132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[11:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins til að bæta fáeinum atriðum við frá fyrri ræðu minni. Þá staldraði ég við greinargerð um fjárfestingarsjóði og banka sem eru reknir á vegum Norðurlandanna og gerð er grein fyrir hér í skýrslunni, lánasjóð Vestur-Norðurlanda sem hefur á árinu greitt lán að upphæð samtals 27 millj. d. kr. Síðan er það Norræni þróunarsjóðurinn en markmið hans er að styrkja efnahagslegar og félagslegar framfarir í fátækustu þróunarríkjunum í samvinnu við aðrar lánastofnanir. En fram kemur í skýrslunni að til standi að leggja þennan sjóð niður. Það hafi verið fengnir til þess ráðgjafar að leggja drög að því. Nokkuð sem hlýtur að verða okkur umhugsunarefni. Svo og hitt þegar talað er um samstarf við alþjóðastofnanir. Í greinargerðinni er Alþjóðabankinn í Washington fyrstur talinn sem stofnun sem ráðgjöf er sótt til. Nú þekkja menn hvaða skilyrði sú stofnun hefur sett fátækum ríkjum við lánveitingar og hefur þar haft náið samstarf við systurstofnun sína Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þau skilyrði hafa verið á þann veg að fátækum ríkjum hefur verið gert að taka grunnþjónustu samfélagsins og iðulega verðmætar eignir, á borð við námur og annað af því tagi, og einkavæða þær. Oft var vísað til þessara skilyrða sem Structural Adjustment Programs, og fólst í því sú hugsun að krafist væri grundvallarbreytinga á samfélagsgerðinni sem gekk mjög í þessa veru. Því miður hefur það verið svo að fulltrúar Norðurlandanna á vettvangi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa samræmt sinn málatilbúnað og sínar áherslur á fundum þessara sjóða og þær hafa gengið mjög í þessa veru. Ég hef kynnt mér rækilega þær ræður sem íslenskir ráðherrar hafa flutt á þessum fundum. Man sérstaklega eftir fundi, held ég hafi verið, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Hong Kong fyrir fáeinum árum þar sem hæstv. núverandi forsætisráðherra og þáverandi utanríkisráðherra hvatti beinlínis til einkavæðingar í þessum fátækustu ríkjum heimsins. Get ég gert nánari grein fyrir því hér í þingsal ef þess er óskað, en það gerði ég reyndar á sínum tíma. Þannig að ég velti svolítið fyrir mér þessum samstarfsaðilum Norræna þróunarsjóðsins og tel að ráðgjöf frá Alþjóðabankanum í Washington sé ekki bestur vegvísir í þessum efnum nema síður sé.

Hins vegar verður mér það umhugsunarefni að Norðurlöndin ætli að leggja niður þann sjóð sem var settur á laggirnar til að styrkja efnahagslegar og félagslegar framfarir í fátækustu þróunarríkjum heimsins. Ekki þykir mér það vera framfaraspor nema síður sé þó að ég leggi áherslu á að ég sé svolítið blendinn hvað varðar þessa ráðgjöf því hún hefur ekki leitt til góðs. Þessi Structural Adjustment Programs urðu fyrir mikilli gagnrýni fyrir nokkrum árum og hefur henni verið haldið mjög á loft núna á undanförnum árum, og svo mjög að Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reyndu að gangast undir eins konar fegrunaraðgerð, pólitíska fegrunaraðgerð, og nú heita þessi prógrömm Poverty Reduction Programs, ef ég man rétt. Prógrömm eða áætlanir til að draga úr fátækt. Þetta á að hljóma betur. En að innihaldi og uppistöðu eru þetta nákvæmlega sömu áherslurnar og áður var. En þetta er sem sagt Norræni þróunarsjóðurinn sem samkvæmt skýrslunni stendur til að leggja niður.

Síðan er það Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn sem er settur á laggirnar til að efla alþjóðlega samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja og stuðla að þátttöku þeirra í verkefnum á alþjóðavettvangi eins og það heitir í skýrslunni. Þar er m.a. talað um lán til alþjóðavæðingar. Það væri fróðlegt að heyra á hvaða forsendum slíkar lánveitingar eru.

Síðan eru það sjóðir sem eru settir á laggirnar með umhverfistengsl einhvers konar. Það er Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið, sem var sett á stofn fyrir 15 árum, en fram kemur í skýrslunni að því átaki hafi verið beint að Mið- og Austur-Evrópu og í seinni tíð að Eystrasaltslöndunum. En hér kemur fram að það sé lögð áhersla á arðsemi þess að leysa mengunarvandamál svæðisbundið og hafa í því sambandi verið kynntir útreikningar sem sýna að allt að tíu sinnum ódýrara getur reynst að taka á umhverfisvanda þar sem rótin liggur í héraði og það þykja mér mjög athyglisverðar áherslur og upplýsingar.

Við erum síðan með Norræna fjárfestingarbankann og þar er reyndar einnig vikið að umhverfisþættinum á nokkuð umhugsunarverðan og athyglisverðan hátt. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna hér í skýrsluna:

„Í starfsemi NIB á Íslandi hefur jafnan verið lögð áhersla á náið samstarf við íslenska banka í útlánum til einstakra verkefna, sér í lagi til einkafyrirtækja. Í því skyni hafa verið veittir sérstakir lánarammar til íslenskra banka. Tilgangurinn með þessum lánarömmum er að beina útlánum bankans til smárra og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi. Skilyrði lánveitinga er að verkefni feli í sér norræna hagsmuni. Með þessu móti getur fjármögnun bankans nýst fleiri fyrirtækjum og verkefnin þar með orðið fjölbreyttari. Á þessu ári var undirritaður lánasamningur við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis að upphæð 1,1 milljarða kr. (15 millj. evra). Í samstarfi við íslenska banka hefur verið lögð áhersla á umhverfisstefnu NIB með kynningu á henni samhliða því sem bankarnir hafa tekið umhverfismál á dagskrá í tengslum við sínar eigin lánveitingar.“

Þetta er allt hið besta mál. Bæði áherslan á smá og meðalstór fyrirtæki og þessar umhverfisáherslur einnig. Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Á árinu voru greidd út lán til Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja sem samþykkt voru á árinu 2004. Lánin voru veitt til fjármögnunar jarðvarmavirkjana á Hellisheiði og Reykjanesi. Mikil áhersla var lögð á að fylgja eftir þessum stóru orkuframkvæmdum, og ekki síst lánveitingu til Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar, sér í lagi mati bankans á umhverfisáhrifum þeirra. Þá hafa umhverfisáhrif fyrirhugaðra fjárfestinga í orkugeiranum verið athuguð. Bankinn er mjög mikilvægur þátttakandi í fjármögnun orkuframkvæmda á Íslandi og hlutdeild hans í fjármögnun jarðvarmavirkjana er til að mynda um 50%.“

Ég er ekki jafnhrifinn af þeim áherslum sem hér koma fram. Mér finnst ekki rétt fram sett að þessi lán séu sérstaklega hugsuð sem umhverfisvæn. Hér er verið að tala um lán til orkuframkvæmda og það er hið rétta í málinu. En að fara að sveipa þetta einhverjum umhverfisáherslum, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða Kárahnjúkavirkjun, sem er einmitt mjög umdeild á þeim forsendum. Við getum haft skiptar skoðanir á því hvað er rétt og rangt í því efni. En það eru skiptar skoðanir og menn telja margir að það sé verið að valda miklum spjöllum á íslenskri náttúru og íslensku umhverfi með þeirri framkvæmd. Það eru þær áherslur sem koma frá umhverfisverndarsamtökum á Íslandi og um heim allan. Þess vegna finnst mér það skjóta skökku við að orða hlutina með þessum hætti. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um þær reglur og þau grundvallarsjónarmið sem hér er byggt á. Hvernig eru hin umhverfisvænu lán skilgreind? Við þurfum að fá nánari upplýsingar um þetta. Því hér er ein millifyrirsögnin í umfjöllun um þetta efni: Umhverfislán. Síðan kemur önnur fyrirsögn þar sem vísað er í Norræna fjárfestingarbankann á Íslandi og þar er sú tilvitnun sem ég vísaði til. En það er engu að síður verið að tala um lán vegna Kárahnjúkavirkjunar og lán til Landsvirkjunar sem er að fara fram á mjög umdeildan hátt gagnvart náttúru Íslands og í andstöðu við það sem umhverfisverndarsamtök í landinu segja og óska eftir. Menn leyfa sér síðan að tala um stuðning við þá sömu stofnun, Landsvirkjun, sem sérstakar ívilnanir og aðstoð og hjálp á sviði umhverfismála. Ég held að hæstv. umhverfisráðherra, sem jafnframt er samstarfsráðherra Norðurlanda, geri okkur betur grein fyrir þessu orðalagi og þessari framsetningu. Ég óska eftir því að fá að heyra hvaða reglur eru í gildi hjá þessum stofnunum sem eru settar á laggirnar sérstaklega til að sinna umhverfisvernd og niðurstöðurnar síðan með þeim hætti sem fram kemur í þessari skýrslu.

Ég hef vikið að þeim sjóðum flestum, gott ef ég gleymdi ekki Norræna umhverfisþróunarsjóðnum, en hann mun hafa verið stofnaður, og kemur það reyndar fram hér, árið 1996, í því skyni að veita lán ýmist á hagstæðum kjörum eða í formi styrkja til ýmissa umhverfisbætandi verkefna í Austur-Evrópu sem ekki uppfylli þær kröfur sem gerðar hafa verið um fjárhagslegar forsendur.

Hæstv. forseti. Til að enda þessa gagnrýni mína, því þetta er mjög eindregin gagnrýni af minni hálfu, (Gripið fram í.) á jákvæðum forsendum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er enn í Afganistan og við herflutninga þar. En við komum að því síðar, ég skal lofa honum því að þegar NATO-skýrslan verður tekin hér til umfjöllunar þá gefst tilefni til að ræða um áherslur og framgöngu þess hernaðarbandalags á heimsvísu, og þar á meðal í Afganistan.

Ég vil ljúka máli mínu á þeirri jákvæðu nótu sem fram kemur í þessari skýrslu, að það hafi komið í ljós að í vinnu Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins hafi niðurstöður sýnt að það hafi verið allt að tíu sinnum ódýrara að taka á umhverfisvanda en að láta slíkt ógert.