132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[17:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Í skýrslunni er saga þessara mála rakin nokkuð og vísað til þess að fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða hafi verið haldin í Reykjavík árið 1993 en að takmörkuð samvinna norðurskautsríkja hafi hins vegar hafist nokkru áður þegar samþykkt hafi verið áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Finnlandi árið 1991. Það er vísað til þess að ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 hafi markað upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál. Hún hafi verið sett á laggirnar 1994 en þar sé á ferðinni stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin sé reglulega eða á tveggja ára fresti. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni auk þess sem Evrópuþingið eigi fastan fulltrúa.

Síðan er, án þess að ég ætli að rekja það nákvæmlega, vísað í starfið og þær áherslur sem uppi eru. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að fara mjög rækilega í saumana á þessum málum því staðreyndin er sú að menn eru farnir að beina sjónum sínum í ríkari mæli en áður var bæði til auðlinda á þessum slóðum og þeirra miklu breytinga sem eiga sér stað í loftslaginu og hafa áhrif á veðurfar á norðurslóðum. Vísað er í þær áherslur sem eru uppi núna í umhverfismálum og sagt að um það sé einhugur, t.d. í Alaska, að taka tillit til umhverfismála og náttúruverndar, a.m.k. meira tillit til slíkra þátta en áður hafi verið gert. Svo er vísað í erindi, ég ætla ekki að vitna í þetta orðrétt, sem flutt var á vettvangi nefndarinnar þar sem fyrirlesari hafi sagt að nú ríkti einhugur í Alaska um auðlindanýtingu og að hún yrði að fara fram á sjálfbærum grunni.

Það er fróðlegt, ef það er rétt, að tekist hafi að skapa einhug um þetta í ljósi þess að ríkisstjórn Bush hefur farið fram af miklu offorsi einmitt á þessum slóðum í þágu olíufélaganna sem hvergi eira og hafa verið sökuð um að taka ekki tillit til umhverfissjónarmiða. En þetta er einn þáttur af mörgum sem vikið er að í skýrslunni og væri þess virði að ræða mjög rækilega. Hins vegar finnst mér jákvæður tónn sem hér kemur fram um áherslur í starfi nefndarinnar og þeirra sem koma að þessari vinnu, að í stað þess að beina kröftunum að rannsóknum á því hvort um mengun og vaxandi mengun sé að ræða þá beini menn kröftunum að úrbótum. Það deilir með öðrum orðum enginn um það að mengunarhætta er mikil og mengun er raunveruleiki en nú þurfi að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt sé að leggja út í.

Þetta leiðir hugann að því hvernig Íslendingar eigi að láta til sín taka í samstarfi á alþjóðavettvangi. Ég tel það þjóna okkar hagsmunum sem íbúa á þessu svæði, alla vega á jaðri þess, að stuðla að rannsóknum og taka þátt í starfi til þess að koma í veg fyrir mengun. Ég held líka að við getum lagt ýmislegt af mörkum á slíkum sviðum, sem minnir okkur illyrmislega á þá staðreynd að við erum í þann veginn að fara að henda mörg hundruð milljónum króna í fáfengilegt áróðursstríð fyrir að fá sæti um stundarsakir í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það væri góðra gjalda vert ef við teldum að Íslendingar gætu látið verulega gott og mikið af sér leiða á þeim pósti en ef við ætlum að halda fram þeirri stefnu sem við höfum gert á undanförnum árum þá bið ég fyrir okkur vegna þess að þar kemur fram fullkomin þjónkun við stórveldin, og þá sérstaklega Bandaríkin og Bretland, og ég vildi ekki sjá okkur framfylgja þeirri stefnu með atkvæði okkar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef við hins vegar hefðum burði til að sýna sjálfstæði svipað því sem Svíar gerðu á árum fyrr undir forustu Olofs Palmes, þar sem var á ferðinni sjálfstæð og gagnrýnin rödd í heimspólitíkinni, þá væri það okkur að sjálfsögðu til sóma.

Ég vek athygli á þessu í þessu sambandi vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur verið að tjá sig um það í fjölmiðlum, reyndar í tengslum við erindi sem hann hélt hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, að nú væri þörf á því að kynna okkar starf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Gott og vel, það er hið besta mál en hann vill líka upplýsa um áróðursátak ríkisstjórnarinnar um að koma okkur inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, nokkuð sem er hugðarefni núverandi hæstv. forsætisráðherra sem hóf það starf við mismikla hrifningu á Alþingi og einnig innan stjórnarflokkanna eins og allir þekkja sem hafa kynnt sér. Hér er haft eftir hæstv. utanríkisráðherra, Geir H. Haarde, í Fréttablaðinu í dag um þetta efni, með leyfi forseta:

„Geir telur að áhugi almennings sé ekki mikill á málinu“ — og hér er vísað í umsókn um að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna — „og margir setji fyrir sig kostnaðinn sem veru í ráðinu fylgdi. Hann segir það þægilegt að láta aðra leysa vandamálin og Íslendingar hafi verið á þeirri línu nema þegar um sé að ræða hagsmunamál þeirra sjálfra. Geir sér fyrir sér að Ísland beiti sér á vettvangi ráðsins með því að halda á lofti friði, réttlæti og auknu lýðræði.“

Skyldi það vera innrásin í Írak, það réttlætismál, sú réttlætisbarátta sem Íslendingar ætla að halda á lofti? Eða innrásin og árásin á Afganistan eða þjónkun við Bandaríkjastjórn Bush sem er uppvís að því að stunda hryllilegar pyntingar á föngum og halda fólki utan dóms og laga án þess að bandalagsþjóðir og samstarfsmenn í alþjóðasamstarfi láti frá sér heyra á þann hátt að eftir sé tekið? Íslenska ríkisstjórnin segist hafa mótmælt. Það eru mótmæli í kyrrþey sem kalla má. Það hefur afskaplega lítið farið fyrir þessum umræðum, sennilega málinu hreyft einhvern tíma yfir kaffisopa með starfsmönnum sendiráða en mikið meira hefur það ekki verið. En mér finnst verðugt að ræða það hvernig Íslendingar verja fjármunum á alþjóðavettvangi og ég segi: Hér er komið dæmi um verkefni þar sem Íslendingar eiga að láta til sín taka á hressilegan hátt.

Annað verkefni sem Íslendingar eiga að sinna og hafa reyndar sinnt í nokkrum mæli en gætu gert miklu betur er á sviði hafsbotnsrannsókna. Slíkar rannsóknir fara nú fram á skipulegan hátt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Íslendingar, eins og ég sagði, hafa látið nokkra fjármuni til þeirra en … (Gripið fram í: Gríðarlega mikið.) Gríðarlega fjármuni, ég þekki ekki hvað upphæðirnar eru miklar. Þær eru talsverðar en mættu vera miklu meiri. Ég held að við getum þannig hvort tveggja í senn látið gott af okkur leiða og samhliða látið peningana gagnast okkar hagsmunum, og það er ekkert syndsamlegt við það. Ég held t.d. að fjármagn sem varið væri til vísindarannsókna sem t.d. tengjast norðurslóðum, mengun á norðurslóðum og leiðir til að bæta þar úr auk hafsbotnsrannsókna og annað því tengt — ef fjármunum yrði beint til háskóla og rannsóknarstofnana til að efla slíkt, ef hundruðum milljóna væri beint inn í slíkar rannsóknir mundi það efla vísindarannsóknir og hugsanlega hátækniiðnað, sem kæmi til með að tengjast þessu, og mundi gagnast miklu betur bæði Íslendingum og heiminum öllum. Við værum með þessu móti að láta gott af okkur leiða sem ég óttast að við munum ekki gera með því að hlassa okkur niður á þetta sæti í öryggisráðinu og sitja þar í 2–3 ár, ég man ekki hvort kjörtímabilið er tvö eða þrjú ár. Það væri hins vegar góðra gjalda vert, ég ítreka það, ef við fylgdum stefnu sem sómi væri að en ég þarf að sannfærast um það áður. Við þurfum að setja okkur markmiðin áður en ég styddi slíkt. Við eigum fyrst að setja okkur markmiðin, hvað það er sem við viljum gera ef við á annað borð ætlum inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. forseti. Ég er að ræða þetta í þessu samhengi, starf okkar sem lýtur að norðurskautsmálum, aðkomu þingmanna að því starfi og tengi það því að Íslendingar eigi að leggja meira af mörkum og beina kröftum sínum að þessu starfi í stað þess að láta peninga í starf sem tengist hernaðarsamvinnu hvort sem er á vettvangi NATO eða í beinu samstarfi við Bandaríkjamenn eina, og þar er ég að sjálfsögðu að vísa til Afganistans, ég er að vísa til Íraks og annarra ámóta verkefna.