132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[18:32]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Sú skýrsla sem hér er frá Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2005 er mjög vel gerð, mjög gagnleg fyrir lýsingar á þeim fundum sem Íslandsdeildin hefur starfað á og fyrir það vil ég sérstaklega þakka. Mér finnst þetta mjög vel fram sett. Hér er rakið hvernig rætt er um mál sem við ættum að láta okkur miklu varða og þyrftu því miður að vera aðalatriði, þ.e. loftslagsmál — en einnig er rætt um ýmis önnur mál.

En áður en lengra er haldið, virðulegi forseti, vil ég spyrjast fyrir um það hvort formaður Íslandsdeildarinnar, Sigurður Kári Kristjánsson, sem flutti framsögu um málið, er í húsinu. Það væri gott ef hann gæti verið hér, ég hyggst leggja fyrir hann eina eða tvær spurningar út frá þessari ágætu skýrslu um fund sem hann var á.

(Forseti (BÁ): Forseti mun kanna hvar formaður Íslandsdeildarinnar er staddur og gera honum grein fyrir ósk hv. þingmanns.)

Meðan það er kannað, virðulegi forseti, vil ég nefna að hér í innganginum er fjallað um þau þjóðlönd sem starfa á þessum vettvangi. Þar eru talin upp þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlandanna. Þá vaknar upp spurning um Bandaríkjamenn þarna. Síðar í skýrslunni er fjallað um það og menn voru greinilega, þingmenn og aðrir sem sátu fundinn í Washington dagana 1.–2. mars sl., að rifna úr kæti yfir því að komið hefði fulltrúi frá Bandaríkjunum, Lisa Murkowski, sem lét sjá sig eftir mikinn þrýsting og ítrekaðar beiðnir um að hún kæmi inn sem fulltrúi Bandaríkjamanna. Það kemur líka fram í skýrslunni, virðulegi forseti, að Bandaríkjamenn höfðu ekki sinnt þessu starfi lengi þar á undan.

Oft er talað um hina stóru og miklu þjóð, Bandaríkjamenn, sem telja sig standa framar öllum öðrum í heiminum, leiðandi afl á öllum sviðum. Það er því merkilegt að sjá það í þessari skýrslu hvernig þeir hunsa ýmsar alþjóðanefndir og alþjóðasamtök og vilja helst ekkert vita af þeim og nægir þar auðvitað að tala um Kyoto-sáttmálann þar sem þeir hafa ekki verið með. En í skýrslunni segir, með leyfi forseta, að fulltrúar Bandaríkjamanna hafi sagt að: „… tilgangslaust væri að gagnrýna stöðugt Bandaríkin fyrir að vilja ekki skrifa undir það sem fólk vissi að þau gætu ekki staðið við.“

Þetta er auðvitað mjög merkilegt. Lisa Murkowski, sem fulltrúi Bandaríkjamanna, virðist hafa mikið fram að færa og ekki spillir fyrir að hún kemur frá Alaskasvæðinu sem ég hygg að sé mikilsvert. En hvort hugur fylgir máli hjá Bandaríkjunum, með því að manna loksins nefndina, veit maður ekki. Í sjálfu sér hefur það engan tilgang ef einungis er um að ræða enn einn til þess að tala um hlutina en ekki fylgir einlægur ásetningur um að standa vaktina og taka þátt í starfi nefndarinnar og láta ákvarðanir hennar taka gildi en vera ekki einungis á umræðustiginu. — Mundi ég nú vilja, virðulegi forseti, fá að vita hvort hv. formaður nefndarinnar verður hér í húsi og getur hlustað á spurningu mína áður en tími minn verður búinn.

(Forseti (BÁ): Samkvæmt upplýsingum sem forseti hefur fengið þurfti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að bregða sér af bæ af persónulegum ástæðum sem hann gat ekki breytt. Hann mun vera væntanlegur í húsið innan skamms en hins vegar þorir forseti ekki að ábyrgjast hvenær það nákvæmlega verður. Eins og hv. þingmanni er ljóst hefur dagskráin gengið nokkuð hægar fyrir sig en ráð var fyrir gert þegar þingfundur hófst hér í morgun.)

Nú veit ég ekki um það, virðulegi forseti, hvaða tímaáætlanir hafa verið settar upp. Ég hef verið á nokkrum fundum með forseta þingsins þar sem rætt hefur verið um framvindu mála. Aldrei hef ég nú séð einhverja tímasetta áætlun um hvernig dagskrá dagsins mundi reiða fram. En ég vil ítreka að ég tel mjög mikilvægt að þeir sem eru í þessum nefndum, ég tala nú ekki um þá sem flytja okkur skýrslur eins og þá sem hér er, sitji við umræðuna og svari þeim spurningum sem þingmenn vilja leggja fram. (PHB: Hann hefur skyldur við fjölskyldu sína.) Ég heyrði ekki, virðulegi forseti, hvað hv. þm. Pétur Blöndal kallaði fram í. (PHB: Fjölskylduskyldur.) Fjölskylduskyldur? Já, ég hef þær nú líka en það get ég ekki skilið að fjölskylduskyldur séu þannig að þingmenn geti ekki sótt fundi. Það hlýtur þá að koma að því að fundi verði frestað, ég tala nú ekki um ef stjórnarmeirihlutinn getur ekki verið hér. En við höfum tekið eftir því að það eru ekki margir stjórnarþingmenn hér í dag.

Virðulegi forseti. Ég sný mér þá að öðru sem hér er. Skýrslan sem hér er sett fram er yfirgripsmikil og góð, eins og ég sagði áðan, og í henni er fjallað um margt. Ég tek eftir því t.d. að í formennskutíð okkar Íslendinga í þessari nefnd var mikið rætt um það, eins og hér segir, með leyfi forseta: „… að styrkja enn frekar stoðir efnahagslegra, menningarlegra og félagslegra þátta í starfi Norðurskautsráðsins, í stað þess að einblína á umhverfismál eingöngu“.

Ég stoppaði hér við, virðulegi forseti. Þeir þættir sem hér eru nefndir eru vissulega allir góðra gjalda verðir en þessi orð þarna í skýrslunni, í stað þess að einblína á umhverfismál eingöngu, vekja mann til umhugsunar. Ég sagði hér áðan um þessa þingmannanefnd um norðurskautsmál að eðli málsins samkvæmt, og miðað við það sem er að gerast núna, hljóti loftslagsmál alltaf að vera mikilvægust. Ég tek eftir því í þessum skýrslum hjá frummælendum og öðrum sem hafa komið til fundar við nefndina að töluvert margir ræða um loftslagsmál og t.d. mengunarmál vegna olíuborana, bæði í Alaska og norðanverðu Rússlandi, og þá hættu sem þar er. Síðan er það auðvitað Kyoto-sáttmálinn sem þarna er rætt um og önnur atriði.

En ég vil árétta, virðulegi forseti, að það hlýtur að vera svo að þessi þingmannanefnd, sem er skipuð fulltrúum þessara þjóðþinga, taki þau mál miklu fastari tökum en gert er ráð fyrir hér. Ég leyfi mér að efast um að það sé rétt að þessi mikilvæga nefnd fundi aðeins annað hvert ár. Ég held að full þörf sé á að hún komi oftar saman.

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þingmaður og formaður nefndarinnar, Sigurður Kári Kristjánsson, er ekki enn þá kominn í hús tel ég ekki ástæðu til þess að teygja lopann í þeirri von að hann komi í hús á þeim sex mínútum sem ég á eftir. Ég vil þá frekar koma upp aftur þegar formaðurinn mætir í hús.