Út á þetta gengur barátta okkar hér í þinginu.

Ég get fyrir mitt leyti staðfest það sem kom fram í máli hæstv. forseta þingsins. En menn verða líka að virða hvað það er sem fyrir okkur vakir í þessu efni. Við viljum burt með þetta frumvarp.