132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:41]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki nógu gott. Þær upplýsingar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom með í upphafi máls síns ollu mér satt að segja nokkrum vonbrigðum. Ég man ekki betur en hæstv. menntamálaráðherra hafi reynt a.m.k. að fullvissa þingið um að þessi mál væru í góðum farvegi þegar við vorum að ganga frá afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót. Þá voru þessi mál til umræðu. Ég verð að segja að ég ákvað að taka þann pól í hæðina og við í Frjálslynda flokknum að taka orð hæstv. menntamálaráðherra trúanleg. Núna kemur síðan yfirlýsing frá foreldrafélagi Listadansskóla Íslands um að ekkert hafi gerst í þessum málum og það veldur mér vonbrigðum.

Það veldur mér líka ákveðnum vonbrigðum að við skulum ekki vera upplýst um hvað valdi því að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki hafa séð sér fært að vera hér til staðar til að standa fyrir máli sínu. Það eru líka ákveðin vonbrigði að mér sýnist að allir þingmenn stjórnarliðsins ætli ekki taka þátt í þessari umræðu. — Jú, þar bankar hv. þm. Birgir Ármannsson í borðið og vill kveðja sér hljóðs um málið. En hvað um t.d. framsóknarþingmennina? Hér er formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson. Áhugavert væri að heyra skoðun þeirra á málinu.

Ég hefði líka viljað sjá formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson. Ég lá á gægjum í gluggunum og bjóst við að sjá þann vaska svein koma hlaupandi yfir Austurvöll þegar þessi umræða væri hafin en það bólaði ekkert á honum síðast þegar ég gáði út um gluggann. Þetta finnst mér frekar dapurlegt. Mér finnst að stjórnarliðar þurfi að skýra mál sitt og gefa okkur skýringar á hvernig á því stendur að ekkert hafi gerst í þessum hlutum því eins og ég sagði í upphafi máls míns, hæstv. ráðherra reyndi að fullvissa þingið um að þetta væri í góðum farvegi fyrir örfáum vikum.