132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[12:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu Sigríðar Önnu Þórðardóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, um störf Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2005. Ég vil eins og aðrir þingmenn hafa gert áður þakka fyrir mjög ítarlega skýrslu um þá fjölbreyttu þætti sem Norðurlöndin eiga formlegt samstarf um og er í gangi undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ég tel mjög mikilvægt fyrir Íslendinga, og reyndar alla íbúa á Norðurlöndum og í sjálfu sér fyrir alþjóðasamfélagið, að þær þjóðir sem eiga svo margt sameiginlegt, sameiginlegan menningararf og aðra þætti, skuli eiga með sér náið samstarf og geti stillt saman krafta sína, bæði innan og milli samstarfslandanna, en einnig sem öflugir samstarfsaðilar út á við. Ég árétta það og árétta um stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað það varðar, að leggja áherslu á öflugt samstarf Norðurlandaþjóðanna og þeirra þjóða sem hafa gerst aðilar að því samstarfi og tengst því.

Ég leyfi mér að mæla gegn öllum hugmyndum um að veikja slíkt samstarf eða veikja stöðu Norðurlandaráðs bæði á vettvangi þess og á alþjóðavettvangi. Ég held að styrkurinn sé einmitt í því að vinna þar saman og finna sem flesta samstarfsfleti.

Það eru örfá atriði sem mig langar að minnast á og spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í. Það er í sambandi við kaflann um umhverfismál, sem er kafli 9 og byrjar á bls. 28 og heldur síðan þar áfram. Það væri forvitnilegt að heyra hvernig ákveðin atriði eigi að standa. Á bls. 29 er minnst á kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield og þar stendur, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðherra Íslands hélt starfsfélögum sínum upplýstum um þann leka sem átti sér stað í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield á árinu og var ákveðið að Ísland héldi áfram að fylgjast með framvindu mála. Einnig ákváðu ráðherrarnir að taka málið til frekari skoðunar ef tilefni gæfust til og ræða hugsanlegar sameiginlegar aðgerðir til að sporna við geislavirkri mengun frá Sellafield.“

Nú finnst mér að hafi borist af og til skilaboð um að til stæði að loka þessari endurvinnslustöð og jafnframt herða á reglum varðandi mengunarhættu frá stöðinni í Sellafield. Eins og ég segi voru hugmyndir um að henni yrði lokað. En ég hef ekki alveg á hreinu hvernig þessi umræða stendur og vildi gjarnan heyra það hjá hæstv. ráðherra. Við vitum að það hefur verið mikið baráttu- og hagsmunamál fyrir þjóðirnar á norðurslóðum að þeirri stöð væri lokað, það stafaði af henni svo mikil mengunarhætta út í hafsvæðin á norðurslóð að óverjandi væri að stöðin væri rekin áfram með þeim hætti sem verið hefur.

Þetta hafa íslensk stjórnvöld verið öll sammála um og hvað eftir annað borið fram mótmæli gegn starfsemi þessarar stöðvar og því væri mjög fróðlegt að heyra í hvaða farvegi þau mál eru þessa stundina.

Það er líka mjög fróðlegt að sjá á bls. 31 þar sem fjallað er um nefnd um náttúruvernd, útivist og menningarumhverfi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verkefni nefndarinnar eru á sviði líffræðilegrar fjölbreytni þar með talið erfðaauðlinda, landslags, menningarminja og útivistar. Árið 2005 er upphafsár nýrrar umhverfisáætlunar fyrir tímabilið 2005–2008 og hefur starfsárið mótast af því. Nefndin mun leggja áherslu á að fækka verkefnum en hafa þau í staðinn viðameiri. Lögð verður áhersla á verkefni sem tengjast því að stöðva tap á líffræðilegri fjölbreytni og á verkefni um samspil náttúruverndar, útivistar og heilsu almennings, sérstaklega barna.“

Síðan er minnst á verkefni sem hafa verið í gangi á vegum Hafrannsóknastofnunar um áhrif botnvörpuveiða á lífríki og menningarminjar í hafinu. En það sem ég ætlaði fyrst og fremst að spyrja hæstv. ráðherra út í er: Hvar stendur þessi nýja umhverfisáætlun og framkvæmdaatriði varðandi hana? Það má vel vera, frú forseti, að ég sé að spyrja um atriði sem ég ætti að vita. En það verður þá að hafa það.

Umhverfisáætlun og sameiginlegt umhverfisátak á milli þessara landa, ég tel þau mjög mikilvæg. Það skiptir miklu máli að forsendur, markmið, áætlanir og sú vinna sem þar er unnin sé gerð á mjög trúverðugan hátt. Okkur sem leggjum áherslu á umhverfismál og umhverfisþætti finnst allt of smá spor stigin, allt of veik og alltaf of mikil undanlátssemi sé fyrir aðilum sem vilja á grundvelli einhverrar arðsemis- eða fjármögnunarsjónarmiða ganga á rétt umhverfisins. Ég kem að því aðeins seinna. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar standa þessar áherslur núna sem eiga að vera þættir í nýrri umhverfisáætlun fyrir árið 2005–2008 og lúta einmitt að líffræðilegum fjölbreytileika og fleira í því sambandi? Því það verður að segjast eins og er að þær stefnur og áherslur ríkisstjórnarinnar, að minnsta kosti af hálfu Framsóknarflokksins, og stóriðjustefna Framsóknarflokksins þar sem ráðast á í stórvirkjanir, hvort sem það eru vatnsaflsvirkjanir eða einstæð hverasvæði, að ráðast eigi á þessi náttúruvætti, getur náttúrlega engan veginn samræmst þeirri stefnumörkun sem hér er lagt upp með, þ.e. að vernda erfðaauðlindir landslags, menningarminjar, útivistir og líffræðilegan fjölbreytileika vitandi það að sú stefna gengur fullkomlega í berhögg við þær áherslur sem hér eru lagðar fram, áherslur í umhverfismálum sem ég er alveg sammála.

Síðan er á bls. 32 minnst á neytendamál og samstarfsnefnd um framleiðslumiðaða stefnumótun í umhverfismálum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Nefndin er þverfaglegur samstarfsvettvangur aðila sem starfa að umhverfismálum, neytendamálum og málefnum atvinnulífsins. Aðalmarkmiðið með starfi nefndarinnar er að draga úr neikvæðum áhrifum sem framleiðsla á vörum og þjónustu getur haft á umhverfi og heilsu manna. Þetta á að gera m.a. með því að huga að umhverfisþáttum í öllum framleiðsluþáttum og nýta auðlindir á eins sjálfbæran hátt og unnt er. Meðal grunnþátta í starfi nefndarinnar eru verkefni sem varða umhverfisupplýsingar til neytenda og opinber vistvæn innkaup. Nefndin hefur fylgst náið með og unnið að umhverfisstöðlum á alþjóðlegum vettvangi. Nefndin gegnir mikilvægu hlutverki í því starfi á sviði sjálfbærrar framleiðslu og neyslu.“

Síðan eru þessi atriði rakin áfram. Allt eru þetta atriði sem eru mjög mikilvæg. En mér þætti gaman ef hæstv. ráðherra gæti bent á hvar þeirra sjái stað í íslenskri löggjöf, íslensku regluverki eða íslenskum áherslum í raun. Ég vil nefna eitt dæmi um hvað lítið gerist varðandi notkun á erfðabreyttum matvörum, erfðabreyttu fóðri o.s.frv. og um innflutning á slíku til Íslands eru engar reglur og engir staðlar til. Þó að, ég held bara öll önnur lönd í Evrópu hafi sett sér mjög ákveðnar reglur og staðla þar um eru engir staðlar hér til. Landið stendur alveg opið fyrir hvers kyns innflutningi af því tagi, sem er í sjálfu sér afar gagnrýnisvert. Þetta á við hvort sem það er innflutningur á fóðri til dýra í svína-, hænsna-, eða kjúklingaeldi og eggjaframleiðslu. Þetta á líka við um beinan innflutning á matvörum. Það er engin þjóð í Vestur-Evrópu sem hefur þetta með sama hætti og hér er. Það er einmitt minnst á að þetta sé eitt af verkefnum nefndarinnar, að vinna staðla sem lúta að málefnum neytenda hvað þetta varðar. Hérna stendur: „… á vörum og þjónustu getur haft á umhverfi og heilsu manna.“ Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessu mál standa varðandi einmitt þessa þætti.

Ég get ekki látið hjá líða í lokin að koma inn á sömu þætti og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á. Það var um starf Norræna fjárfestingarbankans og það að hann skuli vera að lána hingað sérstaklega til umhverfisþátta og taka það fram í texta þar sem stendur á bls. 81, með leyfi forseta:

„Á þessu ári var undirritaður lánasamningur við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis að upphæð 1,1 milljarða kr. Í samstarfi við íslenska banka hefur verið lögð áhersla á umhverfisstefnu NIB“ — þ.e. Norræna fjárfestingarbankans — „með kynningu á henni samhliða því sem bankarnir hafa tekið umhverfismál á dagskrá í tengslum við sínar eigin lánveitingar.“

Hvernig getur hæstv. ráðherra staðhæft að aðrir bankar hafi tekið upp einhverja umhverfisstefnu? Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum heimsótt núna banka hér á landi og við höfum spurt um umhverfisstefnu þeirra. Svarið hefur verið að hún sé ekki til. Mér finnst þarna verið nokkuð djúpt í árinni tekið. Það væri þá líka fróðlegt að heyra stefnu Norræna fjárfestingarbankans í umhverfismálum og hvernig hann getur rökstutt að hafa lánað til Kárahnjúkavirkjunar sem fékk fall í umhverfismati. Sem var hafnað af umhverfisástæðum. Síðan var tekin pólitísk ákvörðun, ráðherraákvörðun, en í öllu umhverfismatsferlinu í kringum Kárahnjúkavirkjun var virkjuninni hafnað. Öll umhverfissamtök, a.m.k. flestöll, sem í rauninni geta staðið undir því nafni að tengjast umhverfismálum hafa mótmælt Kárahnjúkavirkjun harðlega og þeim gríðarlegu náttúruspjöllum þar. Bæði hér á landi og erlendis.

Ég er með ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar var verið að fjalla um þetta 26. febrúar árið 2003. Þá spyr hann hvernig Norræni fjárfestingarbankinn ætli að lána til Kárahnjúkavirkjunar. Hvernig getur hann gert það á grundvelli þeirrar umhverfisstefnu sem gengur þvert á slíkt? Ef einhver umhverfisframkvæmd eða framkvæmd hefur brotið allar reglur, öll matsferli umhverfismála þá er það Kárahnjúkavirkjun. En samt stendur í textanum að Norræni fjárfestingarbankinn láni til verkefnisins sem sérstakra umhverfisþátta. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég vil fá að heyra hvernig þessu er háttað og treysti því að umhverfisráðherra sem ber ábyrgð á umhverfismálum upplýsi okkur um það, frú forseti.