132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[14:56]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Aldrei hefur annað staðið til en að vera fullkomlega heiðarleg við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um Norðurlandaráðssamstarf og ýmislegt annað.

Ég vil byrja á að fullvissa hv. þingmann um að við finnum ekki að nokkru leyti fyrir því að vera utanveltu í norrænu samstarfi. Það eru Íslendingar ekki. Ég býst við að spurningar hv. þingmanns stafi af því að hún hefur ekki tekið þátt í starfi ráðsins enn þá, áttar sig kannski ekki alveg á því út á hvað tilmælin ganga. En þau tilmæli sem samþykkt eru eru alltaf í sátt allra landanna. Þau snúa yfirleitt ekki að Evrópumálum sem slíkum. Þau geta t.d. snúið að einhverjum tilteknum fagmálefnum, einhverjum málefnum sem eru á sviði tiltekinna þingnefnda í þessu landi.

Þannig kemur aldrei til þess að þjóðir finni til þess, Ísland og Noregur, að þær séu utanveltu vegna þess að þær standi utan Evrópusamstarfsins. En hins vegar er það nú svo að utanríkismál innan Norðurlandaráðs eru á vettvangi forsætisnefndarinnar og þar sitja fulltrúar allra flokkahópa og allra landa. Þannig að þar erum við svo vissulega að vinna í takt.

En aðeins varðandi það hvort væri einhver skörun þá koma auðvitað upp málefni á vettvangi Norðurlandaráðs, í viðkomandi fagnefndum, sem menn hafa ólíka sýn á, bæði karlar og konur. Ég get t.d. nefnt mansal og vændi, Danir hafa t.d. aðra sýn á þau mál en Svíar og einhver hluti íslensku fulltrúanna. Það er því munur á afstöðu manna í tilteknum málum.

En tilmælin eru alla jafna samþykkt í sátt allra aðila og oftar en ekki byggist niðurstaðan á t.d. upplýsingaöflun eða upplýsingum sem fengnar eru frá ráðuneytum allra aðildarlandanna. Út frá því reynum við að móta tiltekna norræna stefnu innan Norðurlandaráðsins sem tekst í sumum málum, (Forseti hringir.) öðrum ekki.