132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2005.

558. mál
[19:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ágæta ræðu og ágæta skýrslu um starf EFTA-nefndarinnar. Aðeins örfá orð af minni hálfu.

Fyrst það sem ég greip upp í lok ræðu hv. þingmanns um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Þar tel ég að við eigum að setja ákveðna fyrirvara og ákveðnar undanþágur, sem Evrópusambandið gerði reyndar í tengslum við samninga við Alþjóðaviðskiptastofnunina, þ.e. að undanskilja velferðarþjónustu. Reyndar er Evrópusambandið ekki alveg sjálfu sér samkvæmt í því efni sem ýmsu öðru. Það hefur verið að reisa kröfur á önnur ríki, t.d. um að gera vatnsbólin að söluvöru, að markaðsvöru, en fyrir sína hönd hefur Evrópusambandið gert ákveðna fyrirvara, almenna fyrirvara, um velferðarsviðið, velferðarþjónustuna, en spilar síðan út einstökum efnisþáttum inn í samningaviðræðurnar sem eru, eins og menn vita, á bak við luktar dyr. Menn fá ekki upplýsingar um hvað er verið að gera á þeim bænum. Í Evrópusambandinu er þetta náttúrlega mjög miðstýrt því öll aðildarríki þess hafa afsalað sér samningsumboði í hendur framkvæmdanefndar sambandsins sem fer með samningsumboðið fyrir þeirra hönd. Ekki beint lýðræðisleg vinnubrögð.

Annað varðandi íslenska landbúnaðinn, athyglisverðar hugmyndir hv. þingmanns um að gera greinarmun milli annars vegar hefðbundins landbúnaðar og landbúnaðar sem á meira sammerkt með verksmiðjuframleiðslu, sjónarmið sem er vert íhugunar. Hann nefndi tollapólitík varðandi landbúnaðarvöruna. Þá er það nú svo að Íslendingar eru miklu vænni, ef svo má segja, gagnvart þriðja heiminum og þróunarríkjunum en t.d. Evrópusambandið. Hér eru engir tollar á þær vörur sem harðast er deilt á Evrópusambandið fyrir að tolla gegn þróunarríkjunum. Við erum ekki með tolla á sykur, á kaffi, á te, á það sem einhvern tímann var kallað nýlenduvörur vegna þess að þær komu frá ríkjum sem áður voru nýlendur Evrópuríkjanna.

Aðeins varðandi EES-samninginn. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að hann hafi verið til góðs. Ég tel nefnilega að hann hafi ýmsa ókosti sem Evrópusambandið hefur sjálft, þ.e. þessi endalausa miðstýringarárátta Evrópusambandsins. Ég tel hins vegar að það hefði verið æskilegri þróun að þróa EFTA-samstarfið áfram vegna þess að þar eru ekki skuldbindingar um skipulagsbreytingar á samfélaginu. Það er það sem ég hef helst við þennan samning að athuga og reyndar aðild að Evrópusambandinu. Ég tel þær skuldbindingar skerða vald okkar og möguleika til að hafa áhrif á gerð okkar samfélags.

Hins vegar er ég alveg sammála hv. þingmanni að auðvitað er það okkur keppikefli að auðvelda viðskipti við erlend ríki og að grípa til ýmissa ráðstafana til að gera þau smurðari, ef svo má segja. Þegar menn hafa verið að tala um alla þá löggjöf sem við tökum frá Brussel og tala þá í prósentum, að það sé hátt hlutfall af lagasmíð á Íslandi sem komi frá Brussel, þá vilja menn gleyma því að flestar þessar reglugerðarlagasmíðir eru mjög smávægilegar, unnar af embættismönnum þess vegna og þegar þær koma hér fyrir þingið er fullkomin samstaða um það. Það er alls kyns stöðlun og annað af því tagi sem við gætum vel gert án þess að eiga aðild að Evrópusambandinu og er nokkuð sem við eigum að sjálfsögðu að horfa til annarra ríkja um einnig. Þar á að sjálfsögðu allur heimurinn að vera undir.

Þetta eru svona almennar vangaveltur. Eitt vildi ég kannski gera athugasemd við en þegar vísað er í Lissabon-ferlið í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Lissabon-ferlið, um vöxt, framtíð og samkeppnishæfni hagkerfis Evrópusambandsins, og hugmyndir um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum voru mikið til umræðu hjá þingmannanefnd EFTA og EES árið 2005.“

Þetta er eðlilegt, þetta er náttúrlega það sem hefur verið efst á döfinni hjá Evrópusambandinu á síðustu missirum og árum, mikil átök um Lissabon-ferlið og hluti af því er þjónustutilskipunin svonefnda sem Evrópuþingið gekk til atkvæða um fyrir um tíu dögum með mjög óljósri niðurstöðu. Frumvarpið sem kom frá þinginu er mjög óljóst og fer núna til ráðherranefndarinnar. En Lissabon-ferlið er í mínum huga heldur víðtækara, eða sá grunnur sem það ferli byggir á er víðtækari en vísað er til hér í skýrslunni, því eins og hv. þingmaður lýsti réttilega þá settu menn sér það í Lissabon, höfuðborg Portúgals árið 2000, að stefna að því að Evrópusambandið yrði kraftmesta markaðseining í heiminum innan einhvers tiltekins tíma, ársins 2010 minnir mig. Ferlið skyldi reist á þremur póstum, þremur grunnstoðum, sjálfbærri þróun, markaðsviðskiptum og hinum félagslega þætti einnig, nokkuð sem verkalýðshreyfingin hefur lagt mjög ríka áherslu á. Það sem hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu undanfarna mánuði og missiri er að sá þáttur, þ.e. hinn félagslegi þáttur, hafi verið vanræktur. Menn hafi horft fyrst og fremst á markaðshliðina en vanrækt félagslega þáttinn.

Að lokum vil ég segja að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði áttum á sínum tíma aðild að þingmannanefnd EFTA og sat ég í nefndinni fyrir okkar hönd. Eftir síðustu alþingiskosningar misstum við sæti okkar í nefndinni þar sem við töpuðum einum þingmanni í kosningunum, eins og menn eflaust rekur minni til. Ég tel það vera mjög miður, ekki bara fyrir okkur sem gjarna vildum fylgjast með þessu starfi heldur einnig fyrir nefndina sem slíka á þeirri forsendu að það er mjög mikilvægt að öll sjónarmið komist að umræðunni. Í þessu tilviki er okkar flokkur með sérstöðu að ýmsu leyti í afstöðunni til Evrópusambandsins, EFTA og EES-samkomulagsins. Ég tel því að við eigum að reyna að tryggja að öll sjónarmið komist að í þessu starfi, hvernig sem við höldum á málum til að svo verði, en þetta var sjónarmið sem ég vildi gjarnan að kæmi fram hér við þessa umræðu.