132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:54]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er ekki hér, það er staðreynd. Þótt í þingsköpum standi að menn eigi að sækja alla fundi þá hefur einkum ráðherrum liðist að gera það ekki nema þeir eigi hér sérstakt erindi. Ég geri ráð fyrir því að menntamálaráðherra hafi haft einhverjum gagnlegri hlutum að sinna en þeim að standa fyrir sínu máli og skýra út fyrir okkur hvers vegna foreldrar nemenda í Listdansskólanum eru í þeim vanda sem þeir eru.

Ég held að við gerum ekki annað hér, sem höfum áhyggjur af þessu ásamt foreldrunum, en að taka málið upp aftur við fyrsta mögulegt tækifæri þegar hæstv. menntamálaráðherra þóknast að vera í salnum vegna þess að það er ekki við neinn annan að tala um þetta. Málið virðist ekki vera á áhuga- eða þekkingarsviði þeirra þingmanna sem styðja menntamálaráðherra með því að veita honum stuðning sinn innan þingsins. Hér komu upp þrír slíkir þingmenn, hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, hv. þm. Dagný Jónsdóttir og hv. þm. Birgir Ármannsson, og kusu að eyða máli sínu í það að skamma hér einn eða tvo ræðumenn fyrir að hafa harmað það að menntamálaráðherra væri ekki á staðnum, en sögðu ekki orð um það mál sem vakti þessar umræður.

Málefni Listdansskólans virðast vera í klúðri langt umfram það sem heitið var af hálfu hæstv. menntamálaráðherra, þá sjaldan hann hefur fengist til að ræða þetta á þinginu — þetta kemur þinginu sem sagt formlega ekki við. Þeirri spurningu hefur ekki heldur verið svarað hvað gerðist með hinn hlutann af nemendum þessa skóla, þann sem átti að koma inn í grunnskólana en síðast þegar ég vissi hafði ekki verið talað eitt orð við grunnskólana um það mál.