132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:56]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar að hann skildi ekki alveg ræðu mína, hvert ég væri að fara. Ég verð því að nota tækifærið á ný og fara yfir það. Ég var að ræða um menntamálastefnu ráðherra Sjálfstæðisflokksins. En þar sem margir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem hafa gegnt embætti menntamálaráðherra, hafa verið lögfræðingar þá hafa þeir lagt alla áherslu á lögfræði og gleymt undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er það sem er vert að ræða hér. Á fjórum stöðum á landinu er verið að kenna lögfræði. Þetta finnst okkur vel í lagt miðað við að það er búið að leggja niður allt nám í fiskvinnslu, undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, og nú stefnir í — og það er tengingin við þetta mál, frú forseti — að annað nám verði lagt af og þá er það spurningin hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli að auka enn kennslu í lögum. Mér finnst svolítið vel í lagt og mér finnst það bera vott um hálfgerða firringu hjá Sjálfstæðisflokknum að leggja alla áherslu á að kenna lögfræði en ekkert í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Þetta er alveg stórundarlegt (Gripið fram í.) og ég heyri að hv. formaður landbúnaðarnefndar hefur vissar áhyggjur af þessu líka, ef ég skil hennar frammíköll rétt. Mér finnst að þjóðin eigi að fara yfir þessa hluti með gagnrýnum hætti. Okkur í Frjálslynda flokknum finnst þetta alla vega sérkennileg menntastefna.