132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[18:12]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þingmaður gefa sér það að undirskrift Kyoto-sáttmálans réði því með hvaða hætti menn tækju við nýjum orkufrekum iðnaði inn í landið. Það sem ég var að benda á var að að óbreyttum lögum og að óbreyttum fyrirætlunum sem þegar hafa komið fram, mjög eindregnar, um að byggja nýjan orkufrekan iðnað í landinu er a.m.k. ljóst að það verður ekki hægt að skrifa undir Kyoto-bókunina eða íslenska ákvæðið óbreytt. Ég hef ekki fengið nein svör við því hér, engin andmæli við því sem ég hef fullyrt hérna eftir að hafa skoðað þau lög sem eru í gildi. Þau þýða, að mínu mati, að ráðherrar verða að gefa starfsleyfi fyrir þessum fyrirtækjum að óbreyttum lögum og það er ekki neinn fyrirvari um að útvega þurfi útblástursheimildir vegna fyrirtækjanna þó svo að komið verði fram yfir þann útblásturskvóta sem þar er á ferðinni.

Síðan ætla ég að segja það einu sinni enn að mér finnst það óábyrgt að þannig skuli frá málum gengið, eins og ég held fram að gert sé, að ekki sé hægt að mæta til viðræðna við þessar þjóðir fyrir hönd Íslendinga í þeirri stöðu að geta framlengt sama samning áfram eins og hann hefur verið. Mér finnst það óboðleg staða fyrir Íslendinga og óþörf líka vegna þess að það eru aðeins sex ár eftir af þessum sáttmála.