132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Það er orðið mjög erfitt að treysta því sem hæstv. menntamálaráðherra lætur frá sér fara. Hún hefur ítrekað gefið yfirlýsingar um að framtíð þessa skóla væri tryggð en síðan virðist annað vera uppi á teningnum og menn þurfa að vera að ýta á eftir málinu, ýta á eftir því að hún standi við gefin loforð.

Maður fer að velta fyrir sér hvað valdi. Það er erfitt að átta sig á því hvað það er en það eru fleiri dæmi um að Sjálfstæðisflokkurinn er á furðulegri vegferð í menntamálum. Við verðum að horfa til þess að Sjálfstæðisflokkurinn með alla þessa lögfræðinga í stól menntamálaráðherra hefur lagt niður nám t.d. í fiskvinnsluskólum, það er búið að leggja það af. Á sama tíma er búið að koma á námi á fjórum stöðum á landinu í lögfræði. Þetta eru áherslurnar. Ég veit ekki betur en hv. þm. Birgir Ármannsson komi í stólinn hér á eftir og e.t.v. tilkynnir hann okkur að enn ríkari áhersla verði lögð á lögfræðimenntun, ég veit það ekki. En ég er á því að þetta sýni firringu hjá Sjálfstæðisflokknum. Það fær ekkert að vera í friði, ekki einu sinni listnám. Nám í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er lagt niður og síðan er þeim stöðum fjölgað þar sem lögfræði er kennd. Þetta er alveg með ólíkindum.