132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Af þessu tilefni og vegna orða hv. þingmanns sem hér talaði síðastur vil ég eingöngu segja að það var ekki langur fyrirvari á því að ég tók þessa ákvörðun þannig að ég hafði ekki neinar hástemmdar yfirlýsingar um það í upphafi máls míns að ráðherra væri ekki viðstaddur. Það hefði hins vegar verið heppilegra en svo var ekki.

Það sem mér finnst skipta máli í þessu er það að foreldrafélag Listdansskóla Íslands biður okkur sem hér sitjum, eða tekur öllu heldur tekur undir það ákall sem við höfum hér úr þessum ræðustóli áður fært fram, um að þessum áformum hæstv. menntamálaráðherra verði frestað.

Nú er það svo að Dansmennt ehf., sem gert er ráð fyrir að taki við forræði í þessu námi, hefur ekki enn þá fengið neitt húsnæði til starfseminnar. Námskráin sem liggur fyrir — hún var samin í hasti rétt fyrir áramót og varðar bara framhaldsskólastigið — vekur mikla óánægju, hún er talin mjög ófullkomin og ná mjög skammt. Námskrá vegna grunnskólastigsins er ekki tilbúin. Það er hins vegar ekki búið að segja starfsmönnum upp og því tel ég einboðið að hæstv. ráðherra gefi yfirlýsingu um það sem allra fyrst að áformum um þessa einkavæðingu verði frestað, hún verði sett á ís. Það er margt sem styrkir mál okkar í þeim efnum, m.a. það að nú hafa borist ýmsar fréttir um það af Norðurlöndunum hver staðan er í samstarfi hinna opinberu listdansskóla. Listdansskóli Íslands hefur sinnt miklu samstarfi fyrir okkar hönd og hefur alltaf komið afskaplega vel út. Hinir opinberu listdansskólar standa miklu meira en feti framar, þeir standa mun framar en allir einkaskólarnir á Norðurlöndunum ná að gera. Ég fullyrði úr þessum ræðustóli að með einkavæðingaráformum sínum er hæstv. ráðherra að gjaldfella nám í listdansi sem hefur staðið styrkum fótum hér á Íslandi.

Reynum að vitkast og hvetjum hæstv. ráðherra í sameiningu til að taka aftur þessi áform sín en efla hins vegar listdansnámið innan Listdansskóla Íslands.