132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þeirra frétta sem berast nú frá foreldrafélagi Listdansskóla Íslands. Reyndar náðist því miður ekki í hæstv. menntamálaráðherra áður en þessi fundur hófst. Hún er því ekki viðstödd til að svara þeim spurningum sem ég hefði gjarnan viljað leggja fyrir hana en ég vil engu að síður vekja athygli þingheims á því sem er að gerast í Listdansskóla Íslands og þeirri óánægju sem ríkir nú hjá foreldrafélagi skólans í ljósi þess sem hér hefur verið sagt úr þessum ræðustóli og hæstv. menntamálaráðherra hefur haldið fram varðandi þær breytingar sem nú eru fyrirhugaðar á skólanum.

Eins og menn rekur minni til var ekki gert ráð fyrir fjármunum til Listdansskólans á fjárlögum þessa árs nema til að klára þetta skólaár. Hæstv. ráðherra hefur í hyggju að einkavæða skólann, var búin að fá til þess fyrirtæki sem heitir Dansmennt ehf. en nú fullyrðir foreldrafélag Listdansskóla Íslands að frá áramótum hafi ekkert gerst og ekkert gengið eftir af yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að ekki sé fyrirhugað að skerða námið, ekkert gengið eftir af því samtali sem átti að fara fram milli foreldrafélagsins og hæstv. ráðherra eða ráðuneytisfólks þannig að nú er orðið ljóst að áform ráðherrans hafa öll verið í skötulíki.

Það er auðvitað mjög miður, frú forseti, að ráðherrar og ríkisstjórnin skuli fara svona að, taka ákvarðanir sem eru jafnafdrifaríkar um framtíð fólks eins og hér um ræðir án nokkurs samráðs. Þegar skaðinn er skeður, ákvarðanirnar teknar, er heldur ekkert gert í framhaldinu til að tryggja að sátt ríki um áformin. Svona fer maður ekki að, frú forseti, og það er mjög miður að heyra þessar óánægjuraddir frá foreldrafélaginu. Við hv. alþingismenn þurfum að veita ríkisstjórninni meira aðhald greinilega til að fleiri axarsköft séu ekki framkvæmd, til að fleiri skemmdarverk séu ekki framin, vil ég segja, á námi og þá sérstaklega listnámi því það er ekki eingöngu listdansinn sem hér um ræðir og við höfum verið að gagnrýna hæstv. menntamálaráðherra fyrir. Ég nefni tónlistarnám og get svo sem nefnt fleira.