132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

.

. mál
[18:58]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að kynna skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2005. Það er vel við hæfi að fara með inngangsorð skýrslunnar. Þar segir á þá leið að nú, 150 árum eftir að Ísland fékk verslunarfrelsi, verða utanríkisviðskipti sífellt mikilvægari fyrir íslenska hagkerfið. Við þurftum að berjast fyrir verslunarfrelsinu, eins og þekkt er. Þótt við tökum það sem sjálfsögð gæði, sem vonandi verða um alla tíð, þá er hollt fyrir okkur að leiða hugann að því hve mikilvægt er fyrir afkomu okkar sem útflutningsþjóðar að búa við verslunarfrelsi.

Það er ekki nokkur vafi á því að lífskjör væru ekki jafngóð og við búum við ef við byggjum ekki við slíkt viðskipta- og verslunarfrelsi. Ef okkur tekst að auka það frelsi mun hagur okkar vænkast og hið sama á við um önnur ríki.

Við eigum auðvitað að hafa það í huga, virðulegi forseti, þegar við beitum okkur á þeim vettvangi þar sem tekist er á um alþjóðleg viðskiptamál, ef við ætlum að hjálpa okkar minni bræðrum — þá vísa ég í lönd sem nefnd hafa verið þróunarlönd. Við aðstoðum þau helst með því að gefa þeim aðgang að mörkuðum okkar með vörur sínar. Við Íslendingar vorum talin fátækasta þjóð Evrópu um aldamótin 1900 og ein ástæðan fyrir því að um síðustu aldamót, í kringum 2000 vorum við talin ein auðugasta þjóð álfunnar er sú að við búum við viðskiptafrelsi. Við eigum að beita okkur fyrir því, virðulegi forseti að fleiri búi við slíkt frelsi og geti komið vörum sínum á bestu markaðina.

Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Í EFTA eru fjögur ríki. Auk okkar Íslendinga eru Noregur, Sviss og Liechtenstein. Sviss hefur ákveðna sérstöðu þar sem þeir eru ekki aðilar að EES-samningnum sem gerir það að verkum að nefndin er í orði kveðnu tvískipt, annars vegar þingmannanefnd EFTA og hins vegar þingmannanefnd EES. Í þingmannanefnd EES eiga Svisslendingar ekki aðild nema áheyrnaraðild þannig að þegar menn koma að þessu starfi fyrst virkar þetta nokkuð ruglingslegt. Í reyndinni hefur þetta gengið afskaplega vel og samstarfið er gott. Við í Íslandsdeildinni erum heppin að því leytinu til að við höfum verið með frábæran starfsmann sem heitir Arna Bang sem hefur staðið sig afskaplega vel við að undirbúa fundi og aðstoða okkur. Þar áður var Belinda Theriault sem ekki var síðri og það hjálpar okkur mjög mikið. Samstarf við aðrar aðildarþjóðir hefur því verið einstaklega gott.

Við tökum þátt í þingmannanefnd EES og í þeirri þingmannanefnd eru 24 þingmenn, tólf frá EFTA-ríkjunum og tólf frá ESB. Síðan er framkvæmdastjórn EES, þar eru sex þingmenn, þrír frá EFTA-ríkjunum og þrír frá ESB.

Mikið var um fundi á árinu 2005 eins og tíðkast á vettvangi þingmannanefndarinnar og ætla ég ekki að rekja þá alla hér, en þetta hefur verið lærdómsríkt af mörgum ástæðum. Árið 2005 var fyrsta heila árið þar sem stækkun Evrópusambandsins, og þar af leiðandi EES-samningsins, kom að fullu til framkvæmda þegar nýju aðildarríkin komu inn í Evrópusambandið. Einnig er fyrirhuguð frekari stækkun hjá Evrópusambandinu og hafa menn á þeim bænum raðað löndunum í þá röð að fyrst komi Búlgaría og Rúmenía og síðan Króatía og jafnvel fleiri ríki á Balkanskaganum. Einnig hafa verið uppi aðildarviðræður um langa hríð við Tyrkland. Þetta kemur okkur Íslendingum við sem aðilum að EFTA og EES vegna þess að þegar þær þjóðir ganga inn í Evrópusambandið þýðir það það að þær verða sömuleiðis aðilar að EES-samningnum. Í rauninni er það svo að ýmislegt sem gerist innan Evrópusambandsins tengist okkur með einum eða öðrum hætti þar sem við erum í miklum viðskiptum og samskiptum við þennan nágranna okkar, ef við getum komist þannig að orði.

Á þessum vettvangi hefur mikið verið rætt. Ýmis mál hafa verið tekin fyrir en einstaklega mikið hefur verið rætt um frelsi í þjónustuviðskiptum, þ.e. Lissabon-ferlið eða áætlun Evrópusambandsins, sem ber alla jafna heitið Lissabon-áætlunin. Þar settu menn sér fyrir nokkrum árum það markmið að verða, ef ég man rétt, virðulegi forseti, samkeppnishæfasta markaðssvæðið árið 2010 og ýmsar áætlanir settar fram til að það megi ná fram að ganga. En það verður að segjast að það hefur ekki gengið vel og við höfum heyrt það frá aðilum innan ESB sem hafa farið yfir þessi mál með okkur að menn hafa miklar áhyggjur af þessu máli. Menn hafa áhyggjur af ýmsum málum innan Evrópusambandsins, samkeppnishæfni ber þar hæst og sömuleiðis sjá menn fram á að stærstu aðildarríkin og þau öflugustu horfa fram á mikinn vanda sem tengist því að álfan, í það minnsta það sem er stundum kölluð gamla Evrópa, er að eldast nokkuð hratt, ef þannig má að orði komast. Mjög mikill fjöldi fólks er að komast á lífeyrisaldur, stærri hópar en áður hefur verið og vandinn felst í því að þar eru ekki sjóðir eins og við þekkjum á Íslandi, þ.e. ekki hafa verið uppsafnaðir sjóðir fyrir þetta fólk heldur hefur verið um að ræða gegnumstreymiskerfi sem þýðir að þeir sem eru vinnandi nú og í framtíðinni þurfa að halda uppi lífeyrisréttindum þess fólks og það dæmi mun illa ganga upp miðað við núverandi forsendur. Þetta eru mál sem menn ræða mikið á vettvangi Evrópusambandsins ásamt öðrum verkefnum sem verður að taka á ef menn ætla að ná því markmiði sem sett er, að verða samkeppnishæf við önnur markaðssvæði og eru menn þá að hugsa um svæði eins og Bandaríkin, Japan, Kína, Indland og jafnvel önnur. Það er því mjög lærdómsríkt fyrir okkur sem sitjum í nefndinni og á fundum með þessu fólki að heyra viðhorf þess og áhyggjur. Umræðan á þessum vettvangi er oft og tíðum svolítið önnur en við þekkjum hér á Íslandi þegar slík Evrópumál koma upp.

Áherslurnar innan EFTA-þingmannanefndarinnar hafa sömuleiðis verið mjög mikið á fríverslunarsamninga. Ég held ég fari rétt með, virðulegi forseti, að á undanförnum árum eða missirum hafi verið gerðir 14 nýir fríverslunarsamningar af hálfu EFTA, en áherslan hefur verið á það að ná sem flestum fríverslunarsamningum og þá er það eðli málsins samkvæmt mesti hagur þessara ríkja, EFTA-ríkjanna, að ná samningum við sem stærst markaðssvæði og hafa menn litið á Bandaríkin og Kanada sérstaklega í því samhengi. Sömuleiðis hafa menn reynt að ná samningum við Kína og Japan. Nýverið var gerður samningur við Suður-Kóreu og sá samningur liggur nú hér fyrir þinginu. En eins og staðan er í dag eru einungis Íslendingar í samningaviðræðum við Kínverja en ekki EFTA sem heild. Japan hefur verið frekar tregt til þess að koma að samningaborðinu en mikill hugur er í þeim aðilum sem sitja núna í þingmannanefndinni, held ég að ég geti fullyrt, að reyna að ná þessum samningum sem fyrst og við sem flesta.

Við höfum notað tækifærið og reynt að hitta ávallt á forusturíki Evrópusambandsins. Í Evrópusambandinu er sá háttur hafður á eins og kunnugt er að hvert forusturíki fer með forustu í sambandinu í sex mánuði. Síðast hittum við forustumenn Breta og voru þeir fundir mjög gagnlegir. Núna fara Austurríkismenn með forustuna og hefur þingmannanefndin enn sem komið er ekki haft tækifæri til að hitta þá aðila. Einnig hefur verið fundað á Íslandi með forustumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, þeim sem stýra Evrópumálum á þeim bæ, með samstarf við þá aðila í huga þannig að þetta verði jafnskilvirkt og það getur verið. Því að eins og menn þekkja tengist sú löggjöf sem við höfum tekið hér upp, þær tilskipanir sem við tökum upp í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið, oft og tíðum sveitarfélögunum. Það skiptir því miklu máli, virðulegi forseti, að sveitarfélögin hafi beinan aðgang að þeim tækjum sem við höfum til að hafa áhrif á gang samningsins því að þvert á það sem margir halda geta Íslendingar haft mikil áhrif á þær tilskipanir sem við síðan tökum upp í formi laga. Það skiptir hins vegar miklu máli að vinna það skipulega og gera það þá í tíma. Þar þurfa eðli málsins samkvæmt, ef einhver kostur er, forustumenn sveitarfélaganna að koma að og þess vegna funduðum við með forustumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og lýstum því yfir að við hefðum fullan hug á að reyna að vinna með þeim og ég vonast til að það samstarf verði sem blómlegast.

EFTA-ríkin eru kannski ekki stór hvert um sig en þetta eru hins vegar öflug ríki sem hægt er að segja að búi við góð lífskjör, samanborið við önnur ríki í heiminum, og búa við stöðugan efnahag. Ef við berum okkur saman við Evrópusambandið standa þau mun betur en flest og nær öll ríki Evrópusambandsins. Menn eru hugsanlega að keppa við Lúxemborg þegar þeir bera sig saman við kennitölur. Þrátt fyrir að fjölmenni í þessum löndum sé ekki gríðarlega mikið eru þetta hins vegar eftirsóknarverðir markaðir og það er auðvitað eitthvað sem gerir það að verkum að oft og tíðum er auðveldara að fá aðila að samningaborðinu.

Ýmsir samningar eru á borðinu. Búið er að samþykkja 14 samninga og sá nýjasti er samningur við Túnis og sömuleiðis hefur verið gerður samningur við Líbanon, svo ég taki þá nýjustu, og ég nefndi Suður-Kóreu og suður-afríska tollasambandið. Ég get farið, virðulegi forseti, nákvæmar yfir það, ef menn hafa áhuga á því, hver staðan er á hverjum samningi fyrir sig miðað við nýjustu upplýsingar sem ég hef hvað þetta varðar.

Ég tel, virðulegi forseti, að framtíð EFTA sé mjög björt. EFTA hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina en ég held að það skipti gríðarlega miklu máli fyrir okkur að nýta þetta tæki sem við höfum og þetta góða samstarf sem við eigum með þjóðum þar til að auka viðskiptafrelsi okkar og það gerum við eðli málsins samkvæmt með fríverslunarsamningum. Ég nefndi að mikilvægt er að ná samningum við sem flesta aðila og þá sérstaklega kannski þessi stóru markaðssvæði og horfi ég sérstaklega á Bandaríkin og Kanada í því samhengi. Að vísu eru búnar að vera samningaviðræður eða samningur á borðinu um mjög langa hríð við Kanada sem strandar á deilu Kanadamanna og Norðmanna um skipasmíðar. Það er auðvitað mjög óþægilegt að svo skuli vera og margoft hefur verið reynt að ýta á eftir þeim samningi og ég vonast til þess að hann náist í gegn fyrr en seinna þó að ég geti því miður, virðulegi forseti, ekki lofað því.

Á sama hátt skiptir afskaplega miklu máli að ná betri samningum við Bandaríkin, það mikilvæga viðskiptaland, en við höfum nú þegar gert. Einnig væri auðvitað mjög æskilegt, þó að það sé ekki gert á vettvangi EFTA, að við næðum samningum við Kínverja og þau öflugu ríki sem eru alltaf að verða meiri og stærri leikendur í alþjóðlega viðskiptamarkaðnum, ef þannig má að orði komast.

Ég held sömuleiðis að við ættum að vera mjög vel vakandi núna því að Evrópusambandið er í ákveðinni kreppu hvað varðar stækkunaráform sín. Eins og allir vita hefur Evrópusambandið lent í ýmsum hremmingum, t.d. hafa ríki eins og Holland og Frakkland verið að fella evrópsku stjórnarskrána. Það mál er í lausu lofti ef þannig má að orði komast.

Menn hafa verið mjög hræddir við að fara út í frekari stækkanir og ég held að það hljóti að koma til greina að skoða hvort þessi samningur sem hefur reynst svo vel, þ.e. samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, gæti verið liður í því að opna og bæta lífskjör í þessum löndum þó að að sjálfsögðu séu líka tækifæri fyrir okkur hvað það varðar. Ég held að við eigum að skoða það.

Ég ligg svo sem ekkert á þeirri skoðun minni að mér fyndist það vel koma til greina að þau ríki sem núna eru að bíða eftir að komast inn í Evrópusambandið, og ég nefni hér Búlgaríu, Rúmeníu og Króatíu, geti vel átt heima í EFTA, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og orðið þannig aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég held að við eigum að vera opnir fyrir því að fá fleiri ríki inn í EFTA og sömuleiðis að vinna áfram að því að stækka og fjölga fríverslunarsamningum við þriðju ríkin, eins og þau eru kölluð og ég var að vitna hér í áðan.

Á sama hátt held ég að við eigum að vera mjög einörð, EFTA-ríkin, í að liðka til og gera það sem við getum til að koma á samningum hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Það er auðvitað æskilegasta formið að Alþjóðaviðskiptastofnunin, þ.e. nokkurn veginn öll ríki heimsins, sé með sem stærstu viðskiptasamningana, sem minnstar hindranir á milli landa. Það er hins vegar ekki einfalt verk eins og við þekkjum og það er erfitt að meta stöðuna á þeim vettvangi núna, hvort menn geta verið bjartsýnir eða svartsýnir. En ég tel, og ég hef margoft lýst því yfir, að við Íslendingar ættum að skilgreina betur markmið okkar með stuðningi við landbúnaðinn. Þá er ég að vísa í innflutningsstuðning, hvað við viljum vernda og þá hvers vegna. Ég sé að það væri hægt að ná samstöðu um að styrkja, og þá m.a. út frá menningarforsendum, hefðbundna sauðfjárrækt og nautgriparækt. En hins vegar sé ég enga sérstaka ástæðu til að vernda með tollum eða öðru slíku landbúnað eins og alifuglarækt, svínarækt og annað slíkt sem er að mörgu leyti líkari iðnaði en landbúnaði.

Ég geri mér ljóst að aðilar í þeirri grein þyrftu aðlögun ef við færum út í róttækar breytingar hvað það varðar. En ég hef ekki fengið nógu veigamikil rök fyrir því að halda þeim hlutum eins og raun ber vitni, þeirri verndarstefnu sem við erum með hvað það varðar. Ég held að íslenskur landbúnaður geti átt framtíð fyrir sér en þá fyrst og fremst með ákveðinni sérstöðu, ákveðnum gæðum. Það er ekkert óeðlilegt við það að við viljum halda í þá menningararfleifð sem landbúnaðinum fylgir en menn þurfa að mínu áliti að skilgreina það betur hvar línan liggur.

Ég vek athygli á að það er hagur okkar allra að hafa eins mikið viðskiptafrelsi og mögulegt er, svona almennt talað. Að mínu áliti er það sannarlega verkefni okkar og að mörgu leyti höfum við staðið okkur mjög vel í því. Við erum hér með mikinn innflutning og litla vernd á ýmsum landbúnaðarafurðum sem við alla jafna tölum ekki um sem landbúnaðarafurðir, á ég þá við hrísgrjón, ávexti og ýmislegt slíkt. En betur má ef duga skal. Við skulum heldur ekki gleyma því að ef við opnum fyrir þessar vörur sköpum við líka tækifæri fyrir fólk víðs vegar í heiminum, á ýmsum fátækum svæðum, þó það sé ekki algilt. Á mörgum fátækum svæðum er framleiðsla á þessum vörum og við gefum því fólki tækifæri til að bæta lífskjör sín og töpum ekkert á því þegar heilt er talið. Þvert á móti gerir það það að verkum að hér verður ódýrara að lifa, eins og það er kallað á mannamáli.

En í stuttu máli, virðulegi forseti, get ég svarað hér spurningum um það sem að þessari skýrslu lýtur. Það er engum vafa undirorpið að EES-samningurinn hefur reynst okkur afskaplega vel. Það var mikið heillaspor, bæði að ganga í EFTA og sömuleiðis að samþykkja EES-samninginn. Ég held að enginn, alla vega ekki margir — ég hef ekki heyrt raddir um það lengi — velkist í vafa um að það hafi verið heillaspor og gott fyrir þjóðina.

Ég tel, virðulegi forseti, að EFTA geti átt bjarta framtíð fyrir sér. Það veltur að vísu á því að þær þjóðir sem þar eru inni sjái þau sóknarfæri sem EFTA hefur, sem það hefur svo sannarlega. Þá er ég að vísa bæði í samninga við þriðju ríkin sem við þurfum að setja meiri kraft í en hefur verið núna. Á sama hátt tel ég, virðulegi forseti, að við eigum að skoða það sérstaklega — í ljósi þeirra aðstæðna að það er langt frá því sjálfgefið að Evrópusambandið hleypi á næstunni inn nýjum aðildarþjóðum — að stækka EFTA-hópinn, að sjálfsögðu að uppfylltum þeim skilyrðum sem eru í tengslum við slíkt. Mér finnst ekki einu sinni sjálfgefið að EFTA þurfi að vera bundið við Evrópu. Ég tel að menn eigi að ræða það af fullri alvöru að stækka EFTA og hleypa fleiri þjóðum inn í þann samning. Ég tel einnig að við eigum að gera hvað við getum til að ýta undir að samningar náist á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Þar þurfum við Íslendingar að líta í eigin barm og endurmeta stöðu okkar varðandi það hvað við viljum vernda á íslenskum markaði. Menn horfa kannski fyrst og fremst á landbúnaðinn enda sé ég í rauninni ekki, virðulegi forseti, margt annað, marga aðra framleiðslu, sem — við ættum auðvitað að skilgreina okkar viðskiptastefnu sem er mikilvægt — við þyrftum sérstaklega að vernda. Ég held að það sé hagur okkar allra að hafa hér sem frjálsust viðskipti. Það snýr ekki eingöngu að okkur sem hér búum, að við getum keypt ódýrari vörur. Þetta snýr líka að því, og þá kannski jafnvel frekar, að ýta verslun inn til landsins. Því það er þannig að íslensk verslun er í samkeppni við útlenda verslun. Það er ódýrt að fljúga milli landa, ódýrara en nokkurn tímann hefur verið. Fólk ber eðli málsins samkvæmt saman verð á vöru á Íslandi og í þeim löndum sem fólk ferðast mest til. Það er eðlilegt. Við þurfum að standast þá samkeppni.

Stjórnvöld geta gert það, m.a. með því að lækka tolla- eða vörugjöld. Sum þessara gjalda eru tilkomin af öðrum ástæðum en vernd. Vísa ég þá t.d. í bæði áfengisgjöld og gjöld á bifreiðum. Þar liggja aðrar forsendur að baki. En ef við tökum svona venjulegt dæmi þá er t.d. erfitt að átta sig á því af hverju þetta svokallaða iPod, græja sem tröllríður nú öllu og er mikið tískufyrirbæri, og ég geri engar athugasemdir við það í sjálfu sér, er jafndýrt og raun ber vitni. Það er engin sérstök ástæða til að ýta þeirri verslun út úr landinu og sjá til þess að það fólk sem hefur áhuga á að kaupa slíkt geri það eingöngu í útlöndum. Við getum stjórnað því með þeim tolla- og vörugjaldaflokkum sem slíkar vörur eru settar í. Þetta er auðvitað bara eitt einstakt dæmi en það má örugglega tilgreina ýmislegt fleira.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég legg áherslu á að framtíð EFTA er björt. Við eigum að róa að því öllum árum að auka viðskiptafrelsi okkar og EFTA er mjög gott tæki til þess.