132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil minna á að við afgreiðslu fjárlaga í haust fyrir þetta ár gagnrýndum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mjög harðlega niðurskurð til Listdansskólans og það að ætlað væri að leggja hann niður. Við fluttum tillögu á Alþingi um fjárveitingu til Listdansskólans til að tryggja starf hans út allt þetta ár. Sú tillaga var felld á þinginu og nú sjáum við hvert stefnir. Það stefnir í fullkomið óefni með þann skóla. Ekki aðeins að vilyrði og yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra um að framtíð hans yrði tryggð með einkavæðingunni reynist bara haldlaust spjall heldur stendur listdansnámið einnig uppi skipulags- og fjárvana.

Ég tek undir þá eindregnu áskorun sem hérna hefur komið fram frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að þetta mál verði þegar í stað tekið upp í ríkisstjórn. Ég tel þetta eitt brýnasta málið fyrir ríkisstjórnina að leysa, fresta öllu einkavæðingartali og einkavæðingu og taka á málum Listdansskólans svo að sómi sé að og tryggja framtíð hans.