132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[14:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra er skyggn og sér inn í framtíðina. Hún svaraði spurningunni sem ég ætlaði að bera fram í seinna andsvari mínu. Ég ætlaði sem sagt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún teldi að það væri hægt að taka upp hinn sameiginlega gjaldmiðil Evrópusambandsins án þess að vera innan ESB. Hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt. Ég hallast að því að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér í því efni.

Það liggur þá alveg ljóst fyrir að innan ríkisstjórnarinnar eru greinilega skiptar skoðanir á því hvort slíkt er mögulegt. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur lýst sinni skoðun á heimasíðu sinni. Hún telur að þetta sé æskilegt. Hæstv. umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda telur að það sé ekki mögulegt. Hugsanlega leiðir þetta að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin ætti nú að ræða svona mál áður en einstakir partar hennar vaða út á völlinn með hugmyndir sem aðrir ráðherrar telja óframkvæmanlegar. (Gripið fram í.)

Það er eftirtektarvert að hæstv. viðskiptaráðherra virðist hafa farið á tauginni yfir þeim sviptingum sem verið hafa í fjármálalífinu. Að minnsta kosti er það mjög undarlegt, svo ekki sé meira sagt, og ekki til þess fallið að draga úr óróleika að um leið og einhvers skjálfta verður vart í efnahagsmálum talar hæstv. viðskiptaráðherra strax á þá lund að krónan sé ómöguleg og grípa þurfi til þess örþrifaráðs að reyna að tengja myntina við Evrópumyntina án þess að ganga í Evrópusambandið.

Það, frú forseti, tel ég taugaveiklun á tiltölulega háu stigi að reyna að grípa í fótinn á því sem óframkvæmanlegt er til að leiðrétta raunveruleikann þó hann kunni að fara í taugarnar á viðkomandi ráðherra. Hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna á hins vegar hrós skilið fyrir að halda ró sinni og sjá hlutina með köldum og yfirveguðum hætti.