132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:47]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mér var ekki ljóst hvaða nám nákvæmlega hv. þm. Sigurjón Þórðarson var að ræða um, hvort hann var að ræða um listnám, fiskvinnslunám eða lögfræðinám. (SigurjÞ: … hvort tveggja…) Ég hygg að hv. þingmanni hafi sjálfum ekki verið það ljóst þegar hann fór í pontu og er það nokkuð dæmigert fyrir umræðuna í dag sem hefur verið með hreinum ólíkindum.

Nú er það svo að þingsköp heimila þingmönnum að ræða við upphaf þingfundar þau mál sem á þeim brenna og er ekkert sem hindrar menn í því að taka upp umræðu um málefni Listdansskólans eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði. Það er ekkert sem hindrar hana í því. Á hinn bóginn hlýt ég að vekja athygli á því, vegna þeirra árása sem hér hafa átt sér stað á hendur hæstv. menntamálaráðherra, að málefni listdansnáms voru ekki á dagskrá í dag. Hér stendur til að ræða skýrslur alþjóðanefnda og mér vitanlega var ekki ljóst að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ætlaði að taka þessa umræðu upp fyrr en örstuttu fyrir þingfund. Ég held því að hv. þingmenn ættu að spara sér stóru orðin um hæstv. menntamálaráðherra þegar ásakanir eru hafðar uppi um að hún þori ekki að mæta til umræðu eða víki sér undan því. Það er þannig að þingmenn geta tekið upp þau mál sem þeir vilja en hins vegar er ekki venja að menn geti með örstuttum fyrirvara, örfárra mínútna fyrirvara, kallað ráðherra til svara. Þingsköpin heimila þingmönnum að taka upp mál af þessu tagi undir fjölmörgum öðrum dagskrárliðum þingsins, t.d. í undirbúnum og óundirbúnum fyrirspurnum, og ekkert sem segir að hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki verið tilbúin til að koma í þá umræðu. Og ég verð að segja að þó ég geri enga athugasemd við það að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir taki þetta mál upp þá eru svigurmæli einstakra þingmanna í garð hæstv. menntamálaráðherra fullkomlega tilefnislaus.